Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 15:00:24 (840)

2003-10-28 15:00:24# 130. lþ. 15.10 fundur 18. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (félagsgjöld til stéttarfélags) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[15:00]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson hefur illilega misskilið það sem ég var að segja og ég hef þá sennilega ekki verið nægilega skýrmæltur. Ég nefndi dæmi um fullt af málum sem mætti taka upp, ferðakostnað, barnaheimiliskostnað o.s.frv. Við getum gert skattkerfið óskaplega flókið ef við ætlum að vera mjög réttlát, réttlát fram í ystu fingurgóma og láta allan kostnað sem menn hafa af vinnu sinni koma til frádráttar. Ég var einmitt að segja að það vildi ég ekki. Ég var einmitt að segja að þess vegna væri ég ekki mjög hrifinn af þessu frv. af því að það gerir skattkerfið flóknara. Nú þurfa menn að fara að draga frá, ekki bara iðgjald í lífeyrissjóð sem er viss flæking á skattkerfinu, lækkaði skatttekjur ríkisins og hækkaði frítekjumarkið. Það geta hv. þm. sem hér hafa talað tekið inn að frítekjumarkið hækkaði við það að iðgjaldið í lífeyrissjóð varð frádráttarbært. Hér er lagt til að félagsgjaldið verði líka frádráttarbært, það er sem sagt verið að flækja kerfið og það þýðir líka að þeir sem eru kannski verst settir standa höllum fæti gagnvart þessu flókna kerfi. Þess vegna hef ég lagt til að hafa skattkerfið mjög einfalt. Ég hef meira að segja lagt til að skatturinn verði 20% af öllum tekjum, greiddur af laununum um leið og þau eru greidd og ekkert framtal. Ekkert framtal, herra forseti. Þjóðin vinnur heilan dag á ári við að telja fram sér til mikilla leiðinda. Ég þekki ekki nokkurn einasta mann sem hefur gaman af því. Ef tekinn væri upp flatur tekjuskattur og horft fram hjá öllum þessum flóknu réttlætismálum yrði það mest til hagsbóta þeim sem verst eru settir.