Tónlistarnám á framhaldsskólastigi

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 14:17:32 (775)

2003-10-17 14:17:32# 130. lþ. 14.95 fundur 95#B tónlistarnám á framhaldsskólastigi# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[14:17]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég held að þetta mál eigi fullt og brýnt erindi inn í umræður á Alþingi og þó fyrr hefði verið. Eins og réttilega hefur komið fram þá á þetta mál sér langan aðdraganda. Þessi mál hafa alls ekki verið í nægjanlega góðu lagi og ein aðalundirrót þess er sú að ríkið hefur dregið lappirnar gagnvart því að viðurkenna skyldur sínar á þessu sviði. Það er alveg ljóst. Það hefur ýtt málinu á undan sér og látið sér vel líka að hafa málið hjá sveitarfélögunum og kostnaðarskiptinguna milli ríkis og sveitarfélaga óklára.

Þetta hefur síðan leitt inn í vandamál sem þessu tengjast, t.d. varðandi kjaramál tónlistarkennara og þann núning sem upp er kominn í innbyrðis samskiptum sveitarfélaga á þessu sviði. Ég held að hæstv. menntmrh. geti náttúrlega ekki látið eins og það sé honum algerlega óviðkomandi bara af því að málið sé eitthvað sem sveitarfélögin eigast við um. Hæstv. menntmrh. er menntmrh. og ber ábyrgð á því að tónlistarfræðslu sé haldið uppi í landinu, með reisn og af myndarskap. Öll vandamál sem upp koma í þeim efnum heyra undir menntmrh. sem yfirmann þeirra mála. Hins vegar hefur þetta oft skotið upp kollinum, þessi ríka tilhneiging ráðherra Sjálfstfl. til að fá sér fjarvistarsannanir frá slíkum hlutum og skella skuldinni á einstakar stofnanir, sveitarfélögin eða aðra slíka aðila.

Hæstv. ráðherrar Sjálfstfl. líta yfirleitt svo á að þeir geti ráðið því sjálfir hvenær þeir eru ráðherrar og hvenær ekki. Þeir eru sem sagt menntamálaráðherrar þegar það er gaman og allt gengur vel en þegar eitthvað annað er upp á teningnum og vandamál sem hægt er að kenna öðrum um þá eru þeir ekki ráðherrar lengur. Þetta gengur auðvitað ekki svona.

Það er heldur engin lausn í málinu að skamma Reykjavík. Auðvitað ber Reykjavíkurborg mikla ábyrgð, bæði ríki og borg bera hér mikla ábyrgð sem langstærstu aðilarnir í þessu máli. Það er engin lausn að skamma Reykjavík með fullkomlega ómálefnalegum hætti eins og menn hafi engan skilning á þeim aðstæðum sem þar hafa komið upp. Hliðstæð dæmi, þó á smærri skala séu, eru uppi í mörgum öðrum sveitarfélögum í landinu og þetta þarf að leysa.