Vextir og verðtrygging

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 16:47:07 (863)

2003-10-28 16:47:07# 130. lþ. 15.12 fundur 22. mál: #A vextir og verðtrygging# (verðtryggð útlán) frv., HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[16:47]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér er ljóst að tillaga hv. þm. Ögmundar Jónassonar lýtur að því að fjárfestar eða lánveitendur séu ekki bæði með belti og axlabönd gagnvart lántökum og held að það sé í sjálfu sér framfaramál. Það sem ég vil aðeins vekja athygli á í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar er að ég tel að það sé einhliða áróður af hálfu lánveitenda og fjármagnseigenda að verðtrygging færi lántakendum til lengri tíma lægri vexti. Það kemur einfaldlega ekki heim og saman að á Íslandi borgi menn að meira eða minna leyti hæstu raunvexti í heimi og séu síðan einir um verðtryggingu og að verðtryggingin sé þó sérstaklega til þess fallin að lækka raunvexti. Ég sé engin rök fyrir því frá því að verðtryggingin var tekin upp að hún hafi leitt til lægri raunvaxtakostnaðar fyrir lántakendur í landinu og það sé því engin réttlæting fyrir viðhaldi verðtryggingarinnar.