Vernd og sjálfbær nýting lífvera á hafsbotni

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 15:30:56 (791)

2003-10-17 15:30:56# 130. lþ. 14.13 fundur 31. mál: #A vernd og sjálfbær nýting lífvera á hafsbotni# þál., Flm. KolH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[15:30]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir):

Frú forseti. Hér leggjum við tveir hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, fram till. til þál. um vernd og sjálfbæra nýtingu lífvera á hafsbotni.

Tillögutextinn er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra í samráði við Hafrannsóknastofnunina að friða í varúðarskyni þau svæði á hafsbotni sem brýnast er talið að vernda til að koma í veg fyrir meira tjón á lífríki og uppvaxtarskilyrðum nytjafiska en orðið er.

Jafnframt verði gerð áætlun um frekari rannsóknir á áhrifum veiða og veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins og um aðgerðir til að draga úr skaðlegum áhrifum af þeirra völdum og til að tryggja sjálfbæra nýtingu vistkerfa hafsbotnsins innan efnahagslögsögunnar.

Við undirbúning og meðferð málsins verði leitað eftir samvinnu við umhverfisráðherra, rannsóknastofnanir, hagsmunaaðila í sjávarútvegi og samtök áhugamanna eftir því sem við á.

Skorti á lagaheimildir til æskilegra verndaraðgerða og til að tryggja sjálfbæra nýtingu hafsbotnsins verði lagðar fyrir næsta löggjafarþing tillögur þar að lútandi, sem og skýrsla um framvindu verndaraðgerða og fjárþörf vegna æskilegra rannsókna.``

Frú forseti. Þannig hljóðar tillögugrein þessarar þáltill. en kveikjan að henni er að sjálfsögðu sú staðreynd að vísbendingum fjölgar sífellt um það að tjón hafi orðið á lífríki hafsbotnsins vegna hömlulítillar notkunar á botnveiðarfærum. Það má segja að fyrir nokkrum árum höfum við verið vakin upp af værum blundi þegar sjónvarpið sýndi afar áhrifamikla mynd sem tekin var neðan sjávar við strendur Noregs, mynd sem dró ljóslifandi fram áhrif veiða á kórallasamfélag á hafsbotni. Það verður að segjast, frú forseti, að slíkum gögnum hefur farið fjölgandi á seinni árum og þekkingu okkar fleygt fram.

Fyrir skemmstu barst mér í hendur mynd af ástandinu á ákveðnum svæðum hér við land. Þær myndir sem ég fékk þar augum litið eru vægast sagt hrikalegar, frú forseti, og efla mig í þeirri trú að við séum kannski á síðasta snúningi með að bjarga ákveðnum svæðum, svo alvarlegt virðist ástandið vera.

Á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Jóhannesarborg árið 2002, ráðstefnunni sem fjallaði um sjálfbæra þróun, voru á dagskrá ýmis málefni sem tengdust hafsbotninum og gildi búsvæða hafsbotnsins. Þar var sérstök áhersla lögð á búsvæði kórallasamfélaga. Búsvæði kórallasamfélaganna og þróun þeirra er mikilvæg vegna sjálfbærrar þróunar í lífríki sjávar. Kórallasamfélögum vítt um veröldina er nú ógnað vegna mengunar sjávar, vegna hækkaðs sjávarhita og notkunar veiðarfæra sem skaða kórallasamfélögin. Við blasir að þörf er á kerfisbundnum rannsóknum á þessu sviði. Það hefur reyndar blasað við allt of lengi og ég fullyrði, frú forseti, að allt of lítið hefur verið gert í þessum efnum hérlendis, sérstaklega þegar miðað er við hversu dýrmæt auðlindin er okkur, þessari þjóð á norðurhjara sem byggir og hefur byggt allt sitt á fiskveiðum.

Auðvitað hefur maður stöku sinnum heyrt hryllingssögur útvegsmanna eða sjómanna sem hafa fengið kóralla í botnvörpur. Maður hefur heyrt hvernig farið hefur verið yfir svæði, jafnvel þar sem menn hafa vitað að væru kórallasamfélög. Sannarlega vonar maður að menn geri ekki slíkt að gamni sínu lengur, að fara yfir þannig svæði. Ég held að við deilum öll áhyggjunum eftir að vísindamenn hafa vakið okkur af værum blundi og við séð hættuna sem við stöndum frammi fyrir.

Frú forseti. Á meðan við öflum okkur frekari þekkingar á þessu sviði er brýnt að grípa til varúðarráðstafana eins og tillaga þessi gerir ráð fyrir. Sú tillaga sem hér er flutt byggir á þeirri hugmyndafræði sem býr að baki Ríó-yfirlýsingunni og þeim samningum sem samþykktir voru á umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Ríó 1992.

Frú forseti. Á 122. löggjafarþingi var samþykkt þáltill. frá hv. fyrrv. þm. Hjörleifi Guttormssyni um rannsóknir á áhrifum veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins. Í þeirri þál. var gert ráð fyrir þriggja ára rannsóknarátaki á slíkum áhrifum og að til þess yrði varið um 63 millj. kr. næstu þrjú ár samkvæmt áætlun frá Hafrannsóknastofnun sem fylgdi þeirri tillögu. Á fjárlögum 1999 var samþykkt fjárframlag til að hefja störf í samræmi við þá ályktun. Ég vil benda hv. þingmönnum á, varðandi frekari rökstuðning með þessari tillögu, rökstuðninginn í þáltill. frá 122. löggjafarþingi. Þar var einmitt gerð grein fyrir rannsóknarverkefninu Botndýr á Íslandsmiðum sem hefur aukið þekkingu okkar á botndýrategundum innan efnahagslögsögunnar, útbreiðslu þeirra og tengslum við aðrar sjávarlífverur. Það er auðvitað eðlilegt við þá vinnu sem þessi þáltill. gerir ráð fyrir að hliðsjón verði höfð af þessu rannsóknarverkefni.

Á yfirlitsuppdrætti með þessari tillögu má sjá að hér við land er að finna svæði þar sem talið er að séu mjög verðmæt kórallasamfélög. Tillögunni fylgir kort af þeim stöðum. Það á ættir sínar að rekja til Hafrannsóknastofnunar, þ.e. kort af sunnanverðu landinu og landgrunninu þar fyrir sunnan. Það sýnir fundarstaði steinkóralls, sem heitir á latínu Lophelia Pertusa. Þetta er sú tegund sem myndar kóralgarða í Norður-Atlantshafi.

Varðandi þýðingu þessarar tillögu, frú forseti, hafa lög um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands mjög mikið að segja og mikla þýðingu, m.a. 8. og 9. gr. þeirra laga sem veita ráðherra heimildir til að gera ráðstafanir til að sporna við því að stundaðar séu veiðar sem skaðlegar geta talist með tilliti til hagkvæmrar nýtingar nytjastofna. Þar er og gengið út frá skiptingu veiðisvæða og tímabundnu banni við öllum veiðum eða notkun tiltekinna veiðarfæra á ákveðnu svæði. Ég tel, frú forseti, að í lögunum höfum við ákveðin tæki í sem geri okkur kleift að fara í þá vinnu sem hér er lagt til að hefja.

Eitt meginefni tillögunnar er að fela ráðherra, í samráði við Hafrannsóknastofnunina, að friða án tafar í varúðarskyni, a.m.k. fyrir botnlægum eða hreyfanlegum veiðarfærum, þau svæði á hafsbotni sem brýnt er talið að vernda. Augljóst er að það fer eftir gerð og eðli veiðarfæra hvort þau kunna að valda röskun á lífríki hafsbotnsins og þá hversu mikilli. Botnvarpa og dragnót eru dæmi um veiðarfæri sem mest eru í sviðsljósinu í þessu sambandi en fleira getur komið til. Á hinn bóginn eru krókaveiðar augljóslega ekki skaðvaldur í þessu sambandi. Veiðar í net geta einnig verið óskaðlegar með tilliti til áhrifa á botninn. Nánari rannsóknum er hins vegar ætlað að leiða í ljós áhrif einstakra gerða veiðarfæra í þessu samhengi. Flutningsmenn þessarar tillögu leggja ríka áherslu á framgang þeirra rannsókna.

Gert er ráð fyrir að við undirbúning og vinnslu málsins verði haft samráð við rannsóknastofnanir, hagsmunasamtök og, sem ekki er síður mikilvægt, samtök áhugamanna. Það er vert að vekja athygli á því, frú forseti, að upplýsingaöflun hefur þegar farið fram á vegum Félags dagabátaeigenda um gildi lífríkis hafsbotnsins og áhrif veiðarfæra á það. Þau gögn sem þar var aflað voru m.a. kynnt á merkilegri ráðstefnu sem haldin var í Borgarnesi síðasta vor.

Það er rétt að við meðferð málsins séu höfð í huga ákvæði í lögum nr. 73/1990, um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins. Ég ítreka, frú forseti, að það er afar mikilvægt að þau ákvæði séu skoðuð gaumgæfilega. Þar er einmitt kveðið á um að íslenska ríkið sé eigandi allra auðlinda á, í eða undir hafsbotninum utan netlaga og svo langt til hafs sem fullveldisréttur Íslands nær samkvæmt lögum, alþjóðasamningum eða samningum við einstök ríki. Hugtakið auðlind samkvæmt lögunum tekur til allra ólífrænna og lífrænna auðlinda hafsbotnsins annarra en lifandi vera. Enginn má leita að efnum til hagnýtingar á, í eða undir hafsbotninum utan netlaga, sbr. 1. gr. laganna, nema að fengnu skriflegu leyfi iðnrh. og óheimilt er að taka eða nýta efni af hafsbotni eða úr honum nema að fengnu skriflegu leyfi ráðherra.

Síðan er einnig rétt, frú forseti, að minna á ákvæði náttúruverndarlaga. Í 54. gr. þeirra segir um friðlýsingu náttúruminja í hafi, með leyfi forseta:

,,Umhverfisráðherra getur, að fengnu samþykki sjávarútvegsráðherra og eftir atvikum að fengnum tillögum eða áliti Hafrannsóknastofnunarinnar, Umhverfisstofnunar eða Náttúrufræðistofnunar Íslands, friðlýst innan landhelgi og efnahagslögsögu náttúruminjar í hafi, þ.m.t. eyjar og sker, og á hafsbotni sem mikilvægt þykir að varðveita sakir fegurðar eða sérkenna eða miklu skiptir frá vísindalegu, náttúrufræðilegu eða menningarlegu sjónarmiði að ekki sé raskað. Friðlýsa skal svæði í kringum náttúruminjar svo sem nauðsynlegt er til þess að þær fái notið sín og skal þess greinilega getið í friðlýsingu.``

Þetta var tilvitnun í 54. gr. náttúruverndarlaga en sömuleiðis mætti nefna önnur ákvæði annarra greina í þessum sama kafla. Þau gilda auðvitað eftir því sem við á um friðlýstar náttúruminjar í hafi.

Þá koma einnig til álita, frú forseti, ákvæði laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, sem og lög um stjórn fiskveiða og eftirlit með veiðum. Sérstaklega þarf að meta hvernig best verður staðið að því að tryggja varanlega vernd og friðun ákveðinna svæða og/eða tímabundna vernd eftir því sem við á.

Frú forseti. Við ræddum fyrr í dag þáltill. um öflun grunngagna um náttúru landsins og gerð náttúrufarskorta. Þá kom hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson inn á að það þyrfti að huga að rannsóknum og kortagerð á hafsbotninum. Þau ummæli eiga sannarlega við þessa tillögu líka. Ég vil taka undir þau og held að þannig megi tengja þessi tvö mál sem hér hafa verið flutt. Ég á von á að hv. þingmenn taki jafn vel í þá tillögu sem ég hef nú talað fyrir eins og áðurnefnda tillögu sem við ræddum hér lengi framan af degi.

Hér er um afar brýnt mál að ræða, slysin hafa átt sér stað. Við vonum að sjálfsögðu að það sé ekki orðið of seint að girða fyrir alvarlegri slys. Ég ítreka að það væri gott ef þetta mál fengi skjóta en vandaða afgreiðslu í nefndum þingsins.