Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 15:06:09 (843)

2003-10-28 15:06:09# 130. lþ. 15.10 fundur 18. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (félagsgjöld til stéttarfélags) frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[15:06]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég hafði svo sem ekki ætlað mér að taka þátt í þessari umræðu en get ekki orða bundist í kjölfar þeirra viðbragða sem hér hafa orðið við þessu litla og tiltölulega einfalda frv. til laga sem fyrst og síðast felur það í sér að skapa jafnræði gagnvart fyrirtækjum og félögum annars vegar og einstaklingum hins vegar í skattalögum. Bara til að ég klári þann litla en samt mikilvæga þátt mála í ljósi viðbragða sérstaks sérfræðings Sjálfstfl. í skattamálum, peningapólitík og efnahagsmálum yfirleitt, hv. þm. Péturs H. Blöndals, þegar hann finnur þessu litla frv. allt til foráttu í ljósi þess að það flæki skattalögin svo mikið að það sé ekki fyrir nokkurn mann að átta sig á þeim ef að lögum verður --- er þá ekki hægt að gagnálykta að hann sé í raun að boða þá stefnumörkun að hann fari fram á það að leggja af þessar ívilnanir gagnvart félögum og fyrirtækjum gagnvart Samtökum atvinnulífsins? Er ekki eðlileg gagnályktun að hann beiti sér þá fyrir því að þessum ívilnandi þáttum í skattalögum sem snúa að greiðslum fyrirtækja til samtaka sinna verði á sama hátt komið í lóg? Ég vildi gjarnan að hann svaraði því.

Það var samt ekki meginástæða þess að ég kvaddi mér hljóðs heldur þessi undarlegu viðbrögð sýknt og heilagt við hugmyndum okkar jafnaðarmanna í þá veruna að létta álögum af almenningi í þessu landi. Það er ekki í fyrsta skipti á þessu hausti og vafalaust ekki það síðasta sem hér koma stjórnarliðar og bregðast ókvæða við, finna því allt til foráttu þegar við samfylkingarmenn leggjum til að lækka skatta á fólk, lækka álögur á fólk, lækka matvælaverð. Þá er þetta allt ómögulegt. Það flækir málin og skapar erfiðleika og ríkissjóður má ekki verða af þessum tekjum og ekki hinum. Það er eins og menn hafi brugðið sér í nýjan búning á örfáum mánuðum, gleymt öllu því sem um var talað í aðdraganda kosninga þar sem mest var um það rætt einmitt að lækka skatta á fólk. Hv. þm. Pétur H. Blöndal dró ekki af sér í þessari orðræðu allri. En nú hefur hann haft endaskipti á sjálfum sér og flokknum sínum og nú er það allt hið versta mál þegar Samfylkingin, jafnaðarmannaflokkur Íslands, flokkur umbóta sem vill treysta sameiginlega þjónustu, finnur glufur í peningapólitíkinni og vill létta álögum af fólki. Þá er það ómögulegt, bara svakalegt. Vegna þessa litla frv. er spurt með þjósti: Hvað kostar þetta? Hvaða gífurlegu fjárhæðir er hér um að tefla? Svo leyfa menn sér það, frú forseti, enn og aftur að fara í hinn gamalkunna farveg og segja: Er nú ekki betra að hjálpa fátæku ekkjunni í strætó? Er ekki betra að hjálpa barnmörgu fjölskyldunum á leikskólunum og barnaheimilunum? Slá úr og í og reyna að drepa málum á dreif með ódýrum hætti.

Ég ætla að tala hér mannamál, frú forseti. Þetta er auðvitað óþolandi orðræða sem okkur hv. þm. er boðið upp á, og þjóðinni allri. Þetta eru menn sem hafa einfaldlega vondan málstað að verja. Þetta eru menn með vonda samvisku sem standa frammi fyrir þeim veruleika sem birtist okkur í fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar þar sem skattalækkunarloforðum ríkisstjórnarinnar var stungið ofan í skúffu og sagt sem svo: Við skulum skoða þetta mál í lok kjörtímabils. Við ætlum að lofa þessu upp á nýtt árin 2006 og 2007 þegar líður að næstu kosningum. Frú forseti. Það er auðvitað enginn mannsbragur á þessu öllu saman og hér eru engir aukvisar á ferð sem taka þátt í þessari orðræðu um skattamál og skattaáþján á íslenskar fjölskyldur. Hér er um að ræða formann efh.- og viðskn., sérstakan sérfræðing Sjálfstfl. í þessum efnum og svo er hér auðvitað að finna hv. þm. Kristin H. Gunnarsson. Ég verð þó að verðlauna hann fyrir það sem hann sagði. Hann hafði þó skilning á því að hér væri ekki allt með felldu, hér væri auðvitað bersýnilega um mismunun að ræða sem færi á svig við þessa gullnu jafnræðisreglu stjórnarskrár og jafnræðisreglu sem auðvitað gildir í skattalögum og öðrum þáttum þjóðlífs. Hann tók frv. með tiltölulega miklu umburðarlyndi, sagði þó á framsóknarvísu að þetta þyrfti að skoða og athuga en það var þó meiri vigt í þeirri nálgun hans en hv. þm. Péturs H. Blöndals. Allt ber þetta þó að sama brunni. Það er ekkert að marka þessa ríkisstjórn. Hún er að hefja sitt þriðja kjörtímabil og byrjar vegferð sína með allt niður um sig, kannast ekki við orð sín frá því í vor og, það sem meira er, bregst ókvæða við þegar stjórnarandstaðan, við jafnaðarmenn á þingi, er þó að tala í svipaða veru og þeir gerðu í kosningabaráttunni, um að létta álögum af launafólki í þessu landi. Þá er það bara algerlega ómögulegt.

Öðruvísi mér áður brá og vissulega hljóta þeir að ruglast dálítið í ríminu. Ég hef samúð með þeim sjálfstæðismönnum þegar að því kemur að þeir nái sönsum. Þeir hafa fram undir það síðasta talið það vera sitt sérstaka einkamál og þeir hafi sérleyfi á því að tala um skattalækkanir en það er auðvitað ekki þannig lengur því að veruleikinn birtist okkur í hverri fréttinni á fætur annarri, nú síðast á Stöð 2 þar sem OECD gerði ítarlega úttekt á því hver þróun þessara mála hefði orðið á síðustu árum og í ljós kom að 1995 þegar þeir helmingaskiptaflokkar rugluðu saman reytum er Ísland hástökkvari annarra OECD-þjóða þegar kemur að skattahækkunum og álagningu á einstaklinga og fyrirtæki. Sú tafla er vafalaust öllum aðgengileg og hafi hv. þingmenn ekki séð þessa umtöluðu frétt veit ég að bókasafnið hér mun geta prentað hana út. Stundum, öllu heldur gjarnan, hafa nefnilega hv. stjórnarþingmenn borið fyrir sig alþjóðastofnanir þegar þeir vilja halda því fram að spilling sé hér lítil og að við stöndum vel að vígi í samanburði við aðrar þjóðir. Þarna auðvitað eru tölurnar svo naktar sem frekast má vera. Ísland er hástökkvari þjóða meðal OECD, það er bara þannig, og skattar hér hafa hækkað umtalsvert á þessu tímabili. Allar þessar deilur sem fram fóru fyrir síðustu kosningar um það hvort skattar hér hefðu hækkað eða lækkað eru auðvitað fullkomlega óþarfar. Tölurnar eru bara svona hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.

Það er verk að vinna, frú forseti, og þetta litla frv. er hænufet í þá áttina að við getum farið að létta álögum af launafólki. Ég hefði haldið fyrir fram að menn hoppuðu upp á þennan vagn hikstalaust og hiklaust og fögnuðu þessu litla frumkvæði okkar en væru ekki með eitthvert röfl og nudd og leiðindi.