Vextir og verðtrygging

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 16:56:05 (866)

2003-10-28 16:56:05# 130. lþ. 15.12 fundur 22. mál: #A vextir og verðtrygging# (verðtryggð útlán) frv., Flm. ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[16:56]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Ég ætla fyrst og fremst að þakka fyrir umræðuna og mér finnst gott að heyra að hv. þm. Pétur H. Blöndal, formaður efh.- og viðskn., telur andann í frumvarpinu ekki með öllu ómögulegan þó hann hafi sitthvað við það að athuga, talar um forsjárhyggju. Ég lít eiginlega fremur á þetta sem fyrirhyggju að við komum í veg fyrir að mér liggur við að segja að valdi sé misbeitt. Það er mjög mikilvægt að fólk geti skipulagt sín mál og viti nokkurn veginn að hverju það gengur. Ég get sagt frá því að ég er nýkominn af þingi BSRB þar sem þessi mál voru rædd. Þar voru ýmsir sem sögðu, eða þar heyrðist það sjónarmið, að hugsanlega væri betra að hafa breytilega vexti, óverðtryggð lán, einfaldlega vegna þess að menn gætu þá betur séð hver framtíðin yrði, menn væru hins vegar háðir duttlungum verðbólgunnar í þessum vísitölubundnu lánum. Ég hef sjálfur verið annarrar skoðunar einfaldlega vegna þess að ég vil draga lærdóm af reynslunni hver hún raunverulega er. Ég vil fyrst og fremst horfa í það hver vaxtabyrðin er. Það er það sem mér finnst skipta mestu máli.

Eitt varðandi Sigtúnshópinn frá fyrri tíð sem var mér mjög hugleikinn. Þá var náttúrlega vandinn ekki einvörðungu sá eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal segir að það hafi orðið verðfall á eignum í hlutfalli við lánin eða með hliðsjón af lánunum. Það sem gerðist var, eins og hann benti reyndar réttilega á, að launavísitalan var tekin úr sambandi vorið 1983 en lánskjaravísitalan hélt áfram að tikka. Það var það sem menn fóru að kalla misgengi, annars vegar á greiðslugetu lántakandans og lánsbyrðinni hins vegar.

Hv. þm. vék að lífeyrissjóðunum sem væru einn stærsti lánveitandinn á Íslandi. Það er alveg hárrétt. Ég tel að lífeyrissjóðirnir þurfi að sýna mjög mikla ábyrgð í allri sinni stefnumótun, sinni fjármálapólitík. Það stefnir í það að innan fjögurra ára verði eignir lífeyrissjóðanna um 1.000 milljarða kr. og þeir eru orðnir mjög umsvifamiklir á lánsfjármarkaði og geta haft mjög mikil áhrif á vaxtastigið. Lögin um lífeyrissjóði eru mjög þröng að því leyti að þeir eru knúnir til að leita eftir fjárfestingum þar sem arðsemin er mest hverju sinni. Þó er sá fyrirvari settur að fjárfestingin skuli vera trygg.

Ég hef verið talsmaður þess að túlka þetta mjög vítt og horfa til samfélagslegrar ábyrgðar lífeyrissjóðanna, vegna þess að það er ekki svo að með því að setja iðgjöld í lífeyrissjóð þá séu menn að setja peninga í sparibauk og þeir bíði í bauknum þangað til að því kemur að það þarf að grípa til þessara peninga. Þetta eru fjármunir sem eru settir inn í efnahagskerfið. Og vandinn er nákvæmlega sá sami hvort sem um sjóðsmyndun er að ræða eða gegnumstreymi, að því leyti að þessi verðmæti þarf að taka út úr efnahagskerfinu þegar þar að kemur. Þess vegna eiga lífeyrissjóðirnir, þótt þeir séu sjóðir, allt sitt undir því komið að efnahagskerfinu vegni vel. Það er grundvallaratriði. Og efnahagskerfinu mun ekki vegna vel, það á ekkert síður við fyrirtækin en heimilin, ef vaxtavextir eru keyrðir óhóflega hátt upp.

Af því að hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur stundum vitnað til þess að ég eigi sæti í lífeyrissjóðsstjórn sem er alveg hárrétt, get ég upplýst hann um það að mér hefur oft fundist lífeyrissjóðirnir, einnig sá sem ég á sæti í, fara óþarflega hátt upp með vextina. Þá er ég að horfa til þessarar samfélagslegu ábyrgðar með tilliti til efnahagslífsins. Mér finnst það eigi ekki síður við um lífeyrissjóði en aðra lánveitendur að það er rangt í eðli sínu, að mínu mati, að lánveitandinn geti upp á eigið eindæmi ákveðið það án nokkurs samráðs við hinn viðskiptaaðilann, að hækka verðið á vörunni aftur í tímann. Ég var með svona frumstæð samanburðardæmi hér áðan um að maður færi út í fiskbúð og væri rukkaður fyrir fiskinn í gær líka og þar áður og fiskinn frá því í fyrra. Það var gengið frá þeim kaupum, þetta er liðin tíð. En það er ekki þannig með afturvirka vexti.

Ég held því að það felist ekki nein óeðlileg forræðishyggja í þessu, alls ekki, vegna þess að mönnum er í sjálfsvald sett að semja um óverðtryggð lán, ef því er að skipta, eða verðtryggð lán. Eina sem er óeðlilegt er að lánveitandinn geti upp á sitt eindæmi einhvern tímann síðar meir ákveðið að hækka vöruna um tiltekið hlutfall. Það er það sem er óeðlilegt.