Þróunarsamvinna Íslands við önnur ríki

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 17:28:07 (802)

2003-10-17 17:28:07# 130. lþ. 14.21 fundur 43. mál: #A þróunarsamvinna Íslands við önnur ríki# þál., SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[17:28]

Sigurjón Þórðarson:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka flutningsmönnum þessarar tillögu, hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur og Rannveigu Guðmundsdóttur, fyrir að vekja máls á þessum mikilvæga málaflokki sem þróunaraðstoð er. Sameinuðu þjóðirnar hafa bent rækilega á mikilvægi hennar. Á fundi þeirra í Mexíkó í mars á síðasta ári var ákveðið að auka aðstoð til þróunarlanda, m.a. vegna þess að með því er talið að hægt sé að uppræta hryðjuverk öfgasinna í heiminum. Þróunaraðstoð dugar samt ekki ein og sér, heldur þarf að auka viðskiptafrelsi í heiminum til að þessi lönd geti þá auðgast í viðskiptum.

Við í Frjálsl. getum tekið undir margt í þáltill. og ætla ég að ræða stuttlega efni hennar. Það kemur fram að nefndinni sem á að skipa samkvæmt tillögunni er ætlað að hafa fjögur meginmarkmið að leiðarljósi, þ.e. nauðsyn þess að efla menntun, mannréttindi og frelsi kvenna um allan heim og nauðsyn þess að styðja við uppbyggingu almennrar heilsugæslu í fátækum löndum hvað varðar heilbrigði barna og koma í veg fyrir alnæmissmit. Nefndinni er í þriðja lagi ætlað að taka mið af stefnumótun í nágrannalöndum. Það teljum við mjög mikilvægt. Síðan í fjórða lagi á að endurskoða lög um Þróunarsamvinnustofnun Íslands í ljósi niðurstaðna nefndarinnar.

Mér finnast þetta mörg háleit markmið og mjög góð sem nefndinni er ætlað að vinna að en óneitanlega læðist að manni sá grunur að nefndin færist með því of mikið í fang. Ég er alls ekki að draga úr mikilvægi þessara fjögurra atriða. Það er t.d. eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir benti á mjög nauðsynlegt að efla menntun, mannréttindi og frelsi kvenna. Bæði stuðlar það að minni fólksfjölgun og almennu heilbrigði. Við í Frjálsl. getum tekið undir það heils hugar.

Ef samt verður farið af stað með svo háleit markmið og óljós er hætt við því að því aukna fjármagni sem stjórnvöld hafa ákveðið að verja til þessa málaflokks, úr 1.300 millj. í 2.600 millj. árlega, verði varpað á glæ. Ég tel að við ættum að einbeita okkur að því að afmarka verkefnin þannig að nefndinni verði falið að fara yfir hvernig þessu fjármagni verði sem best varið og það viðurkennt að það sé mjög mikið verkefni og ærið. Í öðru lagi væri vert að fara yfir lög Þróunarsamvinnustofnunar.

Sjálfum finnst mér vel koma til greina að við hér á Íslandi leituðum eftir ríkri samvinnu við einhverja hinna Norðurlandaþjóðanna. Danir hafa t.d. mikla reynslu af slíku starfi, hafa starfað að því um árabil og varið mjög háu hlutfalli af tekjum sínum í þetta starf. Mér finnst sjálfsagt t.d. að reyna að nýta þeirra reynslu til þess að fé okkar verði sem best varið.

Virðulegi forseti. Að lokum vil ég nefna það jákvæða sem hefur gerst, eða jákvæðasta sem hefur gerst á síðustu árum, í þróunarsamvinnu. Það er sú ákvörðun Alþýðusambands Íslands að styðja verkefni sem tengjast ólæsi fullorðinna, öryggi verkamanna í þeim löndum sem Þróunarsamvinnustofnun er með verkefni sín í. ASÍ ætlar að verja um 0,7% af ársinnkomu sinni til þróunaraðstoðar og það er til fyrirmyndar og í samræmi við markmið Sameinuðu þjóðanna.