Tónlistarnám á framhaldsskólastigi

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 14:08:33 (771)

2003-10-17 14:08:33# 130. lþ. 14.95 fundur 95#B tónlistarnám á framhaldsskólastigi# (umræður utan dagskrár), JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[14:08]

Jón Bjarnason:

Virðulegi forseti. Allt tónlistarnám, söng- og tónlistarlíf, er grundvallarþáttur í menntun og menningarlífi þjóðarinnar. Þetta þekkjum við öll. Við sem búum úti á landi þekkjum vel þann gríðarlega metnað sem íbúar og sveitarfélög leggja í almenna söng- og tónlistarmenntun í sínu héraði. Ég þekki best til í Skagafirði. Tónlistarskóli Skagafjarðar er í skipulögðu samstarfi við allt skólastarf í héraðinu. Ekki er að því ég best veit gerður munur á nemendum hvort þeir eru innan héraðs eða utan hvað gjaldtöku varðar. Þegar svo Reykjavíkurborg sendi í vor út bréf til sveitarfélaganna um allt land um að hún mundi krefja þau um sérstaka greiðslu vegna þeirra sem kæmu til Reykjavíkur í framhaldsnám og sæktu tónlistarnám þar, þá opinberaðist hversu veikur grunnur er fyrir tónlistarnám í landinu. Í beinu framhaldi af þeim bréfaskriftum óskaði sveitarstjórn Skagafjarðar eftir því að Samband íslenskra sveitarfélaga beitti sér gagnvart ríkisvaldinu um að taka upp þegar í stað viðræður um aðra skipan á tónlistarnámi í landinu, að krefjast þess að tónlistarnám á framhaldsskólastigi yrði eins og annað nám á framhaldsskólastigi á kostnað og ábyrgð ríkisins. Þetta er sú meginkrafa sem ég held að við öll séum sammála um að eigi að bera fram.

Það er fagnaðarefni að skipuð skuli hafa verið nefnd á milli þessara aðila til að takast á við þetta mál. En að mínu viti er það allt of seint að láta hana ekki skila áliti fyrr en um áramót. Við þurfum að fá þessa ákvörðun nú þegar í haust áður en við ljúkum afgreiðslu fjárlaga, því við ætlumst til að niðurstaða í þessu samstarfi eða þessari endurskoðun verði sú að ríkið axli ábyrgð á tónlistarnámi í framhaldsskólum eins og öðru námi í dag og þá þurfum við líka að gera ráð fyrir því á fjárlögum næsta árs.

Virðulegi forseti. Þetta er afar brýnt, bæði kostnaðarlega og einnig gagnvart þeirri virðingu og metnaði sem við berum fyrir tónlistarnámi og tónlistarlífi í landinu.