Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 14:43:11 (831)

2003-10-28 14:43:11# 130. lþ. 15.10 fundur 18. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (félagsgjöld til stéttarfélags) frv., Flm. ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[14:43]

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. spurði: Hvað kostar samþykkt þessa frv.? Þar kemur að ákveðnum aðstöðumun milli okkar í stjórnarandstöðu og stjórnarliðsins. Það hefur verið leitað eftir því af okkar hálfu að fá tölu á hvað þetta kostar. Sú tala hefur ekki fengist. Það kann hins vegar að vera að hv. þingmenn stjórnarliðsins hafi allt aðrar leiðir og aðstöðu til að fá slíkan útreikning. Við höfum ekki nema eina leið færa til að finna slíkt út, þ.e. að leggja fram fyrirspurnir á hinu háa Alþingi. Þess vegna hef ég hef lagt fram fyrirspurn um þetta mál hér á þingi sem þegar er búið að dreifa. Ég vildi gjarnan geta haft það sem meðlag við þessa umræðu hvað þetta kostar nákvæmlega. En svona er að oss búið, herra forseti.

Mér finnst ekki rétt af hv. þm. að segja að hann vildi miklu frekar nota fé sem færi til að standa straum af þessu frv. til að gera hitt eða þetta. Þetta er spurning um jafnræði. Ef hv. þm. hefði hlustað á ræðu mína hefði hann heyrt að útgangspunkturinn í röksemdafærslu minni var að nú þegar er búið að tryggja hinum aðilanum á vinnumarkaðinum, þ.e. fyrirtækjum sem eru aðilar að samtökum atvinnurekenda, heimild til að draga félagsgjöld sín frá skatti. Ef það er búið að leyfa einstökum fyrirtækjum að gera það þá spyr ég: Hvers vegna er ekki launamönnum heimilað hið sama? Þeir eru með sama hætti aðilar að vinnumarkaðinum í gegnum heildarsamtök sín. Þetta er spurning um jafnræði og jafnrétti. Ég hefði ekki lagt þetta frv. fram ef þessi væri ekki raunin. Þetta er útgangspunkturinn í röksemdafærslu minni.

Hitt er rétt hjá hv. þm., að það er ekki hægt að leggja til jafns kostnað sem atvinnurekendur hafa og skattgreiðslur þeirra annars vegar og hins vegar launamanna vegna þess að fyrirtæki greiða ekki nema 18% skatt en launamaðurinn yfirleitt töluvert meira.