Kirkjuskipan ríkisins

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 16:20:45 (859)

2003-10-28 16:20:45# 130. lþ. 15.11 fundur 14. mál: #A kirkjuskipan ríkisins# (aðskilnaður ríkis og kirkju) frv., Flm. GAK
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[16:20]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram. Þær hafa verið málefnalegar að mínu mati og ekki neitt nema gott um þær að segja.

Ég ætla í þeirri stuttu ræðu sem ég hyggst flytja núna að víkja að sumu því sem hér hefur verið sagt. Ég vil t.d. segja, virðulegur forseti, varðandi það sem hv. þm. Einar Karl Haraldsson sagði hér áðan og vitnaði þá til trúarbragða sem ekki samræmdust íslenskum lögum. Ég vil segja að ég tel að slík trúarbrögð geti aldrei verið samþykkt af íslensku þjóðinni sem trúarbrögð sem við setjum jafngild trúarbrögðum sem gangast undir öll mannleg gildi. Þá er ég að tala um jafnrétti og stöðu fólks að öðru leyti, stöðu barna o.s.frv. Þannig að mér finnst það sjálfboðið að þegar vinna eins og við leggjum hér til að fari fram samhliða þessu frv., þá væri að sjálfsögðu skoðað hvaða stöðu trúfélög og trúarsöfnuðir hafa hér á landi eða önnur félög sem menn hafa myndað um viðhorf sín til trúar eins og t.d. Siðmennt, og hvort þau eru e.t.v. með eitthvað í sínum samþykktum sem fer í bága við landslög. Ég hef reyndar ekki orðið var við að hér séu iðkuð trúarbrögð sem fari í bága við landslög eða stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. En ef svo er, þá tel ég sjálfgefið að slíkum trúarbrögðum yrði ekki gert jafnhátt undir höfði og öðrum. Það liggur eiginlega alveg í hlutarins eðli.

Það má ekki túlka það sem hér segir í greinargerð ,,ákvæði 1. gr. frumvarpsins felur í sér að óheimilt er að mæla fyrir um það í lögum að eitt trúfélag skuli njóta einhverra sérréttinda umfram önnur og kemur þannig til móts við þá kröfu að menn skuli hafa jafnan rétt og jafna möguleika á að iðka trú sína``, það má ekki túlka þetta þannig að við séum að samþykkja trúarsöfnuði sem beinlínis hefðu í samþykktum sínum eða trú athæfi sem við teljum fara algerlega gegn íslenskum hefðum og íslenskum réttarvenjum. Ég held að enginn geti ætlað okkur það að þessi texti eigi að lesast þannig að í honum standi að trúfélög sem virða ekki mannréttindi og líf fólks skuli viðurkennd til jafns við önnur trúfélög að þessu leyti.

Þetta vildi ég nú sagt hafa um það þannig að það sé örugglega enginn misskilningur þar á ferð. Það er alla vega okkar skilningur sem höfum hreyft þessu máli hér.

Varðandi hins vegar það sem vikið var að og nefnt hér í máli manna um mismunun að fjárhagslegu leyti og þá jákvæð mismunun, þá hef ég litið svo á að það væru tvær leiðir til þess að jafna stöðu trúfélaga í landinu. Annars vegar að færa rétt annarra trúfélaga í fjárhagslegu tilliti m.a. til þess sem lúterska kirkjan hefur og viðurkenna þá önnur trúfélög að því leyti til að þeim skuli einnig tryggður fjárhagslegur styrkur til þess að halda trú sína og hafa þjónandi menn fyrir sína söfnuði. Hins vegar að hafa fullan aðskilnað og marka þá tekjustofnana, hvernig með þá eigi að fara og hvernig þeir eigi þá að ná til allra trúarsöfnuða.

Ég tel að það sé ágreiningur í þjóðfélaginu þegar vikið er að jafnréttisákvæðum stjórnarskrárinnar og því ákvæði sem sett var 1995. Eftir því sem ég fæ skilið þá skilja lögfræðingar í þessu þjóðfélagi ekki þetta ákvæði allir eins og um það eru deilur. Ég hef heyrt útskýringar hæstv. dómsmrh. á þessu ákvæði og ég heyrði hvað hv. þm. Einar Karl Haraldsson sagði hér áðan. Ég ætla ekki að leggja dóm á það, ég er ekki lögfræðimenntaður maður. Ef deilur eru um efnisatriði í okkar stjórnarskrá verða aðrir að útkljá það. Það verður ekki leyst af þeim sem hér stendur.

Ég vil bara að lokum, virðulegi forseti, ítreka það að frv. sem við leggjum hér fram hefur verið kynnt hér áður í hv. þingi. Við höfum ævinlega lagt það til að atkvæðagreiðslan færi fram samhliða öðrum kosningum, vegna þess að við höfum ekki talið að það þyrfti neina flýtiaðferð í þessu máli og ekki væri rétt að efna til sérkosningar eingöngu vegna þessa atriðis, heldur mætti framkvæma það í sveitarstjórnarkosningum eða alþingiskosningum til að fá afstöðu fólks í landinu til þessarar framtíðar sem menn vildu e.t.v. stefna að.

Ég held að sé afar nauðsynlegt, eins og umræðan hér í dag hefur kannski leitt í ljós, að í þessa vinnu verði farið og menn fari nákvæmlega í gegnum það hver staðan er í dag. Hvernig eru fjárhagsleg samskipti? Hvernig eiga þau að vera í framtíðinni? Hvernig eiga allir að sitja við sama borð að því leyti til að menn hafi sömu réttindi varðandi trú sína og möguleika til að iðka hana o.s.frv.?

Ef það er ásteytingarsteinninn að fimm ár þyki skammur tími í þessu sambandi og e.t.v. væru tíu ár eðlilegri tími, þá geri ég svo sem engan sérstakan ágreining um það. Mér er eiginlega nokk sama hvort menn eru að tala um fimm ár eða tíu ár ef menn bara fara skipulega og af skynsemi í þessa vinnu og skoða málin ofan í kjölinn. Og ég er bara alls ekkert viss um það, virðulegi forseti, að þegar þjóðin verður látin kjósa um þetta mál þá fari málið nákvæmlega eins og lagt er til í þessu frv. Það verður bara að koma í ljós. En þjóðin hlýtur að eiga rétt á því að taka afstöðu til þessa máls eftir að það hefur verið vandlega unnið af starfshópi sem er til þess bær og hefur fengið það verkefni í hendur að skoða stöðu kirkjunnar í okkar þjóðfélagi og annarra trúfélaga og trúarsafnaða.

Að þeirri vinnu lokinni tel ég að leggja eigi þetta mál með öllum þeim upplýsingum sem hægt er að leggja með því fyrir þjóðina í upplýstri umræðu til þess að taka afstöðu til málsins í allsherjaratkvæðagreiðslu. Þegar um jafnstórt mál og hér er að ræða þá tel ég að vinna eigi með þessum hætti og að ekki verði hægt að fara í að breyta kirkjuskipaninni og samskiptum ríkis og kirkju öðruvísi en að það sé gert með vel upplýstri og undirbyggðri umræðu þar sem dregnir eru fram kostir og gallar þess að gera breytingar og þá í hvaða veru og í hvaða átt breytingin á að ganga nákvæmlega. Ég tel að frv. feli þetta í raun og veru í sér. Og ég vonast til þess að sá dagur komi að frv. fái efnislega og góða umfjöllun í nefnd sem vinni það í þann búning sem ásættanleg getur talist fyrir þing og þjóð. Ef ágreiningurinn stendur um það hvort við vinnum þetta verk á fimm árum, átta árum eða tíu árum, þá geri ég eins og ég sagði áður ekki sérstakan ágreining um það.