Stuðningur við sjálfstæði Færeyja

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 13:45:40 (812)

2003-10-28 13:45:40# 130. lþ. 15.91 fundur 98#B stuðningur við sjálfstæði Færeyja# (aths. um störf þingsins), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[13:45]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið hjá hæstv. forseta er Björn Bjarnason starfandi forsrh. en hann er nú staddur á Akureyri.

Fullveldi okkar nánustu frændþjóðar, Færeyinga, er viðkvæmt mál. Við höfum miklar tilfinningar til þeirra og mikinn skilning á stöðu þeirra. Þeir hafa í alla staði reynst okkur vel í okkar málum í gegnum tíðina. Við viljum auðvitað reynast þeim vel líka. Við verðum hins vegar að gæta að okkur í því samstarfi sem Norðurlandasamstarfið er. Það byggir að mestu leyti, ef ekki nánast öllu, á því að það sé samstaða um hlutina, að ekki er hægt að taka ákvörðun um að útvíkka samstarfið og fjölga þar aðildarþjóðum, eins og um er að ræða í samstarfi ráðherranefndarinnar, án þess að um það sé samstaða meðal allra aðildarþjóðanna. Sérstaklega þarf að fara varlega í þessum efnum ef einhver þessara þjóða telur að það málefni sem hér er til umræðu brjóti gegn stjórnarskrá einnar aðildarþjóðanna.

Það er þess vegna ekki þægilegt fyrir okkur að taka á þessu máli þar sem tvær vinaþjóðir koma að því en ég held að af efnisatriðum megi vera augljóst hvað hæstv. forsrh. var að segja þegar hann talaði fyrir okkar hönd á fundi Norðurlandaráðs í Ósló og lýsti þessari stöðu málsins og þessari skoðun. Ég held að hv. þingmenn hljóti að hafa skilning á þeirri afstöðu alveg á sama hátt og ég held að allir þingmenn hafi skilning á stöðu og afstöðu Færeyinga en málum í þessu samstarfi er komið fyrir á þennan hátt.