Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 15:18:34 (786)

2003-10-17 15:18:34# 130. lþ. 14.12 fundur 30. mál: #A sveitarstjórnarlög# (lágmarksstærð sveitarfélags) frv., SigurjÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[15:18]

Sigurjón Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er á móti þeirri lögþvingun sem kemur fram í frv., þeirri hugsun að það eigi að hafa vit fyrir sveitarfélögunum. Sveitarfélögin og fólkið eiga að sameinast ef það hentar þeim.

Ég verð líka að segja það að ef á að sameina sveitarfélög fyndist mér að það ætti að sameina þau á höfuðborgarsvæðinu. Hér blasir hagkvæmnin við að sameina.

Síðan finnst mér líka að það eigi að vera inni í dæminu að taka mið af landfræðilegum aðstæðum svo sem eins og í Grímsey. Ég held að Grímseyingar séu miklu betur settir með eigin sveitarstjórn sem málsvara fólksins sem býr þar.

Það sem mér gremst helst, virðulegi forseti, hvað varðar þessa sameiningarumræðu, er að mér finnst stundum vera farið út í hana til þess að forðast umræðu um vanda landsbyggðarinnar. Það er eins og menn fari að tala um sameiningu sveitarfélaga þegar þeir vilja ekki ræða raunverulegan vanda landsbyggðarinnar, sem er oft á tíðum af allt öðrum toga, þ.e. að það er búið að hefta atvinnuvegi landsbyggðarinnar.

Ég hef reyndar miklar efasemdir um að það sé eitthvað hagkvæmara að reka 1.000 manna sveitarfélag en t.d. 600 manna sveitarfélag. Það er miklu nær, tel ég, ef það á að fara í einhverja sameiningu og taka á skipulagsmálum sveitarfélaga að fara í miklu stærri sameiningu.

Annars þakka ég fyrir góða umræðu.