Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við dómi Hæstaréttar í öryrkjamálinu

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 13:38:13 (764)

2003-10-17 13:38:13# 130. lþ. 14.96 fundur 96#B viðbrögð ríkisstjórnarinnar við dómi Hæstaréttar í öryrkjamálinu# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖS
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[13:38]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er snautlega lítið sem hefur komið fram af hálfu stjórnarliðanna í þessari umræðu sem hægt er að telja málefnalegt. Það hefur komið fram með ótvíræðum hætti að hæstv. forsrh. skammast sín ekki einu sinni fyrir það að vera hér á sínu 12. ári sem forsrh. með tvíbrotna stjórnarskrá á bakinu. Og hæstv. félmrh. sem er eini maðurinn sem hefði haldið pólitísku lífi hér ef orð mundu standa kemur og lýsir því yfir að vilji hæstv. utanrrh. til þess að brjóta stjórnarskrána hafi ekki verið nógu einbeittur og þess vegna fái hann að hírast áfram í embætti. Ja, heyr á endemi. Og svo kemur hv. þm. Pétur Blöndal, gæslumaður réttinda og eignarréttar, og segir að þetta hafi verið giska góður dómur, stjórnarskráin hafi ekki verið brotin nema á einu ákvæði. Hvar er metnaður og siðferði stjórnarliðs sem segir svona andspænis stjórnarskránni?

Það er þó merkilegt að hæstv. forsrh. sýnir þó aðeins lit í kinnum. Hann ber þó örlítinn kinnroða yfir sínum eigin verkum undir lok ferils síns en það birtist í því, herra forseti, að hann kom hingað og talaði um einhvern allt annan dóm heldur en þann sem féll í gær. Hæstv. forsrh. er alltaf í keppni og samkvæmt kappleiknum sem fór fram í gær, þá var það sá sem situr þarna, hæstv. forsrh. sem vann 7:0. Hæstv. forsrh. talaði um allt aðra hluti heldur en þá sem dómurinn sem féll í gær fjallaði um. Hann bjó til sinn eigin sýndarveruleka þar sem hann var verjandi, hann var sækjandinn sem setti fram dómkröfurnar og auðvitað var það hann sem var dómari. Og dómsúrskurðurinn var þannig að allt er í lagi, eiginlega allt sem hæstv. forsrh. hefur gert í málinu væri rétt, allt sem við höfum sagt væri rangt. Hæstv. forsrh. tók þar sérstaklega til að það hefði verið dæmt, hann orðaði það svo og var ekki hægt að skilja hann öðruvísi en þannig að í fyrsta lagi þá hefði það verið úrskurður Hæstaréttar í gær að það væri í lagi að skerða bætur öryrkjanna með þeim hætti sem gert er. Það verður að koma fram, herra forseti, að dómkröfurnar lutu ekkert að því. Það þarf þá sérstakt mál til þess og þetta kemur hvergi fram í dómnum en svona vinnur hæstv. forsrh. þegar hann er í kröppum dansi. Hann veit að sókn er besta vörnin, jafnvel þó að verið sé að sækja á röngum og vondum forsendum og hæstv. forsrh. hélt því fram að það sem við sögðum fyrr á árum um að mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar hefðu verið brotin væri tóm vitleysa.

Herra forseti. Hvernig lýsir dómurinn í gær úrskurðinum frá 1990? Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Taldist sú skerðing meiri en svo að hún tryggði öryrkjum þau lágmarksréttindi, sem fælust í 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, þannig að þeir fengju notið þeirra mannréttinda, sem 65. gr. hennar mælti þeim.``

Herra forseti. Þarf þetta að vera skýrar? Þarf það að vera skýrar að hæstv. forsrh. túlkar dóminn með einhverjum allt öðrum hætti en Hæstiréttur sjálfur skrifar hann niður.

Herra forseti. Menn verða að læra af þessu máli. Við verðum öll að læra af þessu og við verðum að læra það að ekki er hægt að skella skollaeyrum við því þegar Öryrkjabandalagið og samtök fólks sem eru að berjast fyrir rétti sínum koma aftur og aftur með fullgild rök. Það er ekki hægt að kasta því til hliðar eins og það skipti ekki máli.

Nú hefur ríkisstjórnin tvo dóma á bakinu. Herra forseti. Í reynd hefur hún þann þriðja því að það var líka umsögn umboðsmanns Alþingis.

Herra forseti. Þetta er álitshnekkir fyrir ríkisstjórnina, sama hvaða leikrit hæstv. forsrh. setur upp og þetta er spor fram á við í réttindabaráttu okkar. Þarna hefur það komið fram að landsmenn njóta félagslegra réttinda sem falla undir stjórnarskrárvarin eignarréttindi. Það er ákaflega mikilvægt.