Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 14:48:46 (834)

2003-10-28 14:48:46# 130. lþ. 15.10 fundur 18. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (félagsgjöld til stéttarfélags) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[14:48]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Fullyrðing hv. þm. um að félagsgjöld séu lögboðin er ekki rétt. Það er ekki nema hjá opinberum starfsmönnum, og við vorum einmitt að greiða atkvæði um að vísa til 2. umr. frv. um að afnema þá lagaskyldu á opinbera starfsmenn að greiða í stéttarfélag hvort sem þeir vilja vera í þeim eða ekki. (Gripið fram í.) Stjórnarskráin tryggir mönnum félagafrelsi og aðild okkar að alþjóðavinnumálasamningi tryggir það sömuleiðis að ekki er skylda að borga í stéttarfélag, enda er fjöldi manna sem borgar ekki í stéttarfélag.

Hins vegar ef menn búa fjarri vinnustað þá getur það nú orðið dálítið erfitt að komast þangað án þess að nota farartæki. (Gripið fram í: Það er val manna.) Val manna, menn geta náttúrlega labbað en þá eyða þeir kannski miklum tíma í að fara á milli, ég sé því ekki að sá kostnaður sé neitt minni. Ég mundi frekar vilja aðstoða menn við að komast á vinnustað með því að heimila að draga frá kostnað við strætisvagna eða bíl heldur en að styðja verkalýðshreyfinguna með því að hafa félagsgjöld þangað skattfrjáls.

Um það hvort ég taki þetta fyrir fordómalaust, ég vona að ég hafi ekki mikla fordóma. Ég ræði að sjálfsögðu kosti og galla allra frv. Við höfum einmitt tekið þá stefnu í hv. efh.- og viðskn. að ræða kosti og galla þingmála og fá svarað fyrirspurnum, t.d. frá fjmrn. um hvað þetta er stór upphæð.