Stuðningur við sjálfstæði Færeyja

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 13:51:23 (815)

2003-10-28 13:51:23# 130. lþ. 15.91 fundur 98#B stuðningur við sjálfstæði Færeyja# (aths. um störf þingsins), GAK
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[13:51]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Við erum búin að hlýða hér á ræður eins hv. þm. úr stjórnarflokkunum og eins hæstv. ráðherra. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að ég er engu nær um svörin við þeim spurningum sem bornar voru fram af hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni, hvort þessi afstaða sem forsrh. tjáði hafi verið rædd í ríkisstjórn, hvort ákvörðun hafi legið fyrir þegar forsrh. tók þessa afstöðu né hvort málið hafi verið borið undir utanrmn. sem ber að gera lögum samkvæmt. Við höfum ekki fengið nein svör við því hér, virðulegi forseti, hvort þær ákvarðanir eða sú yfirlýsing sem forsrh. gefur í þessu máli hafi verið tekin af ríkisstjórninni.

Það er alveg ljóst að Færeyingar stefna að sjálfstæði og ég tel að við Íslendingar eigum að styðja Færeyinga í þeirri stefnu með ráðum og dáð og eigum að leggja þeim lið eins og við framast getum á þeim vettvangi. Þess vegna harma ég að slík afstaða sem hæstv. forsrh. tjáði varðandi aðild Færeyinga að Norðurlandaráði skyldi vera tekin og tel að við hefðum komið betur að málinu og verið samkvæmari sjálfum okkur sem lítil þjóð ef við hefðum stutt þá.