Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 14:22:20 (826)

2003-10-28 14:22:20# 130. lþ. 15.10 fundur 18. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (félagsgjöld til stéttarfélags) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[14:22]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Það mál sem við ræðum hér, frv. um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt og nær til stéttarfélagsgjalda launþega og er flutt af þingmönnum Samfylkingarinnar, tel ég vera hið besta mál og meira en líklegt að við í þingflokki frjálslyndra munum styðja það. Ég tel að með þeirri stöðu sem hefur komið upp á undanförnum árum að launþegar fái ekki að draga stéttarfélagsgjöld frá tekjum áður en skattlagt er sé í raun og veru verið að mismuna launþegum með tilliti til þess hvað viðgengst á vinnumarkaði. Það er jú þekkt, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson vék að í máli sínu, að atvinnurekendur draga sín gjöld til sinna samtaka frá rekstri og frá tekjum þannig að mismununin er til staðar. Ég tel að það eigi ekki að una við slíka mismunun sem felst í núverandi framkvæmd og þess vegna sé hér verið að hreyfa mjög þörfu máli að því er launþegana varðar.

Það er ýmislegt fleira sem hægt væri að víkja máli að þegar verið er að tala um stöðu launþega og hvernig greiðslur sem launþegar inna af hendi eru skattlagðar. Það hafa m.a. komið upp deilur um það, eins og menn muna vafalaust eftir, að greiðslur úr styrktar- og sjúkrasjóðum séu skattlagðar sérstaklega og samt sem áður eru greiðslurnar í styrktar- og sjóðum hluti af stéttarfélagsgjaldinu sem launþegar hafa svo greitt skatta af. Þannig að óréttlætið er framkvæmt með mjög ósanngjörnum hætti að því er varðar launþega.

Ég tel að það sé algjörlega rétt sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson vék að áðan að það var Alþýðusamband Íslands sem gekk á undan í því að halda niðri verðbólgu í landinu þegar ríkisstjórnin var nánast að missa það mál úr böndunum. Ég held að það sé líka rétt í þessari umræðu að vekja athygli á því að Alþýðusamband Íslands hefur mótað ákveðna stefnu í velferðarmálum og kynnti hana á sl. vetri, um velferð fyrir alla. Við tókum undir í Frjálsl. og töldum að þar væri lagt upp með stefnumótun sem kæmi fólki vel í þessu þjóðfélagi og sérstaklega þeim sem lægri hafa launin. Það er því vissulega rétt sem hér hefur verið vikið að að ríkisstjórnin í landinu og launþegar allir og ríkisborgarar þessa lands eiga Alþýðusambandinu margt að þakka í þeirri stefnumótun sem þeir hafa unnið að á undanförnum árum.

Það er slæmt til þess að vita að í núverandi stefnu ríkisstjórnarinnar, m.a. í fjárlagafrv., er ekki tekið neitt mið af því sem Alþýðusambandið er að leggja upp með í stefnumálum sínum varðandi velferð fyrir alla í þjóðfélaginu.

Ég tel að í þessu máli, sem snýr að stéttarfélagsgjöldum launþega, sé verið að hreyfa réttlætismáli sem ber að leiðrétta og við munum styðja frv. í Frjálsl. og vonum að það fái efnislega og góða umfjöllun og komi aftur inn til 2. umr. og fái síðan afgreiðslu við 3. umr. sem lög.