Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við dómi Hæstaréttar í öryrkjamálinu

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 13:31:07 (762)

2003-10-17 13:31:07# 130. lþ. 14.96 fundur 96#B viðbrögð ríkisstjórnarinnar við dómi Hæstaréttar í öryrkjamálinu# (umræður utan dagskrár), HHj
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[13:31]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Þegar Garðar Sverrisson, um miðjan síðasta áratug, gerði mér og nokkrum öðrum félögum í Öryrkjabandalaginu grein fyrir því mikla óréttlæti sem fælist í reglugerð um skerðingu á tekjum öryrkja vegna tekna maka, þá trúði ég ekki mínum eigin eyrum. Ég trúði því ekki að þeim sem bjuggu við sama hlutskipti og ég, væru 75% öryrkjar, ungir menn, en ekki eins heppnir og ég að hafa vinnu, og giftust maka sem hefði sæmilegar tekjur, væri ætlað að lifa ævina út á 18 þús. kr. á mánuði. Það þóttu mér grimmúðleg örlög og ég trúði ekki öðru en að ef bent væri á það, þá mundu góðir menn ganga í að leiðrétta þetta og ég þakkaði guði mínum fyrir að hafa vinnu.

Hv. Alþingi var bent á óréttlæti þessarar reglugerðar og hvað gerðuð þið, herra forseti? Þið settuð lög nr. 149/1998 til að leiða þennan ósóma staðfastlega í lög. Ég tel að það hafi ekki aðeins verið rétt hjá Hæstarétti að það hafi verið brot á lágmarksmannréttindum, herra forseti. Ég tel að það hafi sýnt skort á góðu kristilegu siðferði. Jafnvel þjóðkirkjan benti þinginu á að hér væri helgri stofnun, hjónabandinu, ógnað með ólögum þessum. Menn voru varaðir við að setja þau og menn voru reknir upp í Hæstarétt og sigraðir þar og menn komu aftur og menn neituðu að afhenda minnisblöð og þeir voru reknir út í Hæstarétt og sendir aftur. Þeir voru varaðir við að setja lög nr. 3/2001 og það var farið með þá í Hæstarétt og það var 7:0 í gær, herra forseti, 7:0. Aftur er sómi manna þessi. Þrjár kennslustundir í lögfræði hefur Öryrkjabandalag Íslands haldið fyrir ríkisstjórnina.

Það er rétt hjá hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni að drengskaparheit þingmanna er við stjórnarskrá landsins. Menn hafa hér brotið hana, ekki bara einu sinni heldur aftur og aftur. Aðvaraðir og síðast en ekki síst gagnvart þeim sem síst skyldi, gagnvart þeim sem kjörnir fulltrúar helst eiga að verja, öryrkjum, þeim sem höllustum fæti standa hafa menn aftur og aftur brotið af sér. Svo koma menn hér sigri hrósandi og stoltir af því að kannski hafi Hæstiréttur sagt að þeir megi samt kroppa 8 þús. kr. af þessum öryrkjum á mánuði, 8 þús. kr. Já, mikill er sómi yðar, herra forseti, mikill er sómi yðar.

En það stendur hvergi í stjórnarskrá lýðveldisins að menn þurfi ekki að virða hana nema stundum og það stendur hvergi í drengskaparheiti þessara manna sem hér sitja að þeir megi brjóta gegn stjórnarskránni stundum, dálítið eða gagnvart sumum og það stendur sannarlega ekki, herra forseti, að þeir megi gera það ef þeir eru svo vitlausir, ef þeir eru svo vitlausir að gera það óafvitandi og ber þá nýrra við, herra forseti, ef hæstv. forsrh. er farinn að skýla afglöpum sínum bak við eigin fáfræði eða dómgreindarskort.

(Forseti (HBl): Ég vil minna hv. þm. á að hann á að víkja máli sínu til forseta en ekki ávarpa einstaka þingmenn.)