Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 14:56:40 (838)

2003-10-28 14:56:40# 130. lþ. 15.10 fundur 18. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (félagsgjöld til stéttarfélags) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[14:56]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Við erum farin að ræða allt annað frumvarp en hér er til umræðu.

Ég vildi gjarnan geta þess, fyrst að ég var spurður, að ég gerði ráð fyrir því í því frv. sem ég lagði fram á sínum tíma að við hliðina á því væri tekið upp húsnæðisbótakerfi sem tryggði þeim sem hafa lágar tekjur og lágar eignir ákveðinn styrk til húsnæðis og kæmi í staðinn fyrir meingallað húsaleigubótakerfi og vaxtabótakerfi.

Við skulum hafa það í huga þegar við hv. þingmenn erum að flækja skattalögin að það er talið að um 7% þjóðarinnar séu ólæs. Sá hluti þjóðarinnar stendur frammi fyrir óskiljanlegu bákni sem er skattkerfið. Eftir því sem við gerum skattkerfið flóknara og flóknara til að gera það réttlátara, tökum inn í það félagsgjaldið í stéttarfélög, tökum inn í það kostnað við að keyra til vinnu o.s.frv., þeim mun berskjaldaðri stendur þessi hópur manna fyrir sífellt flóknara kerfi. Hann mun ekki telja fram og hann mun lenda í áætlunum og mun borga lögfræðikostnað eins og hann hefur gert hingað til. Fyrir þennan hóp manna er best að skattkerfið sé sem allra einfaldast.