Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 14:34:36 (828)

2003-10-28 14:34:36# 130. lþ. 15.10 fundur 18. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (félagsgjöld til stéttarfélags) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[14:34]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég kem í pontu til að lýsa stuðningi við þetta frv. Ég er í hópi þeirra sem vilja styrkja verkalýðsfélög og verkalýðshreyfinguna í sessi. Hún er hluti af fjölþættu lýðræðisþjóðfélagi okkar. Verkalýðshreyfingin stuðlar að jafnvægi í þjóðfélaginu almennt. Hún heldur uppi merki launafólks og veitir fjármagnsöflunum og atvinnurekendum mótvægi. Þetta á við um þjóðfélagið almennt. Hið sama gildir um vinnustaðinn. Verkalýðsfélögin, stéttarfélögin, sinna þar mikilvægu lýðræðislegu hlutverki og stuðla að jafnvægi innan vinnustaðarins og í þjóðfélaginu almennt. Á verkalýðsfélög má þannig líta sem mikilvægar samfélagsstofnanir.

Þótt ég sé á þessu máli er ekki þar með sagt að ég sé andvígur samtökum atvinnurekenda. Mér finnst eðlilegt að þeir hafi samtök með sér einnig. Almennt er ég fylgjandi samtökum í samfélaginu, hvort sem það eru fyrirtæki eða launafólk, að menn vinni saman og reyni að beina málefnum sínum og ágreiningsefnum í skipulegan farveg.

Nú bregður svo við að þessum tveimur aðilum er gróflega mismunað, annars vegar atvinnurekendum og hins vegar samtökum launafólks. Eins og fram kemur í greinargerð með þessu frv. hefur yfirskattanefnd markað þá stefnu að félagsgjöld sem fyrirtæki greiða til samtaka atvinnurekenda megi draga frá tekjuskattsstofni en félagsgjöld sem launþegar greiði til stéttarfélaga sinna hafa ekki verið frádráttarbær frá skatti fram að þessu. Út á það gengur þetta frv., að leiðrétta misræmið, eða eigum við að segja ranglætið, sem þarna er á ferðinni.

Fleiri orð þarf í raun ekki að hafa um þetta frv. Ég ítreka að ég lýsi yfir stuðningi við það.