Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 15:22:52 (788)

2003-10-17 15:22:52# 130. lþ. 14.12 fundur 30. mál: #A sveitarstjórnarlög# (lágmarksstærð sveitarfélags) frv., SigurjÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[15:22]

Sigurjón Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að það sé líka brýnt, ekki síst áður en menn fara að setja upp einhverja tölu, hvort sem hún er 1.000 eða 3.000 eða 4.000, að menn fari yfir það hvernig hafi tekist til í sveitarfélögum sem hafa sameinast á síðustu árum og skoði líka hvort þeir sem stóðu fyrir utan sameiningu í sveitarfélögum, t.d. eins og á sunnanverðum Vestfjörðum, standi eitthvað verr en þeir sem voru með í sameiningu sveitarfélaganna. En það sem gerist oft á tíðum þegar búið er að sameina sveitarfélög þar sem eru margir byggðakjarnar, ég tek sem dæmi Þingeyri og Bíldudal o.fl., að fólkið sem býr á þessum stöðum vantar oft á tíðum málsvara þegar eitthvað bjátar á í sveitarfélaginu. Ég tel nauðsynlegt að fara yfir það.

Hvað varðar þjónustu sem fólk í þessum fámennari sveitarfélögum skortir, hafa þau oft getað gert samning við stærri sveitarfélög eða einhver samtök sveitarfélaga um að vinna að þeim verkefnunum, svo sem á sviði félagsþjónustu og barnaverndarmála. Ég tel að það sé ekkert útilokað þó svo að sveitarfélögin renni ekki saman.