Kirkjuskipan ríkisins

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 15:46:38 (851)

2003-10-28 15:46:38# 130. lþ. 15.11 fundur 14. mál: #A kirkjuskipan ríkisins# (aðskilnaður ríkis og kirkju) frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[15:46]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð um þetta frv. til laga um breytingu á kirkjuskipan ríkisins. Ég var flutningsmaður að þessu frv. ásamt með 1. flm. Guðjóni A. Kristjánssyni á tveimur síðustu þingum þannig að ég vil aðeins leggja orð í belg varðandi það.

Ég hef verið aðili að því vegna þess að ég tel að umræða um stöðu kirkjunnar á þeim grunni sem hér er lagður til, sérstaklega hvað varðar 3. gr. frv., muni verða til góðs og ég hef stutt frv. með þeim formerkjum að það efli umræðu um stöðu kirkjunnar og efli kirkjuna sjálfa. Ég er þeirrar skoðunar að íslenska þjóðkirkjan sé máttarstólpi íslensks samfélags, enda vitum við öll að hefðir okkar, venjur, frí og hátíðarhald allt byggist á grunni starfsemi kirkjunnar. Ég vil að það komi skýrt fram. Ég vitnaði í 3. gr., um að dóms- og kirkjumrh. skipi nefnd fimm manna til að undirbúa nauðsynleg lagafrv. og sjá um allan undirbúning fyrir aðskilnað ríkis og kirkju samkvæmt 2. gr., og tel að það muni leiða til þess að menn fari í þá vinnu sem þarf að vinna til þess að athuga stöðu kirkjunnar í samfélaginu. Allir gera sér grein fyrir því að helsti ásteytingarsteinninn er fjármálaleg samskipti ríkis og kirkju. Menn eru gríðarlega ósammála um það hver undirstaða eigna kirkjunnar sé og hverjar geti verið kröfur kirkjunnar á ríkið í framhaldi af slíkri umræðu og það er mjög gott að það komi upp og sé kortlagt.

Ég held líka að það sé mjög gott að kortleggja í þessu samhengi peningalega stöðu og framkvæmdir á vegum annarra trúarfélaga. Það er a.m.k. tilfinning mín að uppbygging annarra safnaða hafi að verulegu leyti átt sér stað með innskotum af peningum, af fjármagni erlendis frá þar sem söfnuðir hafa byggt upp bæði safnaðarstarf og líka byggingar með því að hafa fengið í sumum tilfellum allverulegar fjárupphæðir frá útlöndum. Þetta þurfum við að fá upp á borðið í þessari umræðu.

Kirkjunnar menn margir og jafnvel biskupinn yfir Íslandi hefur úttalað sig um það að kirkjan sé gagnrýnd fyrir að vera íhaldssöm. Sumum þykir það gott og öðrum þykir það miður og ég er sannfærður um að umræðan um stöðu kirkjunnar muni styrkja hana til lengri tíma litið. Margir kirkjunnar menn eru þeirrar skoðunar að það fyrirkomulag sem núna er á samskiptum ríkis og kirkju sé fullnægjandi og vilja þess vegna ekki frekari breytingar en ég tel að sú undirbúningsvinna sem sett yrði í gang á grunni 3. gr. frv. um að skipa fimm manna nefnd til að undirbúa og setja fram nauðsynleg lagafrumvörp mundi leiða til þess að við fengjum miklu betri grunn til þess að ræða stöðu trúmála í landinu á einhvern vitrænan hátt þannig að við sæjum hvað við hefðum í höndunum.

Virðulegi forseti. Það voru aðeins þessi atriði sem ég vildi draga fram. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir kirkjuna að það sé stöðug og lífleg umræða um starfsemi hennar. Kirkjunnar menn hafa kallað eftir slíkri umræðu og kannski ekki fengið hana vegna þess að það hefur verið of mikil íhaldssemi varðandi breytingar á starfsgrundvelli hennar. Það hafa að vísu átt sér stað gríðarlegar breytingar með hlutfallslega miklum aðskilnaði miðað við það sem áður var en þessi vinna sem hér fer í gang mun gefa okkur miklu betri grunn til þess að átta okkur á þeirri stöðu sem við erum í og gera okkur kleift að taka vitrænar ákvarðanir um það hvernig við viljum haga samskiptum ríkis og kirkju á grunni þeirrar vinnu sem lagt er til í 3. gr. frv. að fram fari um breytingar á kirkjuskipan ríkisins.

Virðulegi forseti. Það voru aðeins þessi atriði sem ég vildi draga fram vegna þess að ég hef komið að þessu máli. Ég undirstrika að ég tel að sú vinna sem lagt er til að verði sett í gang muni geta lagt mikilvægan grunn að því að ræða framtíðarskipan kirkjumála og samskipta ríkis og kirkju með það að leiðarljósi að efla starf og starfsemi þjóðkirkjunnar á alla lund.