Áfengislög

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 15:03:46 (784)

2003-10-17 15:03:46# 130. lþ. 14.11 fundur 29. mál: #A áfengislög# (framleiðsla innlendra léttvína) frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[15:03]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Frú forseti. Ég kem hingað í ræðustól til að þakka hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni fyrir afar skemmtilega ræðu um litla bruggmálið og verð að segja að ég hef afar mikla samúð með þessu frv. Ég hef reyndar kallað það ,,litla heimilisiðnaðarfrumvarpið`` (GAK: Það er betra orð.) og ég held að það geti svo sem alveg gengið líka.

En ég get tekið undir svo margt sem hv. þm. sagði. Tilgangur frv. er alveg ljós. Hann er náttúrlega sá að fólk hafi ekki á tilfinningunni þegar það er að brugga sín krækiberjavín að það sé að brjóta lög því að það er alveg vitað að fólk hefur þróað með sér þekkingu og færni til þess að búa til sín heimagerðu borðvín og sú þekking og sú færni gæti jafnvel orðið upphafið að einhverju stærra og meira fyrir okkur í framtíðinni. Það kann vel að vera að við gætum á ákveðnum tíma þróað með okkur kunnáttu og þekkingu og færni sem gerði okkur kleift að framleiða vín sem væru einstök í veröldinni. Það yrði nú saga til næsta bæjar, frú forseti, ef Íslendingar gætu þróað með sér slíka þekkingu að hér mætti búa til vín sem væru af allt, allt öðrum toga en þau vín sem búa má til úr þrúgum sem vaxa sunnar í álfunni. Jurtirnar okkar, blóðbergið, súrurnar, allar þær kryddjurtir sem finna má í íslenskri náttúru, eru þeirrar gerðar að þær eru sérstakar vegna þess að þær vaxa við þau skilyrði sem íslensk náttúra býr þeim. Eins og ég segi, það er gaman að fylgjast með því fólki sem hefur aflað sér kunnáttu og þekkingar varðandi jurtirnar okkar og getur nýtt þær til margra hluta og þessi kunnátta hefur í sér að geyma vaxtarbrodd til stærri afreka.

Ég vænti þess, frú forseti, að þetta litla heimilisiðnaðarfrumvarp verði stutt, a.m.k. af þeim sem hafa stundað mikið frelsishjal, ungir frjálshyggjumenn sem vilja nú aldrei skerða frelsi einstaklingsins til nokkurs hlutar. Það má gera ráð fyrir því að fólk sem talar á þeim nótum sjái hér tækifæri til þess að styðja gott mál, og ég vil meina að það sé allt eins líklegt að á þessum stað, hinu háa Alþingi, sé öflugur stuðningur við mál af þessu tagi. Í öllu falli er þetta eitt af þessum sjarmerandi málum sem koma hér upp og ég lýsi því yfir að ég get stutt þetta mál í gegnum þingið.