Tónlistarnám á framhaldsskólastigi

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 13:51:08 (766)

2003-10-17 13:51:08# 130. lþ. 14.95 fundur 95#B tónlistarnám á framhaldsskólastigi# (umræður utan dagskrár), Flm. KolH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[13:51]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegur forseti. Okkur stjórnmálamönnum er ærið tamt á tyllidögum að hampa listafólkinu okkar. Er þá gjarnan talað um það fjálglega á hversu háu stigi tónlistarlíf okkar er og hversu blómleg sé sú flóra sem getur af sér hljóðfæraleikara og söngvara í fremstu röð. Varla taka ráðamenn svo á móti erlendum gestum og varla efna þeir svo til veisluhalda að ekki sé kallað á tónlistarfólk til að dýpka gleði góðra gesta. En skýtur ekki skökku við að á sama tíma skuli tónlistarnám okkar standa í þeirri kreppu sem raun ber vitni?

Í framhaldi af ákvörðun stjórnvalda í Reykjavík í sumar um að hætta að greiða fyrir tónlistarnám barna sem búsett eru utan Reykjavíkur hófust formlegar viðræður fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga og menntmrn. um stöðu framhaldsmenntunar í tónlist. Í þeim viðræðum þarf að leysa ágreiningsmál sem sum hver má rekja langt aftur í tímann eða til ákvarðana um kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga varðandi tónlistarskólana.

Eftir að helmingaskiptareglan var afnumin 1989 og málefni tónlistarskólanna voru alfarið lögð á herðar sveitarfélaganna og síðan eftir að sveitarfélögin tóku við rekstri grunnskólanna virðist sem ákveðið misræmi hafi skapast varðandi kostnaðarfyrirkomulagið. Þá fór að gera vart sið sig ókyrrð sem hefur magnast smátt og smátt og loks dró til tíðinda í sumar. Með aðgerðum Reykjavíkur og raunar fleiri sveitarfélaga hefur verið sköpuð pressa á ráðuneytið að standa undir þeirri ábyrgð sem rökstyðja má að ríkisvaldið eigi að bera á tónlistarkennslu á framhaldsstigi. Í sumar var haft eftir hæstv. menntmrh. í Morgunblaðinu að hann telji kröfur sveitarfélaganna ekki hafa lagastoð en hann líti hins vegar svo á að sanngirnisrök liggi að því að gerðir verði samningar um þennan kostnað. Því ber að halda til haga, herra forseti.

En þá að tónlistarkennaramenntuninni. Tónlistarskólinn í Reykjavík er elsti starfandi tónlistarskóli landsins, stofnaður um 1930. Það er dapurlegur tónn í Morgunblaðsgrein Kjartans Óskarssonar, skólastjóra tónlistarskólans, frá 11. október sl. þar sem hann segir að vá sé fyrir dyrum þar sem tónlistarkennaramenntun virðist vera orðin einhver aukaafurð í augum yfirvalda. Langflestir starfandi tónlistarmenn og kennarar hafa útskrifast frá Tónlistarskólanum í Reykjavík. Alls hafa á þessum 73 árum tæplega 300 nemendur lokið burtfarar- og einleikaraprófum í hljóðfæraleik og 46 hafa útskrifast úr tónfræðadeild. Alls hafa 456 nemendur lokið kennaraprófi og stefnir í að þeir verði 461 þegar þeir fimm nemendur sem nú stunda nám í blásarakennaradeild skólans útskrifast í vor. En þessir fimm nemendur, herra forseti, verða síðustu nemendurnir til að taka kennarapróf úr Tónlistarskóla Reykjavíkur. Nú þegar er búið að leggja niður tónmenntakennaradeildina, píanókennaradeildina, strengjakennaradeildina, söngkennaradeildina og þessum þætti í sögu skólans er lokið. Sömu sögu er að segja af kennaradeildum annarra skóla. En hvers vegna og hvað tekur við?

Hugmyndin mun hafa verið að Listaháskóli Íslands tæki við. En er það að gerast? Nei, engin kennaradeild hefur verið stofnuð við þann skóla og raunar er ekki fjallað um tónlistarkennaradeild í samningi þeim sem er í gildi milli menntmn. og Listaháskólans og allt virðist benda til þess að löng bið verði enn eftir því að tónlistarkennaranám geti hafist við Listaháskólann.

En Tónlistarskólinn í Reykjavík er ekki eini skólinn sem kennir tónlist á framhaldsstigi, herra forseti. Þar má einnig nefna Tónlistarskóla FÍH og Söngskólann í Reykjavík, Tónskóla Sigursveins, tónlistarskólana í Kópavogi og Garðabæ, tónlistarskólana á Ísafirði, Akureyri og Egilsstöðum, auk kraftmikilla skóla víðar á landinu og smærri skóla.

En hvað þýðir, herra forseti, framhaldsskóli í tónlist? Jú, það hlýtur að vera skóli sem undirbýr fólk undir háskólanám í tónlist, sem sagt menntaskóli. Það væri ekki mikið vit í því að bjóða upp á háskólanám ef engir væru í menntaskólar. Það liggur því beint við að mínu mati að gera Tónlistarskólann í Reykjavík að slíkum menntaskóla og sjá til þess að aðrir skólar sambærilegir eigi þess kost að reka deildir á menntaskólastigi. Af þeim ástæðum sem ég nú hef rakið, herra forseti, hef ég lagt eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. menntmrh.:

1. Hvað líður viðræðum ríkis og sveitarfélaga vegna tónlistarnáms á framhaldsskólastigi og hvenær er von á niðurstöðum?

2. Hver er ábyrgð ríkisvaldsins á tónlistarnámi á framhaldsskólastigi?

Hver er ábyrgð ríkisvaldsins á kennaranámi í tónlist og til hvaða aðgerða er gert ráð fyrir að gripið verði svo koma megi aftur af stað slíku námi?

Að lokum, herra forseti: Eru uppi hugmyndir um að gera Tónlistarskóla Reykjavíkur að menntaskóla fyrir tónlist?