Þróunarsamvinna Íslands við önnur ríki

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 17:19:39 (801)

2003-10-17 17:19:39# 130. lþ. 14.21 fundur 43. mál: #A þróunarsamvinna Íslands við önnur ríki# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[17:19]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur sérstaklega fyrir það frumkvæði sem hún hefur haft að því að vinna þessa þáltill. sem við nokkrir þingmenn Samf., m.a. við þrjú sem erum í utanrmn. fyrir Samf., höfum lagt hér fram og hún mælt fyrir. Tillagan er bæði afdráttarlaus og skýr og greinargerðin afskaplega góð þannig að þeir sem hafa áhuga á þessum málum eiga að geta séð hvert Samf. vill stefna og hvað Samf. leggur áherslu á í sýn sinni á þróunarsamvinnu Íslands við önnur ríki.

Af því að þingmaðurinn vísaði hér í álitsgerð sem utanrrn. skilaði til okkar þingmanna í september ætla ég aðeins að grípa niður í hana til að styðja við þær hugmyndir sem við setjum hérna fram. Þar er einmitt bent á það að opinber þróunaraðstoð hérlendis er af tvennum toga, annars vegar marghliða aðstoð sem fer um hendur alþjóðlegra stofnana og hins vegar tvíhliða aðstoð frá einu landi til annars. Þetta er það algenga munstur sem er í öðrum löndum. Það er lagt til í þessari álitsgerð að stuðningur við sérstofnanir Sameinuðu þjóðanna sem vinna að þróunarmálum verði aukinn og það verði hugað sérstaklega að því að styrkja tengsl Íslands við Þróunarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna og Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, ásamt hliðarstofnunum hennar sem sinna málefnum tengdum fæðuöflun. Ég vek sérstaklega athygli á því. Þetta er kannski það sem við byrjuðum að líta á þegar við á Íslandi hófum þróunaraðstoð okkar, að veita fátækum ríkjum mataraðstoð og svo ríkjum þar sem voru hamfarir, þurrkar eða aðrir alvarlegir erfiðleikar sem gerðu það að verkum að fólk svalt.

Það er líka talað um það að taka þátt í störfum þróunaraðstoðarnefndar OECD sem mundi auka mjög þekkingu Íslands á þróunaraðstoð og að Ísland ætti að leita virkrar þátttöku í stjórnun og starfi þessara útvöldu stofnana og nýta tengsl sín við þær.

Ég vek sérstaklega athygli á þessum punkti vegna þess að það sem við erum að benda á með þessari tillögu sem Þórunn Sveinbjarnardóttir hefur haft forgöngu um er í raun og veru ný sýn á hvert maður ætlar að stefna með þróunaraðstoðinni, hvers konar þróunarsamvinnu og af hverju við viljum líta á þessa þætti. Við verðum líka sjálf að þróa vinnubrögð okkar og sýn á það hvað það er og við hvað við ætlum að taka þátt í að hjálpa.

Ég vil líka benda á hnattvæðingarnefndina sem vísað er til í álitsgerðinni. Hún skilaði skýrslu í apríl 2002 og þar segir að það sé ósanngjarnt að kenna hnattvæðingunni um fátæktina í þriðja heiminum af því að hana megi frekar rekja til þess að þjóðir hafi farið á mis við hugsanlegan akk af markaðsbúskap og þátttöku í alþjóðaviðskiptum. Þess vegna er þeim bent á að tollar í viðskiptum milli iðnríkjanna séu ekki nema tíundi partur af því sem þeir voru í lok síðari heimsstyrjaldarinnar.

Ég held hins vegar að við eigum ekki að einfalda málin svona mikið. Gagnrýnin og andúðin á þátttöku í því sem tengist hnattvæðingunni er út af misskiptingu. Og það er þessi gífurlega misskipting sem við erum alltaf að fást við. Það er hatrið og skelfingin yfir bágum kjörum sem fær ungt fólk til að taka þátt í vonlausum aðgerðum sem það heldur að sé barátta fyrir betra lífi, samanber í Miðausturlöndum. Og ég held að við eigum að horfa með miklu víðari skilningi og skýrum augum á fylgikvilla hnattvæðingarinnar. Við styðjum hana, við viljum nýta hana til þess að sem flest lönd heims geti átt heilbrigða viðskiptahætti, að allir búi við tilsvarandi reglur og að það skapi löndunum jafna möguleika. Á þessu eru hins vegar bakhliðar eins og mál hafa þróast og við getum ekki tekið á þeim nema horfa opnum augum á þær.

Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir nefndi þúsaldarmarkmiðin. Í tengslum við framsetningu þeirra er einmitt nefnt að fátækt í heiminum við upphaf 21. aldar hafi sýnt hvað sé þörf á mörgum og miklum verkefnum, að u.þ.b. 800 milljónir manna líði næringarskort og að á hverju ári deyi hálf milljón kvenna af barnsförum. 130 milljón börn ganga ekki í skóla. Víða í þróunarlöndum deyr eitt barn af hverjum tíu áður en það nær fimm ára aldri. Þetta eru svo alvarlegar upplýsingar að við getum ekki leyft okkur að einfalda þróunaraðstoðina. Þess vegna eru þessar tillögur sérstaklega tilteknar og nefndin beðin að hafa að leiðarljósi að efla menntun, mannréttindi og frelsi kvenna, taka þátt í uppbyggingu almennrar heilsugæslu og taka mið af því sem best gerist í svipaðri stefnumótun í nágrannalöndum.

Ég átti þess kost, virðulegi forseti, að hitta Elisabeth Rehn þegar hún var hér á ferð. Hún talaði við okkur fulltrúa flokkanna í utnarmn. um þetta, að styðja konur í þróunarlöndunum. Það er alltaf að verða skýrara þeim sem eru að horfa á þessi mál að það er mikilvægast að styðja konur í þróunarlöndunum. Konurnar halda utan um og ná samfélaginu saman eftir þá erfiðleika sem land þeirra hefur farið í gegnum, annaðhvort vegna fátæktar eða stríðs, þurrka eða hörmunga. Hún benti líka á að við verðum að fara að bregðast við þeirri óhugnanlegu þróun að nauðgun í stríði er notuð beinlínis til að brjóta niður samfélög. Okkur bregður svo þegar við heyrum þetta en þetta eru bara hlutir sem við eigum að taka þátt í að vinna með. Við eigum að spyrja okkur hvað við getum gert til að hjálpa fólkinu í flóttamannabúðunum þegar kannski þriðja kynslóð er farin að alast þar upp og á sér enga framtíðarsýn eða -von.

Ég rifja hér upp í því sambandi þegar Madeleine Albright fór í heimsókn í flóttamannabúðir í Miðausturlöndum. Þegar hún kom heim frá því að fara í þessa heimsókn og skoða flóttamannabúðir beitti hún sér fyrir því að fjárveitingar yrðu auknar til flóttamannabúða á svæðinu sem hún hafði heimsótt til að byggja upp salerni. Og af hverju skyldi hún hafa lagt mesta áherslu á að byggja upp salerni? Það var vegna þess að það var svo langt á milli salerna og það var langt þangað að heiman fyrir litlar stúlkur og ungar konur og þeim var nauðgað á leiðinni.

Það eru svona hlutir, það er þekkingin á hvað hægt er að gera með litlu skrefunum meðan við erum að vinna að því að tekin verði stór skref sem er svo mikilvægt.

Og ég get ekki annað í lok framsögu minnar, virðulegi forseti, en nefnt líka einstaklingsaðstoðina og allan þann fjölda sem styður börn í barnaþorpum og í gegnum Hjálparstarf kirkjunnar og fleiri, börn sem búa þá á heimilum og njóta skólagöngu af því að einhver heimili, líka uppi á Íslandi, eru að borga fyrir tilveru eins lítils barns. Það er ekki lítið en þetta verður allt að tvinna saman. Þess vegna er mikilvægt að við hugum að þessu og ég þakka Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir frumkvæði hennar.

(Forseti (JóhS): Háttvirtum þingmanni.)

Ég þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur, þingmanni Samf., fyrir að hafa unnið þetta þingmál með þeim hætti sem hún hefur gert.