Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 14:20:06 (825)

2003-10-28 14:20:06# 130. lþ. 15.10 fundur 18. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (félagsgjöld til stéttarfélags) frv., Flm. ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[14:20]

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir vænt um það að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson segir að það sé ekki ágreiningur um málið. Ég skynjaði það nú samt þannig að það þyrfti heldur aðeins að hotta á framsóknarskjónu til þess að hún rækist í réttan dilk í þessu máli.

Ég fagna því hins vegar að hv. þm. hefur talað með þeim hætti að það er ákaflega líklegt að hann hyllist til þess að styðja þetta mál þegar búið er að skoða það í efh.- og viðskn., en eins og menn vita þá gegnir hann háu embætti þar. Hann er varaformaður, ef ég man rétt, hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal og vísast þarf eitthvað af þeirri réttsýni sem hv. þm. hefur enn þá til brunns að bera til þess að koma þeim góða formanni nokkuð áleiðis í þessu máli.

Að því er varðar það sem hv. þm. nefndi hér áðan um að launamenn hefðu þegar fengið þá umbun sem þeim ber vegna breytinga til hins betra í hagþróun ... (Gripið fram í.) Hv. þm. kallar fram í og segir að hann hafi kannski ekki alveg orðað það svona. Eigi að síður var það þannig að hann talaði um að launamenn hefðu þegar notið góðs af góðærinu. En það er einfaldlega þannig að þeir sem hafa notið miklu meira en góðs af því eru fyrirtækin í landinu. Ég tel að verkalýðshreyfingin, barátta hennar og þær byrðar sem launamenn tóku á sig tímabundið --- það var ekki fyrirséð hvernig þetta mál mundi fara þá, herra forseti --- hafi leitt til þess að fyrirtækin standa miklu betur. Mér finnst að þeir sem í þessum sölum styðja fyrirtækin stöðugt á kostnað launamanna ef svo ber undir, ættu að sjá sóma sinn í því að styðja það að launamenn, alveg eins og fyrirtækin, fái að draga félagsgjöldin frá skatti. En um þetta ríkir ekki sem sagt ágreiningur milli mín og hv. þm.