Grunngögn um náttúru landsins og náttúrufarskort

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 14:27:13 (779)

2003-10-17 14:27:13# 130. lþ. 14.9 fundur 27. mál: #A grunngögn um náttúru landsins og náttúrufarskort# þál., JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[14:27]

Jón Bjarnason:

Virðulegi forseti. Þessi till. til þál. um öflun grunngagna um náttúru landsins og gerð náttúrufarskorta var til umræðu fyrr í dag og er þeirri umræðu nú haldið áfram. Fyrsti flutningsmaður þáltill. er hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir og nokkrir aðrir þingmenn Samf. Tillagan fjallar um að afla þurfi grunngagna og gera náttúrufarskort.

Ég vil bara segja í upphafi að ég styð heils hugar þá tillögu sem hér er flutt, þau markmið sem sett eru fram í þessari þáltill. og þau rök sem fyrir henni eru færð.

Það er afar brýnt að vinna samræmdan gagnagrunn, upplýsinga- og gagnagrunn um náttúrufar og aðra þætti í náttúru Íslands. Það er mjög mikilvægt að það verði gert á ábyrgð hins opinbera, að hið opinbera sjái svo um að þessir þættir séu bæði rannsakaðir og metnir á óhlutbundið og óháð en ekki undir pressu framkvæmdaraðila líkt og við höfum mátt búa við. Við þekkjum þá umræðu, hvort sem verið hefur í kringum stórframkvæmdir í vegamálum eða virkjanamálum. Þar er hlaupið upp til handa og fóta og reynt að afla lágmarksgrunngagna til að uppfylla lágmarkskröfur umhverfismats fyrir framkvæmdir sem hafa áhrif um ófyrirsjáanlega framtíð. Slíkt býður upp á ófullkomna og óvandaða vinnu miðað við það sem við vildum sjá.

[14:30]

Þess vegna er mjög mikilvægt að þessi öflun grunngagna sé gerð af fullkomlega opinberum og óháðum aðilum þannig að ekki þurfi að blandast inn í þá vinnu, það mat, þær niðurstöður og sú skýrslugerð sem slík vinna mundi leiða af sér, tímabundnir eða ótímabundnir hagsmunir einstakra framkvæmdaraðila eins og við höfum mátt verða vitni að á undanförnum árum. Er skemmst að minnast ágreinings á milli framkvæmdaraðila í stórframkvæmdum og vísindamanna sem höfðu unnið ákveðnar grunnupplýsingar um mat og túlkun á þeim. Því betri og vandaðri upplýsingar sem við höfum því minni hætta er á að til árekstra komi í mati á þessum ýmsu náttúrugæðum sem við hér erum að fjalla um.

Ég vil í þessu sambandi rifja upp að fyrir allmörgum árum, líklega rétt upp úr 1990, hóf Hólaskóli vinnu við að gera samræmdan gagnagrunn fyrir lífríki vatna á Íslandi, fyrst og fremst í stöðuvötnum. Til grundvallar voru þar notaðir alþjóðlegir staðlar við að meta lífríki og eðlisþætti ferskvatna á Íslandi. Það er alveg sjálfsagt að geta þess hér að þessar rannsóknir fóru af stað þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson var umhvrh. og veitti Hólaskóla örlitla fjárveitingu úr ráðuneytinu til að hleypa þessum rannsóknum af stokkunum. Það er sjálfsagt að geta þess sem vel er gert og hv. þm. Össur Skarphéðinsson gerði vel á þeim tíma.

Síðan hefur það orðið til þess að fleiri samstarfsaðilar hafa komið inn í þetta stórverkefni um samræmdan gagnagrunn fyrir lífríki og eðlisþætti ferskvatna á Íslandi. Ég verð að segja að það væri betur ef þessu hefði verið rækilega fylgt eftir hér þegar umræðan fór á skrið upp úr 1990, að unninn hefði verið gagnagrunnur fyrir sem flesta þætti lífríkis á Íslandi. Þá stæðum við mun betur að vígi nú til þess að meta þær framkvæmdir t.d. sem við höfum verið að takast á um og eigum eftir að takast á um á næstunni. Það væri líka bara grunnvitneskja um þessa auðlind okkar Íslendinga sem við náttúrlega byggjum líf okkar á.

Það er hægt að hafa mörg fögur orð um markmið, tilgang og nauðsyn þess að vinna þá vinnu sem hér er tíunduð. Það er líka hægt að lýsa hryggð sinni yfir því að stjórnvöld skuli ekki hafa tekið á þessum málum af tilhlýðilegri festu og ábyrgð, varið til þess fjármagni og forgangsraðað inn í verkefni sín. Þessar grunnrannsóknir á hinu fjölbreytta lífríki Íslands og eðlisþáttum íslenskrar náttúru á að vinna á hlutlausan og opinberan hátt og þær eiga síðan að liggja fyrir þegar verið er að taka ákvarðanir um að grípa inn í lífríkið. Þegar við erum að ráðast í stórframkvæmdir sem allar hafa áhrif á viðkomandi lífríki ættu þessar grunnupplýsingar að vera til staðar. Ég tek því bara undir það meginmarkmið þáltill. að þetta mál, öflun grunngagna um náttúrufar landsins, sé sett í algjöran forgang í þeirri vinnu sem við stöndum nú frammi fyrir, einmitt að meta þessi gæði og hvernig með skuli fara til skemmri og lengri tíma. Ég vildi bara, virðulegi forseti, taka það fram við þessa umræðu að þetta mál er alveg tímabært. Það hefur verið flutt áður og það ítrekar þá forgangsröðun sem hið opinbera á að hafa í umgengni og upplýsingaöflun um náttúru landsins. Því er brýnt að þær áherslur sem hér eru lagðar fram stýri ferð í auknum mæli af hálfu opinberra stjórnvalda.