Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við dómi Hæstaréttar í öryrkjamálinu

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 13:08:09 (756)

2003-10-17 13:08:09# 130. lþ. 14.96 fundur 96#B viðbrögð ríkisstjórnarinnar við dómi Hæstaréttar í öryrkjamálinu# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[13:08]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Það var með nokkuð merkilegum aðdraganda sem Alþingi var kallað saman um miðjan janúar árið 2001. Hinu háa Alþingi var þá ætlað að takast á við eitt sérkennilegasta mál sem ein ríkisstjórn undir forustu núverandi forsrh. ætlaði meiri hlutanum, þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna, að knýja fram. Það var með miklum ólíkindum að Alþingi væri ætlað að hrinda dómi æðsta dómstóls okkar, Hæstaréttar. Þó má í þessu sambandi minna á gjörðir ríkisstjórnarinnar í kjölfarið, Valdimarsdómsins svokallaða, um kvótamálið. Viðbrögð stjórnarandstöðunnar við málatilbúnaði ríkisstjórnarinnar í kjölfar öryrkjadómsins í desember 2000 voru hörð, enda var stjórnarandstaðan sannfærð um að framsetning ríkisstjórnarinnar sem byggði á niðurstöðu sérstaks starfshóps góðvina hæstv. forsrh. í lögfræðingastétt væri röng og brot á stjórnarskrá lýðveldisins.

Það er nú komið á daginn með dómi Hæstaréttar í gær að afstaða okkar í stjórnarandstöðu um stjórnarskrárbrot var rétt. Formenn stjórnarandstöðuflokka skrifuðu bréf til virðulegs forseta Alþingis, Halldórs Blöndals, sem ég ætla að leyfa mér að vitna í. Það var skrifað 16. janúar 2000 og undirritað af formönnum stjórnarandstöðuflokkanna. Það hljóðaði svo, með leyfi forseta:

,,Það er álit undirritaðra formanna stjórnarandstöðuflokka á Alþingi að frv. til laga um almannatryggingar á þskj. 624 sé óþinglegt með þeim rökum að frv., ef að lögum verður, hrindir dómi Hæstaréttar sem byggður er á ákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins, en ákvæði stjórnarskrárinnar hafa þingmenn lagt við drengskap sinn að virða, enda fráleitt að bera fram frv. til laga á Alþingi sem inniheldur lagaákvæði sem brýtur í bága við stjórnarskrá. Því er frv. með öllu óþinglegt og ber að vísa því frá sem óhæfu til afgreiðslu á hinu háa Alþingi.``

Krafist var úrskurðar hæstv. forseta um efni málsins.

Niðurstaðan varð sú að hæstv. forseti taldi að þetta bréf ætti ekki við rök að styðjast og á þessi málefnalegu rök var lítið hlustað. Meiri hlutinn keyrði sem sagt áfram í villu síns vegar. Það komu fram í Morgunblaðinu hjá Ragnari Aðalsteinssyni hæstaréttarlögmanni svofelld ummæli, með leyfi forseta:

,,,,Dómurinn ber það hins vegar með sér [þ.e. dómurinn sem féll í gær] að hann er málamiðlun,`` segir Ragnar. ,,Það stafar af því að þegar dómurinn gekk á sínum tíma í desember 2000, þá varð Hæstiréttur fyrir einhverju mesta aðkasti sem hann hefur orðið fyrir í sögu sinni af hálfu framkvæmdarvaldsins, þ.e. ríkisstjórnarinnar. Sagt var að rétturinn notaði pólitísk sjónarmið frekar en lögfræðileg til að komast að niðurstöðu, hann hefði afskipti af fjárveitingarvaldinu og fleira í þeim dúr, án þess að þetta væri rökstutt.````

Nú er komið í ljós með dómi Hæstaréttar og niðurstöðu hans, sameiginlegri með sjö mönnum, að brot á stjórnarskránni að því er varðar afturvirknina var rétt ályktun stjórnarandstöðunnar. Undan því geta ríkisstjórnarflokkarnir ekki vikist. Þeir sitja uppi með það að hafa knúið hér fram lög sem hafa leitt til stjórnarskrárbrots. Það þarf nú að leiðrétta aftur í tímann fyrir árin 1999 og 2000. Málið kemur sem sagt aftur til þingsins í formi fjáraukalaga þegar á þessu hausti og það verður auðvitað hægt að taka um það lengri umræðu en hér gefst tækifæri til.

Í lokin langar mig að vitna í ummæli hv. fyrrv. þingmanns og formanns Frjálslynda flokksins, Sverris Hermannssonar, þar sem hann sagði, með leyfi forseta:

,,Herra forseti. Frjálslyndi flokkurinn hefur frá öndverðu álitið að mál þetta væri óþinglegt og með öllu óhæft til umræðu og afgreiðslu á hinu háa Alþingi af því að ýmsar greinar þess, ef að lögum verða, brjóta bersýnilega í bága við stjórnarskrá lýðveldisins.``