Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 15:14:06 (844)

2003-10-28 15:14:06# 130. lþ. 15.10 fundur 18. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (félagsgjöld til stéttarfélags) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[15:14]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Frú forseti. Ég held ekki að ég hafi verið neitt sérstaklega grimmur á móti þessu frv. Ég var einmitt mjög hógvær og tók fyrir kosti og galla og lýsti þeirri skoðun minni að skattstofnar ættu að vera einfaldir, sem stærstir og án undantekninga til þess að koma í veg fyrir bæði misnotkun og það að þeir breyti hegðun fólks. Þetta er skoðun mín og verður áfram.

Ég nefndi líka að menn geta komið með fullt af góðum málum og hér er eitt þeirra. Það er búið að boða annað sem tekur á ferðakostnaði. Það er líka gott mál. En alltaf er verið að hola skattstofninn og alltaf er verið að gera hann minna og minna flatan og alltaf er verið að gera stöðu þess fólks sem kannski stendur hvað verst þekkingarlega og kann bara hreinlega ekki að lesa verri og verri. Flókið kerfi bitnar helst á því fólki. Þeir ríku sem hafa dýra endurskoðendur nýta allar smugur í skattkerfinu, ekki spurning, frú forseti.

Varðandi það hvernig Sjálfstfl. ætlar að bregðast við og hvað hann ætlar að gera í skattamálum hljóta kjósendur að horfa til leiðarloka. Við erum búin að lækka töluvert af sköttum. Eignarskatturinn hefur verið helmingaður og rúmlega það og hann verður felldur niður. Það stendur til að lækka tekjuskatta. Þetta er allt saman að leiðarlokum, í lok kjörtímabilsins, og þá tölum við við kjósendur okkar. Þeir munu sjá hvernig við stefnum til framtíðar. Við erum ekki að hugsa um næstu tvo, þrjá mánuði. Við erum að hugsa um næstu 20, 30, 40 árin, hvernig þjóðfélagið lítur út.

Skattkerfið og tekjutenging bóta er þannig, hannað m.a. af Alþýðuflokknum á sínum tíma, að breiðu bökin áttu að borga meira. Hálaunamenn áttu að borga meira. Þegar svo illa vill til, frú forseti, að launin hækka og hækka umfram verðlag er það víst mjög slæmt því þá fara menn að borga meira því að þeir eru komnir með breið bök. Þetta var vilji Alþýðuflokksins sáluga sem hv. þm. var einu sinni í.