Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 14:45:31 (832)

2003-10-28 14:45:31# 130. lþ. 15.10 fundur 18. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (félagsgjöld til stéttarfélags) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[14:45]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég hlýddi á ræðu hv. þm. og tók eftir því að hann talaði um jafnrétti og jafnræði milli fyrirtækja og launþega. Ég kom einmitt inn á það í ræðu minni að einstaklingar borguðu brúttóskatt af tekjum sínum á meðan fyrirtæki gætu dregið frá alls konar kostnað. Og ástæðan fyrir því er einfaldlega sú að tekjur einstaklinga eru miklu tregari skattstofn en hagnaður fyrirtækja.

Menn geta ekki hætt að vinna, þeir verða að lifa af einhverju. En fyrirtæki geta auðveldlega látið hagnaðinn hverfa. Og eins og ég gat um áðan býðst ég til þess, ef einhver vill endilega láta hagnað einhvers fyrirtækis hverfa, að taka það að mér. Það er svo sem ekkert voðalega skemmtilegt en auðvelt er það.