Efling félagslegs forvarnastarfs

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 16:06:33 (795)

2003-10-17 16:06:33# 130. lþ. 14.16 fundur 35. mál: #A efling félagslegs forvarnastarfs# þál., 36. mál: #A gjald af áfengi og tóbaki# (forvarnasjóður) frv., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[16:06]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Frú forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um eflingu félagslegs forvarnastarfs. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir og Þuríður Backman. Hér er um endurflutta tillögu að ræða sem fyrst var sýnd á 127. löggjafarþingi og síðan endurflutt á því 128. en varð í hvorugt skiptið útrædd.

Tillögugreinin er svohljóðandi:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna ramma\-áætlun um eflingu hvers kyns félagslegs forvarnastarfs sem verði liður í aðgerðum til að berjast gegn notkun ávana- og fíkniefna, þroska félagsvitund og bæta andlegt og líkamlegt heilbrigði ungs fólks.

Áætlunin feli í sér úttekt á félagsstarfi í einstökum sveitarfélögum og á landsvísu sem til greina kemur í þessu sambandi, svo sem starfi á vegum félagsmiðstöðva, ungmenna- og íþróttahreyfingarinnar, nemendafélaga, skáta, tómstundafélaga og trúfélaga. Einnig verði gerðar tillögur um hvernig vænlegast sé að efla slíkt starf þannig að árangur náist.

Um þennan þátt málsins, frú forseti, má segja að upp að vissu marki liggi þessi kortlagning eða slík úttekt nú fyrir í formi skýrslu sem unnin var af menntmrn. og kom út, að ég hygg, í maímánuði sl. um æskulýðs- og tómstundastarf ungs fólks. Þar er margar gagnlegar upplýsingar og ábendingar að finna um hvað hægt væri að gera til að styrkja starf af þessu tagi. Það varð reyndar tilefni orðaskipta í fyrirspurnatíma milli hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur og hæstv. menntmrh. Tómasar Inga Olrichs. Það yrði þá að meta eftir atvikum að hve miklu leyti þessi skýrsla væri fullnægjandi og að hve miklu leyti ástæða væri til að kortleggja betur það svið sem hér um ræðir.

Áfram með tillögugreinina:

Til átaksins verði varið allt að 10 millj. kr. á árinu 2003 til að undirbúa framkvæmd þess og síðan allt að 180 millj. kr. árlega í fimm ár eða þar til ákvarðanir verða teknar um frekara framhald þess. Tekna verði aflað með hækkun á hlutfalli áfengisgjalds sem rennur í Forvarnasjóð, sbr. 7. gr. laga nr. 96/1995. Áfengis- og vímuvarnaráð geri tillögur til Lýðheilsustöðvar og heilbrigðisráðherra um ráðstöfun þess fjár sem við bætist í Forvarnasjóð og sérstaklega er ætlað til eflingar félagslegu forvarnastarfi, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 18/2003. Heilbrigðisráðherra setji, að höfðu samráði við menntamálaráðherra og félagsmálaráðherra, nánari ákvæði í reglugerð, sbr. 4. mgr. 6. gr. laga nr. 18/2003, um þetta efni, þar með talið hvernig háttað skal samráði og samstarfi einstakra aðila sem málið varðar.

Ríkisstjórnin skili Alþingi árlega skýrslu um framkvæmd áætlunarinnar þar sem árangur átaksins er metinn.

Frú forseti. Eins og af þessu ræðst fylgir tillögunni frv. til laga um breytingu á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, þar sem tillögur um tekjuöflun í samræmi við ákvæði þáltill. eru útfærðar í frumvarpsformi og ég mun mæla fyrir því á eftir eða gera lítillega grein fyrir því í lokin.

Eins og áður segir er hér um endurflutta tillögu að ræða sem var fyrst flutt á 127. löggjafarþingi og var þá send út til umsagnar. Þá fékk hún, leyfi ég mér að segja, almennt mjög jákvæðar undirtektir. Þó bárust ýmsar hugmyndir um breytingar á tillögunni og hefur hún að hluta til verið endursmíðuð með hliðsjón af þeim ábendingum sem fram komu og voru vel ígrundaðar í umsögnum sem bárust á 127. löggjafarþingi. Meginbreytingin frá upphaflegu útgáfunni er sú að nú er mælt fyrir um hvernig tekna skuli aflað með hækkun á þeim hluta áfengisgjalds sem rennur í Forvarnasjóð þannig að hlutur Forvarnasjóðs hækki úr 1% í 2% af áfengisgjaldi strax 1. nóvember. Það gæti gefið nálægt 10 millj. kr. í viðbótartekjur strax á þessu ári til að hefja undirbúning að framkvæmd átaksins. Hækkun þess hluta áfengisgjalds sem rennur í Forvarnasjóð í 4% um næstu áramót mundi svo skila nálægt 180 millj. kr. á ári í viðbótartekjur til að standa straum af kostnaði við átakið.

Að óbreyttu áfengisgjaldi yrði hér að sjálfsögðu um að ræða sambærilega tekjulækkun hjá ríkissjóði en það er sjálfstætt ákvörðunaratriði auðvitað á hverjum tíma hvernig áfengisgjaldtökunni er háttað. Samhliða þessari tillögu er því flutt frv., eins og áður sagði, um þessa breytingu á hlut Forvarnasjóðs í áfengisgjaldi.

Einnig er valin sú leið að mæla fyrir um að áfengis- og vímuvarnaráð hafi með höndum tillögugerð til ráðherra um ráðstöfun fjárins. Auðvitað kæmu þar ýmsar aðrar leiðir til greina og mætti hugsa sér að standa að því öðruvísi. Áfengis- og vímuvarnaráð er þó til staðar með kerfi til að taka á móti umsóknum og afgreiða þær til hvers kyns verkefna sem gagnast geta í forvarnaskyni og því er að mörgu leyti nærtækt að fela því þetta hlutverk. Af hálfu okkar flutningsmanna er að sjálfsögðu ætlunin að þetta átak verði hrein viðbót og til styrktar því almenna forvarnastarfi sem fyrir er og að þetta verði unnið í góðu samstarfi allra málsaðila.

Til að tillagan nái tilgangi sínum er augljóst mál að mjög mikilvægt er að gott samstarf takist milli allra sem sinna áfengis- og vímuvarnamálum og svo þeirra fjölmörgu sem halda úti félagastarfsemi sem efla má í forvarnaskyni. Það er einnig mjög mikilvægt að virkja aðila eins og sveitarfélögin og samtök þeirra til liðs við baráttuna. Það er sérstök ástæða til að beina fjárstuðningi til verkefna í fámennum og fjárhagslega veikburða sveitarfélögum þar sem ástæða er til að ætla að starfsemi af því tagi sem um ræðir standi höllum fæti. Ráðherra er því falið að setja nánari ákvæði í reglugerð um þetta atriði sérstaklega, þ.e. hvernig samráði og samstarfi einstakra aðila skuli háttað.

Það er ljóst að neysla fíkniefna er gríðarlega alvarlegt samfélagsvandamál á Íslandi. Allir stjórnmálaflokkar hafa lýst vilja til þess að bregðast við þessum vanda og í umræðum um þessi efni er jafnan lögð mikil áhersla á forvarnir. Sú tillaga sem hér er flutt er hugsuð sem innlegg í baráttuna gegn neyslu ávana- og fíkniefna og snýr að því sem við köllum félagslegar forvarnir. Um leið er að sjálfsögðu ætlunin að styrkja þroskandi þátttöku ungs fólks, bæði félagslega, andlega og líkamlega, í uppbyggilegu félagsstarfi.

Ein helsta röksemdafærslan fyrir obbanum af því tómstundastarfi, t.d. innan ungmenna- og íþróttahreyfingarinnar, sem haldið er úti, a.m.k. þegar verið er að leita eftir fjárstuðningi, er einmitt gjarnan sú að fyrir utan holla og þroskandi þátttöku í félagsstarfinu sem slíku hafi það mikið forvarnagildi. Við þekkjum það, held ég öll, að til þessa er gjarnan vitnað þegar verið er að rökstyðja mikilvægi þessa starfs.

[16:15]

Þar af leiðandi er það rökrétt og í beinu samræmi við þetta að menn nýti kosti þessa félagsstarfs skipulega og sem formlegan hluta af forvörnum, hvort sem menn kalla það félagslegar forvarnir, eins og við kjósum að gera hér í tillögunni og í grg., eða eitthvað annað. Það er að sjálfsögðu ekki ætlunin að reyna að stjórna því í stóru og smáu hvernig einstaklingar haga lífi sínu þó að menn haldi uppi forvörnum. Það er ekki tilgangur eða meginmarkmið forvarnastarfs í sjálfu sér. Það má segja að forvarnir snúist um það að reyna að stuðla að því að fólk, einkum ungt fólk, láti það vera að nota vímuefni eða hefji a.m.k. notkun þeirra seinna en ella, ekki fyrr en það getur sjálft tekið yfirvegaða ákvörðun um það og neyti þá vímuefna í hófi. Það er samdóma álit allra sem að þessu vinna að það eitt að seinka upphafi notkunar vímuefna hjá ungu fólki sé gríðarlega mikilvægt og alltaf til bóta. Það sé á allan hátt félagslega og líkamlega betur búið undir það að takast á við hinn harða heim eftir því sem það öðlast meiri þroska og þekkingu á sjálfu sér og umhverfi sínu.

Félagslegar forvarnir hafa þann mikla kost að það eru í raun þátttakendurnir sjálfir sem sinna eigin forvörnum um leið og þeir taka þátt í þroskandi og uppbyggjandi félagsstarfi og sniðganga þá vímuefnin. Slíkt félagsstarf eykur alla jafna samskiptahæfni fólks og eflir sjálfstraust og virðingu manna fyrir sjálfum sér og öðrum. Í þessu sambandi er höfuðatriði að allir finni eitthvað við sitt hæfi. Þess vegna er mjög mikilvægt, herra forseti, að líta til allrar mögulegrar tómstundaiðkunar sem getur komið að liði, ekki síður t.d. til nemendafélaga, tómstundafélaga, skáta, þess vegna trúfélaga, félagsmiðstöðva heldur en ungmenna- og íþróttahreyfingarinnar þótt hún sé gjarnan einna fyrst nefnd þegar þessa hluti ber á góma.

Vissulega vinnur íþróttahreyfingin gríðarlega mikilvægt starf á þessu sviði og þúsundir og tugþúsundir ungmenna eru þar þátttakendur í skipulögðu starfi. Allar kannanir sem á þessu hafa verið gerðar hafa sýnt gildi íþrótta og að íþróttir gegni stóru hlutverki í félagslegum forvörnum og í baráttunni gegn ávana- og fíkniefnum. Þar kemur ekki síst til hið mikla félagslíf sem íþróttaiðkuninni fylgir. Unglingar sem stunda íþróttir velja sér einnig frekar fyrirmyndir úr hópi íþróttafólks og það hvetur á sinn hátt til þess að menn hlúi að heilsunni og láti vímuefni ósnert.

Auðvitað eru á þessu margar hliðar og það verður að horfast í augu við það og viðurkennast að íþróttum getur einnig fylgt ákveðin sambúð við vímuefni, sérstaklega þegar komið er upp í fullorðinsaldursflokka, keppnisferðalög og hátíðahöld og hvað það nú er sem þar er tilheyrandi. Engu að síður er það staðreynd að þó að mjög margvíslegt íþrótta- og tómstundastarf sé í boði á vegum ungmenna- og íþróttahreyfingarinnar og margra félagasamtaka, er mikill fjöldi unglinga sem finnur þar ekki neitt við sitt hæfi. Það er einnig staðreynd að brottfall úr íþróttum er gríðarlega mikið meðal unglinga, sérstaklega meðal unglingsstúlkna. Það er vel þekkt vandamál hjá íþróttafélögum sem reka blómlegt starf í barnaaldursflokkum að á unglingsárunum koma göt þannig að jafnvel heilu árgangarnir týnast og ekki er unnt að halda úti keppnisliðum í árgöngum á þeim aldri. Þar með eru þeir hópar tapaðir, í þeim skilningi að þeir eru ekki lengur þátttakendur í þessu skipulega starfi með því gildi sem það hefur hvað varðar félagslegar forvarnir.

Félagsmiðstöðvar gegna þarna afar mikilvægu hlutverki og skipta í raun sífellt meira máli. Í félagsmiðstöðvunum er boðið upp á vímulaust og verndað umhverfi sem foreldrar geta treyst. Þar er yfirleitt að finna starfsfólk með fjölbreytta reynslu og menntun þar sem forvarnir eru einn helsti útgangspunktur í öllu starfi. Starf félagsmiðstöðvanna er mjög fjölbreytt og þar er reynt að aðstoða unglinga við að gera það sem þeir hafa áhuga á og gera það áhugavert, hvort sem það snýst um tónlist, leiklist, kvikmyndagerð, námskeið, fræðslufundi, skáldskap, íþróttir eða annað. Tilgangur þessa starfs er ekki síst að styrkja sjálfsímynd unglinga og gefa þeim raunverulegt val um hvernig þeir verja frítíma sínum. Oft snýst þetta í raun og veru ekki um annað en það að útvega unglingum aðstöðu til að vinna að áhugamálum sínum. Þetta á t.d. við um ýmsar íþróttir, ekki síst ,,jaðaríþróttir``, ef svo má að orði komast, sem gjarnan ná fyrst hylli meðal unglinga og geta síðan átt eftir að festa rætur í íþróttalífi landsmanna. Sem dæmi um þetta má nefna hjólabretta- og snjóbrettaiðkun sem nú er orðin útbreiddari en skíðaiðkun, svo dæmi sé tekið, og hefði einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar.

Það eru meira en 70 félagsmiðstöðvar starfræktar víða um land þar sem er unnið alveg gríðarlega mikilvægt og merkilegt starf en af miklum vanefnum, því að nánast undantekningarlaust búa félagsmiðstöðvarnar við mjög þröngan fjárhag. Staðreyndin er sú að 90--95% af rekstrarkostnaði félagsmiðstöðvanna fer beint í launagreiðslur. Það segir í raun allt sem segja þarf um hvað þá er eftir til ráðstöfunar í aðra hluti. Það er afar lítið, ef nokkuð, til viðhalds og efnis- og tækjakaupa, hvað þá að hægt sé að greiða utanaðkomandi aðilum, t.d. fyrirlesurum eða öðrum slíkum fyrir þeirra heimsóknir eða þjónustu. Það er í raun algjörlega ófært að til þess sé ætlast að félagsmiðstöðvar eða annað starf af þessu tagi lifi af sértekjum. Það gefur augaleið að það er ekki hægt að krefja þá sem þangað sækja um aðgangseyri eða þátttökugjöld í miklum mæli. Þá tapast þeir úr hópnum sem síst skyldi og starfið missir marks. Aðstæður unglinganna eru mjög misjafnar og gjaldtaka hefði óumflýjanlega þessi áhrif.

Það eru til mælingar á því hversu hátt hlutfall unglinga tekur í einhverjum mæli þátt í starfi félagsmiðstöðvanna, það er á bilinu 50--65%. Þannig að þar er þátttakan heldur meiri en t.d. í heildaríþróttaiðkun á vegum íþróttahreyfingarinnar. Það er einnig ljóst að t.d. hér á Reykjavíkursvæðinu gegna félagsmiðstöðvar í vaxandi mæli því hlutverki að vera einhvers konar hverfamiðstöðvar fyrir alla aldurshópa. Dæmi eru um að börnum allt niður í 6 ára aldur og upp úr sé sinnt þar með skipulögðu starfi árið um kring.

Samstarf félagsmiðstöðvanna er einnig rekið af miklum vanefnum og í raun og veru án nokkurs opinbers stuðnings. Mun það vera einsdæmi innan Evrópusamtaka félagsmiðstöðva (ECYC) að landssamtök félagsmiðstöðva, í tilviki Íslands Samfés, skuli alfarið byggjast á félagsgjöldum og kostun viðkomandi aðila.

Það er enginn vafi á því í okkar huga, frú forseti, að það má stórefla þetta starf til mikils gagns. Ég leyfi mér að fullyrða að það sé leitun að skynsamlegri farvegi fyrir viðbótarfjármuni, ef vilji er fyrir því á annað borð að veita einhverja, en þeim að ráðstafa þeim inn í þennan farveg. Það mun án efa skila miklu hvað forvarnagildið snertir og það kæmi sér að sjálfsögðu gríðarlega vel fyrir þessa fjölbreyttu og mikilvægu starfsemi ef hægt væri að efla hana í leiðinni með sérstökum stuðningi af því tagi sem tillagan gengur út á.

Það er ekki síst ástæða til að huga að málefnum 15--18 ára aldurhópsins. Það er enginn vafi á því að þar er kannski við hvað alvarlegastan vanda að glíma þó að hrollvekjandi upplýsingar séu reyndar um að þessi aldursmörk færist sífellt neðar.

Að lokum að frv. til laga um breytingu á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum. Frumvarpið er afar einfalt. Það gengur út á það að áfengisgjaldið hækki í þrepum, þ.e. sá hluti þess sem rennur í Forvarnasjóð, úr 1% í 2% 1. nóv. nk., þannig að enn er nokkur tími til stefnu til að klára málið ef menn vildu nú vera svo röskir á hinu háa Alþingi að drífa þetta af, og síðan í 4% frá og með næstu áramótum og héldist þannig, a.m.k. út það fimm ára tímabil sem áætlunin gerir ráð fyrir að sett verði upp í byrjun í þessu sambandi. Ég held að um það efni þurfi í sjálfu sér ekki frekari rökstuðnings við. Í raun og veru er hvort tveggja lagt til, hvernig að verkefninu yrði staðið og eins hvernig það yrði fjármagnað. Ég held að þó að ekki kæmi annað til en það að menn færu í þá vinnu að skoða þetta skipulega og kortleggja þá möguleika sem eru á þessu sviði, gjarnan með hliðsjón af þeirri skýrslu sem ég áður nefndi og kom út sl. vor, mundi það eitt og sér vera ákaflega gagnlegt starf þó að ekkert annað kæmi nú til, sem við tillögumenn vonum að verði, að tillögunni verði sem slíkri hrint í framkvæmd og látið á það reyna hvaða árangri mætti ná með þessu. Síðan má endurmeta málið og fara yfir það hvernig til hefur tekist. Að sjálfsögðu er fyrirkomulag af þessu tagi alltaf umdeilanlegt og sjálfsagt að taka það til endurskoðunar og endurmats hvernig skynsamlegast verði staðið að málum hverju sinni.

Ég legg svo til, frú forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu á þskj. 35 vísað til síðari umr. og frumvarpi á þskj. 36 vísað til 2. umr. og báðum til hv. félmn.