Samgönguáætlun

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 16:43:51 (798)

2003-10-17 16:43:51# 130. lþ. 14.19 fundur 39. mál: #A samgönguáætlun# (skipan samgönguráðs, grunntillaga) frv., Flm. ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[16:43]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóhanni Ársælssyni fyrir þetta innlegg í umræðuna um frv. Vissulega erum við hér að leggja til að ástunduð verði fagleg vinnubrögð. Því miður hefur skort á þau í allri vinnu við samgöngumál, sérstaklega í vegamálum eins og við þekkjum. Við höfum verið að upplifa, með þessa ríkisstjórn, átaksverkefni og hringlandahátt í vegamálunum. Það eru settir nokkrir milljarðar í vegagerð rétt fyrir kosningar og svo er þeim kippt til baka eftir kosningar. Einum milljarði var kippt til baka úr síðasta átaki. Þetta virðist sett í gæluverkefni sem er ekki einu sinni hægt að fá upplýsingar um arðsemismatið á.

Í fjölmiðlum og í umræðum á þinginu ber ekki nokkrum manni saman um hver arðsemin er af hinum og þessum verkefnum. Héðinsfjarðargöng sem hafa verið nokkuð til umræðu í sumar eru dæmi um þann vanda. Þar munaði mörgum tugum prósentustiga á arðsemismati sem menn nefndu út og suður. Þegar vegamálastjóri var spurður að því í samgn. hvað væri til í þessum tölum um arðsemismatið vildi hann gera lítið úr öllu saman. Hann taldi að allt of háar upphæðir hefðu verið nefndar.

Þetta viljum við koma í veg fyrir með frv. Við erum að leggja til að menn hafi arðsemismatið, samræmt hvað varðar allar framkvæmdir, þannig að menn geti borið saman leiðir og síðan unnið út frá því. Þannig yrði ljóst hvers vegna menn velja eina leið umfram aðra.

Við þyrftum svo líka að ræða annað mál, þ.e. hvernig við kostum slíkar framkvæmdir. Ég vil nefna hugmyndir sem hafa verið uppi um Sundabrautina, að fara út í að láta þá sem nota leiðina greiða fyrir eins og fyrir Hvalfjarðargöngin núna. Ég leyfi mér að efast um að það sé réttlætanlegt að höfuðborgarsvæðið og íbúar þar, sem eru líka skattgreiðendur og greiða í þann sjóð sem fer til vegagerðar, eigi endilega að greiða aukalega fyrir slíkar framkvæmdir með veggjaldi eins og hugmyndir hafa verið uppi um. Það er umræða sem við eigum eftir að taka. Sú umræða er fram undan og við þurfum að ganga í gegnum hana. Ég tel ekki sjálfsagt að fara þá leið að láta höfuðborgarbúa greiða sérstaklega fyrir framkvæmdir innan borgarmarka.

Ég minni á að höfuðborgin er okkar allra. Af því ég er að nefna hér Sundabrautina vil ég nefna hversu mikilvæg hún er okkur öllum, ekki bara höfuðborgarbúum, heldur allri landsbyggðinni. Hún mun bæta aðgengið að borginni og leiðina frá henni einnig. Þar er náttúrlega komið upp ófremdarástand eins og við þekkjum.

Herra forseti. Ég hef kannski farið aðeins út fyrir efnið en hér leggjum við til að tekin verði upp faglegri vinnubrögð, að ljóst sé hvar ákvarðanir eru teknar og hvernig þær eru teknar, á hvaða forsendum og arðsemismat liggi fyrir þegar samgönguáætlun er til umræðu og afgreidd hér í þinginu. Eins og ástandið er í dag er það ekki hægt á þeim forsendum.