Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við dómi Hæstaréttar í öryrkjamálinu

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 13:21:27 (759)

2003-10-17 13:21:27# 130. lþ. 14.96 fundur 96#B viðbrögð ríkisstjórnarinnar við dómi Hæstaréttar í öryrkjamálinu# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[13:21]

Þuríður Backman:

Hæstv. forseti. Ástæða er til að þakka Öryrkjabandalaginu fyrir vasklega framgöngu í réttindamálum félagsmanna sinna og óska þeim til hamingju með samhljóða dóm Hæstaréttar. Barátta Öryrkjabandalagsins fyrir réttindum félagsmanna sinna hefur verið mjög einörð og hörð. Talsmenn öryrkja hafa átt við ramman reip að draga þar sem ríkisstjórnin hefur staðið þétt saman með hæstv. forsrh. í broddi fylkingar og reynt að gera lítið úr baráttu þeirra með útúrsnúningum og stóryrðum.

Pirringur og gremja ríkisstjórnarflokkanna hefur ekki eingöngu beinst gegn Öryrkjabandalaginu, heldur hefur Hæstiréttur einnig fengið væna sneið af gremjunni í tengslum við mál sem snerta málefni öryrkja. Það er því ánægjuefni að vita til þess að til séu samtök sem láta ekki kúga sig og halda ótrauð áfram í réttindabaráttu sinni. Pirringurinn er enn til staðar, ríkisstjórninni og ríkisstjórnarþingmönnum er heitt í hamsi. Það er okkur líka. Okkur var það í janúar árið 2001 þegar við fjölluðum um þetta mál. Það var okkur öllum, sérstaklega stjórnarandstæðingum, þungbært að vera hér þátttakendur í þeirri gjörð sem þá var gjörð hér á Alþingi. Ég tel að okkur muni líða þannig áfram þegar við vinnum hér að áframhaldandi lagasetningu og breytingum að við munum taka þungt í árinni.

Hæstv. forseti. Allt það ferli sem hófst með fyrra öryrkjadómnum hefur verið okkur mjög lærdómsríkt og lýsir vel hvernig núverandi meiri hluti hefur unnið hér á hinu háa Alþingi. Allt er keyrt í gegn í krafti meiri hlutans og ef einhver gagnrýni heyrist utan úr þingsal er hún slegin niður eins og vel kom hér fram í umræðum í morgun.

Hæstv. forseti. Það muna allir eftir þessum hörðu orðum og umræðum sem fóru hér fram eftir öryrkjadóminn 19. des. árið 2000 þar sem ríkisstjórnin var dæmd fyrir mannréttindabrot. Og hver voru viðbrögðin? Þing var kallað saman til að afgreiða skerðingarákvæði lífeyrisgreiðslna öryrkja og lögfesta með þeim brot á stjórnarskrá lýðveldisins, eins og fram kom í ræðu minni við umfjöllun um frv. Þingmenn ríkisstjórnarflokkanna létu mata sig á hinu gagnstæða.

Nú hafa þessi lög verið dæmd af Hæstarétti Íslands sem stjórnarskrárbrot, eða hluti af þeim. Og það var ekki eins og stjórnarþingmenn hefðu ekki fengið aðvaranir um að lagasmíðin mundi brjóta í bága við stjórnarskrána. Þeir fengu þær. Því má álíta að hér hafi verið um vísvitandi gjörning að ræða.

Stjórnarandstaðan varaði því sannarlega við því að þingmenn stjórnarliða væru að fremja stjórnarskrárbort ef þeir samþykktu nýju lögin. Þetta fannst mönnum ótrúleg lágkúra, t.d. hæstv. forsrh. sem viðhafði stór orð í þeim efnum.