Kirkjuskipan ríkisins

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 15:52:10 (852)

2003-10-28 15:52:10# 130. lþ. 15.11 fundur 14. mál: #A kirkjuskipan ríkisins# (aðskilnaður ríkis og kirkju) frv., EKH
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[15:52]

Einar Karl Haraldsson:

Hæstv. forseti. Það frv. til laga sem hér er til umræðu um breytingu á kirkjuskipan ríkisins er á margan hátt tímanna tákn og það er mjög nauðsynlegt að sú þjóðkirkjuskipan sem hér er við lýði sé til gagnrýninnar umræðu og umfjöllunar á hverjum tíma, sérstaklega í ljósi þess að þjóðfélagið breytist hratt og hingað berast ný trúarbrögð og fólk frá öðrum þjóðum sem hefur annan átrúnað en við höfum vanist.

Hins vegar verð ég að segja að það eru nokkur atriði í þessu frv. sem ég á erfitt með að fella mig við. Hér stendur í 1. gr. að allar kirkjudeildir og trúarsöfnuðir skuli njóta jafnréttis að lögum og er vitnað í jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Ég held að þarna séum við á brautum sem nálgast það að misnota þetta jafnræðisákvæði. Það er fullyrt í greinargerð að núverandi ástand sé í andstöðu við þau meginsjónarmið í því ákvæði stjórnarskrárinnar sem hv. þm. Þuríður Backman las upp áðan, þ.e. að hvers kyns forréttindi eins trúfélags umfram önnur gangi gegn þeim grundvallarsjónarmiðum sem trúfrelsisgrein stjórnarskrárinnar kveður á um.

Þessi ákvæði í stjórnarskránni eru tiltölulega ný. Þau komu inn 1995 eftir rækilega endurskoðun á mannréttindum, þ.e. mannréttindakafla var bætt inn í stjórnarskrána. Við þessa athugun var náttúrlega farið yfir þjóðkirkjuskipanina og sú nefnd sem vann að þessari endurskoðun komst að þeirri niðurstöðu að þjóðkirkjuskipanin bryti ekki í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Spurningin er: Hefur eitthvað mikið breyst frá 1995? Í Noregi þar sem þjóðkirkjuskipulag er við lýði, miklu stífara og víðtækara en hér á Íslandi, hafa menn verið í sams konar athugun og farið yfir mannréttindasamninga og mannréttindaskrár í Evrópu og komist að svipaðri niðurstöðu. Þessi fullyrðing finnst mér vera afar vafasöm og hún er í öllu falli ekki rökstudd.

Við getum líka fundið að 2. gr. þessa frv. þar sem stendur að stefnt skuli að fullum aðskilnaði ríkis og hinnar evangelísk-lútersku kirkju innan fimm ára. Að vísu kom fram í máli frummælanda að þau vissu ekki nákvæmlega hvað í þessu fælist, það á nefndin að skoða sem skipa á samkvæmt þessu frv. Manni finnst þarna þó mjög afdráttarlaust til orða tekið, ,,fullur aðskilnaður``, menn ætli að skiljast að fullu á fimm árum eftir 1000 ára samleið. Það verður ekki á annan hátt skilið en ætlunin sé að ríkið verði algjörlega hlutlaust gagnvart öllum trúfélögum í landinu. Fleiri en frjálslyndir virðast á þessari skoðun. Miðað við ályktun stjórnar Heimdallar í vikunni á ríkið að hætta að vera að vasast í trúmálum.

Það er nauðsynlegt að hafa til athugunar að það eru ýmis form á samstarfi ríkis og kirkju í okkar heimshluta. Það eru nokkur módel sem hafa verið í gangi. Þó að þau séu kannski ekki alveg hreinræktuð getur maður sagt í fyrsta lagi að það sé hið veraldlega og trúarlega heildarlíkan þar sem engin skil eru gerð milli ríkis og kirkju. Síðan er þetta ríkis- og þjóðkirkjuskipulag sem við þekkjum á Norðurlöndum og er það skipulag sem íslenska kerfið er sniðið eftir en þó erum við komin lengst af Norðurlandaþjóðunum, öðrum en Svíum, við að þróa okkar þjóðkirkjuskipulag yfir í það sem kalla mætti samstarfslíkan þar sem ríki og kirkja eru í samstarfi en ekki í mjög nánum tengslum þar sem kirkjan hefur mikið fjárhagslegt og stjórnunarlegt sjálfstæði.

Svíar telja sig vera búna að skilja að ríki og kirkju, gerðu það árið 2000, en samt sem áður eru kirkja og ríki í Svíþjóð alls ekki skilin að skiptum. Í rauninni má færa rök að því að við séum á sumum sviðum komin lengra en Svíar í aðskilnaði ríkis og kirkju.

Þegar menn tala um aðskilnaðarlíkan eru þeir að mínu viti á mjög hættulegum brautum. Það má t.d. nefna grein í Morgunblaðinu á sunnudaginn frá einum af forustumönnum Siðmenntar en hann er þeirrar skoðunar að það sé ekki nóg að upphefja þá jákvæðu mismunun sem vissulega er í stjórnarskránni gagnvart þjóðkirkjuskipaninni með því að bæta hlut annarra trúfélaga í landinu. Það er ekki hægt að ganga til móts við þau, ganga til móts við kröfur þeirra, að ríkið auki stuðning við það --- það er ekki verið að biðja um það. Það er verið að biðja um að þessi jákvæða mismunun verði afnumin gagnvart þjóðkirkjunni. Þegar þessar kröfur eru settar fram í bókstafstrúarstíl verða viðbrögðin oft þannig að ríkið segir: Ja, við skiptum okkur bara ekkert af því, við látum þetta bara allt gossa. Og ég held að það sé slæmt. Ég er á þeirri skoðun að ríkið eigi að hafa samstarf við trúfélögin í landinu og það eigi að vera út frá sjónarmiðum trúfrelsis að sjálfsögðu en það sé hins vegar mjög vafasamt að við eigum að afnema alla jákvæða mismunun gagnvart þjóðkirkjunni.

[16:00]

Ég held að það sé margt í samtíma okkar sem við getum líkt við stöðu þjóðkirkjunnar í dag. Við getum tekið t.d. Þjóðleikhúsið og frjálsa leikhópa. Að sjálfsögðu er jákvæð mismunun gagnvart Þjóðleikhúsinu, miðað við frjálsu leikhópana, en á þá krafan að vera sú að allir ríkisstyrkir til Þjóðleikhússins verði afnumdir til þess að þeir standi jafnfætis, leikararnir í Þjóðleikhúsinu og leikararnir hjá frjálsu leikhópunum?

Við getum tekið háskólana. Eigum við að afnema alla jákvæða mismunun, rannsókna- og vísindasérkenni Háskóla Íslands, til þess að hann hafi ekki forgang umfram sérháskólana og þessa nýju háskóla sem eru að spretta upp af miklum krafti allt í kringum háskólann?

Auðvitað gerum við þetta ekki. Svona hugsa menn ekki, heldur hugsa menn til þess að reyna að bæta stöðu frjálsu leikhópanna með því að í þjóðfélagi þar sem efnahagur fer batnandi ár frá ári höfum við meiri möguleika til þess að láta sem flest blóm spretta. Hið sama á við um háskólana.

Þess vegna held ég að þegar jafnréttisreglan er notuð á þennan hátt séu menn komnir á mjög hættulega braut. Ég vil nefna dæmi um þetta, nokkuð sem við erum að sjá alls staðar annars staðar í Evrópu. Það er þegar öfgasinnaðir og bókstafstrúaðir hópar múslima koma sér fyrir í þeim löndum og gera kröfur í nafni jafnréttis og mannréttindakafla stjórnarskrár viðkomandi landa um að þeir fái að iðka sína trú og nota þau trúarlegu viðmið sem þeir hafa með sér að heiman, úr sínu umhverfi.

Þetta er afskaplega falleg og göfug krafa, sett fram í nafni trúfrelsis og mannréttinda. En þegar hún felur það í sér að við í vestrænum lýðræðisríkjum eigum að viðurkenna Sharia-lögin, sem eru nánast trúarsetningar í mörgum slíkum hópum, verður maður að stíga niður fæti. Þá er ekki spurningin um það að veita slíkum hópum jafnræði. Þá er ekki spurningin um að þeir eigi að fá sömu meðhöndlun og þjóðkirkjan eða sá átrúnaður sem við höfum fylgt og þróast hefur með okkar lýðræðissamfélagi í áratugi og aldir vegna þess að Sharia-lögin eru þannig löguð að þau koma í veg fyrir allar raunhæfar framfarir í arabalöndunum þar sem ekki er lýðræði í einu einasta ríki. Þau samræmast ekki vestrænum hugmyndum um lýðræði, mannréttindi, jafnrétti kynjanna og einstaklingsfrelsi sem þó eru þær forsendur sem við höfum í heiðri á okkar tímum og eru þess utan grimmilegt skálkaskjól fyrir ofbeldi gegn konum. Sharia-lögin eru frá 9. öld og svona álíka úrelt og spænski rannsóknarrétturinn. Eigum við að fara að veita honum jafnrétti í okkar samfélagi?

Þessi jafnræðishugsun, svo falleg og góð sem hún er, er ekki algild. Eins nauðsynlegt og það er að ræða þjóðkirkjuskipanina hér --- vissulega kemur til greina að þróa samstarf við trúarhópa með ýmsum hætti hér á Íslandi og gera breytingar á sambúð ríkis og kirkju, halda áfram þar sem frá var horfið með kirkjuskipanina 1997 og breyta henni enn meira í átt til sjálfstæðis kirkjunnar --- þurfum við að fara að með gát.

Sérstaklega harma ég það þegar fulltrúar ýmissa trúfélaga hér á Íslandi og lífsskoðunarhópa til að mynda, eins og ég nefndi hér áðan, Siðmenntar, virðast beina spjótum sínum aðallega gegn þjóðkirkjunni í stað þess að gera kröfur sínar gagnvart ríkinu, gagnvart almannavaldinu. Hvað er það sem þau upplifa þannig að þau njóti neikvæðrar mismunar? Geta þau nefnt dæmi um að þau séu þolendur neikvæðrar mismunar? Er verið að banna mönnum atvinnu eða er verið að banna mönnum að rækja trú sína, er verið að koma í veg fyrir að fólk geti stundað sitt tómstundalíf? Er verið að ofsækja fólk hér á Íslandi? Hverjar eru kröfurnar frá trúfélögunum á hendur ríkinu?

Ef það eru eignakröfur á ríkið auðvitað að skoða það. Það sem vantar hins vegar í þessa umræðu er einmitt að trúfélögin sem hér starfa við hliðina á þjóðkirkjunni lýsi því hvað þau vilja. Vilja t.d. trúfélög og lífsskoðunarfélög að ríkið borgi fyrir forstöðumenn þeirra safnaða? Mér finnst það alveg koma til greina. Það fellur alveg inn í samstarfsmódel ríkis og kirkju að ríkið greiði laun t.d. forstöðumanna safnaða sem hafa ákveðna ítölu, ef maður getur sagt sem svo. Það sem kannski mundi rökstyðja þá kröfu væri að gegn því að ríkið ætti samstarf við slíka hópa væri hægt að setja skilyrði fyrir því að slíkir hópar, hvort sem það eru lífsskoðunarhópar eða trúarhópar, starfi í samræmi við íslensk lög og virði mannréttindi, kvenréttindi og lýðfrelsi innan vébanda sinna, eins og okkur öllum er skylt að gera sem höfum unnið eið að íslensku stjórnarskránni.

Ég vil að lokum endurtaka að umræða um þessi mál er mjög góð og þörf. Þjóðkirkjumenn ættu síst af öllu að skjóta sér undan að taka þátt í þeirri umræðu. En mér finnst eins og áður sagði að með þeim orðum sem hér eru rituð í frv. um fullan aðskilnað og fullyrðingar í grg. um að núverandi ástand sé í andstöðu við meginsjónarmið í stjórnarskránni sé of djúpt í árinni tekið, of mikið í fang færst og það geti skapað verulegar hættur og hugsanlega opnað fyrir upplausnarástand í samfélaginu.