Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 14:26:34 (827)

2003-10-28 14:26:34# 130. lþ. 15.10 fundur 18. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (félagsgjöld til stéttarfélags) frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[14:26]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í framsögu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar er hér í raun og veru lítið frv. á ferðinni og tekur ekki margar málsgreinar að setja á blað sem þarna er átt við. Eins og fram hefur komið er þetta mikið réttlætismál, þetta er mikið jafnréttisfrumvarp eins og hefur komið fram hjá nokkrum þingmönnum sem hafa rætt þetta. Þetta snýst um, eins og hér hefur komið fram, að samtök atvinnulífsins og fyrirtæki sem greiða til sinna samtaka, Samtaka atvinnulífsins, og launþegar sem greiða til sinna samtaka, verkalýðsfélaga, fái að draga frá frá skatti þau félagsgjöld sem greidd eru.

Út frá því vil ég leggja og segja, herra forseti, að þetta jafnréttisfrumvarp sem hér er sett fram, það jafnréttissjónarmið sem hér er sett fram hlýtur að falla vel að þeim þætti í stjórnarskránni sem fjallar um jafnrétti og jafnræði. Þess vegna er það í raun og veru alveg með ólíkindum, herra forseti, að við þurfum nú, árið 2003, þegar fer að líða undir lok þess árs, að ræða þetta mál á Alþingi, að þetta skuli ekki löngu vera komið í lög og fest hér inn, þetta mál sem ég hygg að kosti nú ríkissjóð ekki margar milljónir, það sé ekki svo. Þetta er með öðrum orðum mikið ranglæti sem þarna viðgengst, enda hafa stéttarfélög, t.d. á Húsavík, ályktað mjög um þetta. Sú trygga og góða forusta sem þar er í forsvari hefur tekið þetta upp á þingum og aðalfundum sínum og ályktað um þetta og lagt til að þetta verði sett í lög og þetta sjónarmið verði samþykkt.

Ég held líka, herra forseti, þó að þetta sé nú vafalaust ekki stór upphæð, en safnast þegar saman kemur, að launamenn eigi þetta sannarlega inni hvað varðar félagsbaráttu sína. Án þess að ég viti það nákvæmlega þá hygg ég að tekjur verkalýðsfélaga séu jafnvel að dragast saman. Þá veitir ekki af að koma til móts við það þannig að þeir sjóðir sem þurfa að vera öflugir, eflist. Verkalýðshreyfingin í landinu, eins og kom fram hjá hv. frummælanda, hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, tók málin í sínar hendur fyrir um tveimur árum síðan, þegar var farið að líða undir lok ársins 2001, gagnvart rauðu strikunum og veitti sitjandi ríkisstjórn mikla leiðsögn og í raun og veru forustu í þeim málum sem þar voru að fara á verri veg. Að maður tali nú ekki um frumkvæði verkalýðshreyfingarinnar að þjóðarsáttarsamningunum svokölluðu, sem eru, hygg ég, annar aðalþátturinn í þeirri velferð sem við höfum verið í á Íslandi síðasta áratug a.m.k. þó að sáttasamningurinn og samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði verði í framtíðinni skráðir sem þau tvö atriði sem réðu mestu um hvernig okkur tókst að snúa vörn í sókn á Íslandi.

[14:30]

Ég fagna því að einn hv. stjórnarþingmaður, Kristinn H. Gunnarsson, skuli koma upp í andsvari og ræða þetta mál eins og hann gerði. Ég þóttist geta lesið úr orðum hans afstöðu sem hann mun vonandi fylgja í efh.- og viðskn., að málið fái þar meðferð og komi til baka frá efh.- og viðskn. þannig að lagt verði til að frv. verði verði samþykkt. Ég trúi ekki öðru en að réttlætisvitund stjórnarþingmanna leiði þeim fyrir sjónir að þetta er sanngjarnt mál. Spurningin er hins vegar: Þora þeir að taka sjálfstæða ákvörðun, hv. þingmenn stjórnarliðsins, eða verða þeir að beygja sig og sætta sig við það sem frá ríkisstjórn kemur, að þetta mál megi ekki samþykkja vegna þess að það kemur frá stjórnarandstöðu eða valdi örlitlu tekjutapi ríkissjóðs? Ég veit ekki hve mikið tekjutapið yrði en það er örugglega ekki há tala.

Þora stjórnarliðar, herra forseti, að koma fram og stuðla að því að frv. nái fram að ganga? Um það snýst þetta. Ég hygg að hv. þm. Össur Skarphéðinsson sé að flytja þetta mál í annað ef ekki þriðja sinn. Þetta var rætt í fyrra og fékk þá jafngóðar viðtökur. Vafalaust hefur það verið þá eins og nú virðist, að stjórnarsinnar ætli ekki að taka þátt í umræðunni frekar en fyrri daginn. Hins vegar hefur hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson brotið í blað og rætt um þetta mál. Ég trúi því að verkalýðshjarta hv. þm. sé enn fullt af blóði (KHG: Það slær enn þá.) og slái enn. Ég vona að hv. þm. hugsi til þess að hér er um mikið réttlætismál að ræða sem ekki væri stórvandamál að koma í gegn.

Ég treysti á að hv. þingmenn Framsfl. láti ekki stóra bróður, Sjálfstfl. og þingmenn Sjálfstfl. sem e.t.v. finna þessu ýmislegt til foráttu og telja enga þörf á að gera þetta, segja sér fyrir verkum. Nú reynir á hvað framsóknarmenn gera, hvort B-deild Sjálfstfl. verður að lúffa fyrir A-deildinni. Það mun sjást af því hvernig þessu máli lyktar í efh.- og viðskn. Ég trúi því að aðalforustumaður B-deildar stjórnarliðsins, Kristinn H. Gunnarsson, sem hér hefur talað í þessu máli dugi vel í efh.- og viðskn. og stuðli að framgangi þessa máls með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni sem þar situr líka.

Nú sé ég að hv. þm. Pétur H. Blöndal, formaður efh.- og viðskn., er genginn í salinn. Þingmenn sitja hér spenntir og bíða eftir að Pétur taki til máls og fjalli um frv. við 1. umr. Það verður síðan sent til hans nefndar. Það hefur oft komið fram í ræðum hv. þm. Péturs H. Blöndals að hann vilji að þingmenn og þingnefndir hafi meira frumkvæði og taki ekki alltaf við tilskipunum frá hæstv. ríkisstjórn og geri eingöngu það sem ríkisstjórnin segir þeim að gera eða leyfi þeim að gera. Nú reynir á hv. þm. Pétur H. Blöndal. Búa nefndin og nefndarmenn að því frumkvæði að þora að taka slíka ákvörðun, að mæla með að þetta jafnræðismál nái fram að ganga á hinu háa Alþingi?