Stuðningur við sjálfstæði Færeyja

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 13:43:29 (810)

2003-10-28 13:43:29# 130. lþ. 15.91 fundur 98#B stuðningur við sjálfstæði Færeyja# (aths. um störf þingsins), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[13:43]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég vil taka undir þær ábendingar sem hér hafa komið fram hjá hv. þm. um afgreiðslu íslensku þingmannanna á þingi Norðurlandaráðs sem nú er haldið. Beiðni Færeyinga um stuðning við fulla þátttöku og sjálfstæði á Norðurlandaráðsþingum er að mínu mati eðlilegt framhald af þeirri vinnu sem Færeyingar eru að inna af hendi núna. Þeir eru að vinna að auknu sjálfstæði. Við höfum stutt það og skiljum afstöðu þeirra. Mér þykir miður að þegar þeir koma inn með þessa beiðni með fullum stuðningi Lögþingsins fái þeir hana ekki rædda með eðlilegum hætti. Og sérstaklega þykir mér miður að fulltrúar okkar á þinginu skuli ekki hafa lýst stuðningi við beiðni þeirra. Erindi Færeyinga fara í gegnum dönsku sendinefndina og þannig mun það verða þar til einhverjar breytingar verða gerðar á skipan Norðurlandaráðs. Einhvers staðar verður að byrja og ég hefði talið það eðlilega byrjun og stuðning við erindi þeirra að við Íslendingar styddum beiðni þeirra og settum þetta í ákveðinn farveg til frekari vinnslu.