Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 14:37:32 (829)

2003-10-28 14:37:32# 130. lþ. 15.10 fundur 18. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (félagsgjöld til stéttarfélags) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[14:37]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Í því felst að félagsgjöld til stéttarfélaga verði frádráttarbær frá skatti. Þetta er eitt af þessum mörgu góðu málum sem fela í sér að gera skattkerfið sífellt flóknara og grafa undan einfaldleika þess. Þau eru mikið fleiri og ég gæti nefnt mörg fleiri slík mál.

Málið er að tekjuskattskerfi einstaklinga byggir á brúttóskattlagningu, þ.e. tekjur eru skattlagðar án þess að menn geti dregið frá kostnaði við öflun teknanna. Þetta er okkar prinsipp. Aðrar þjóðir hafa önnur prinsipp. Þýska skattkerfið gengur út frá því að menn geti dregið allan hugsanlegan, mögulegan og ómögulegan, kostnað við að afla teknanna frá skatti. En þá getur skattprósentan líka verið hærri.

Við getum hugsað okkur einstæða móður sem ætlar að sækja um vinnu. Til að sækja vinnu þarf hún að koma barni sínu á barnaheimili. Það er kostnaður hennar við að afla tekna. Ætti hún ekki að geta dregið þann kostnað frá skatti með nákvæmlega sömu rökum? Þarf hún ekki frekar á því að halda en stéttarfélögin, herra forseti? Það er hægt að ganga miklu lengra. Hvernig er með ferðir til vinnu? Er ekki eðlilegt að menn geti dregið ferðir til vinnu frá skatti, græna kortið í Reykjavík eða rekstur bifreiðar. Þannig mætti áfram telja. Afleiðingin yrði mjög flókið skattkerfi þar sem hækka yrði prósentuna af því að það gæfi hreinlega minni tekjur.

Ég geri ráð fyrir að þetta frv., þó að það standi hvergi í því, kosti ríkissjóð nokkur hundruð milljóna eða jafnvel milljarð í skatttekjur. Þetta er um það bil 1% af launum sem yrði skattfrjáls. Launasumman er 400 milljarðar þannig að skattstofninn mundi rýrna um 4 milljarða. Útsvar og tekjuskattur af því eru um einn og hálfur milljarður og sennilega fær ríkið helminginn af því. Þetta mundi kosta nálægt milljarði í minni tekjum til ríkissjóðs. Að sjálfsögðu fylgdu þessu minni skattar á einstaklinga en einhvers staður verður að ná í tekjurnar. Ég er ekkert hoppandi glaður eða himinlifandi yfir því að hola skattkerfið með þessum hætti.

Menn hafa bent á samanburð á milli fyrirtækja og einstaklinga. Það er rétt. Fyrirtæki draga alls konar kostnað frá skatti. Þau draga frá kostnað við rekstur bíla, kostnað við greiðslu félagsgjalda og annað slíkt. En þá þurfa menn líka að horfa á það hversu kvikur sá skattstofn er. Það er mjög auðvelt að reka fyrirtæki með tapi. Ég skal taka það að mér í hvelli að reka hvaða fyrirtæki sem er með tapi. (GAK: Ertu með reynslu?) Nei, reyndar ekki á þeim endanum. En ég gæti gert það hratt og vel.

Skattstofn fyrirtækja er mjög kvikur og það er mjög auðvelt að koma hagnaði fyrirtækja í lóg. Þess vegna getur verið að lág skattprósenta á hagnað fyrirtækja auki skatttekjur. Skattur var einu sinni 50% og gaf ríkissjóði litlar tekjur. Síðan hefur hann verið lækkaður í áföngum, niður í 30% og síðan 18% og hann virðist gefa sífellt hærri tekjur til ríkissjóðs, til rekstrar velferðarkerfisins, eftir því sem skattprósentan er lækkuð meira. Auðvitað eru neðri mörk á því. Við getum ekki farið niður í hálft prósent en spurningin er: Hvar er hámarkið? Hvaða skattprósenta gefur hámarkstekjur til ríkissjóðs? Þannig er ekki hægt að bera saman tekjur einstaklinga og hagnað fyrirtækja.

Ég hjó eftir því, herra forseti, að hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sagði að sjúkrasjóðsgreiðslur væru skattskyldar. Það er rétt en iðgjaldið í sjúkrasjóðinn er að sjálfsögðu skattfrjálst því að það er greitt af fyrirtækjunum. Þau borga að lágmarki 1% af launum allra landsmanna inn í sjúkrasjóði og draga frá skatti sínum þannig að þetta er skattfrjálst fé sem enn hefur ekki verið skattað. Aðrar bætur stéttarfélaga, eins og útfararkostnaður, er borgaður af félagsgjöldunum. Þar á þetta við. Það er sjálfsagt að skoða svoleiðis. Ég er á móti tvísköttun og það má gjarnan skoða það.

Ég er því ekkert hoppandi glaður yfir þessu frv. sem slíku vegna þess að mér finnst mörg önnur atriði skipta meira máli. Ég mundi t.d. frekar vilja hjálpa einstæðum foreldrum með börnin sín, að þau geti dregið barnaheimiliskostnað frá skatti ef það er sannarlega til að afla tekna. Ég mundi miklu frekar gera það heldur en að hjálpa vesalings verkalýðshreyfingunni.