Lífeyrisréttindi hjóna

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 17:28:30 (869)

2003-10-28 17:28:30# 130. lþ. 15.16 fundur 46. mál: #A lífeyrisréttindi hjóna# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[17:28]

Pétur H. Blöndal:

Frú forseti. Við ræðum hér till. til þál. um að skipta lífeyrisréttindum á milli hjóna, afskaplega merkilegt og þarft mál og þarf að ræðast ítarlega. Það er sem sagt spurningin um að skipa nefnd sem kanni hvort rétt sé að tryggja með lögum rétt hjóna til hlutdeildar í lífeyriseign hvors annars.

Nýverið féll dómur í öryrkjamálinu svokallaða þar sem sagði að réttur manna til bóta úr almannatryggingakerfinu, þ.e. krafa fólks á hendur öðru fólki, skuli óháður félagslegri stöðu bótaþegans að mestu leyti, þ.e. að menn eigi rétt á ákveðnum lágmarkslífeyri burt séð frá félagslegri stöðu sinni. Hins vegar megi taka tillit til tekna maka.

Sú tillaga sem hér um ræðir er einmitt um það að hjón hafi sameiginlegan fjárbúskap, hafi sameiginlegan fjárhag. Þannig er það í öllum þeim tilfellum sem ég þekki til, ég man ekki til þess að hafa nokkurn tímann séð, frú forseti, að menn kvitti fyrir kaffibollann að morgni til þess sem keypti, heldur er þetta sameiginlegt og eignamyndunin í sambúð eða hjónabandi er á herðum beggja. Menn geta skipt með sér hlutverkum. Annar aðilinn getur séð um uppeldi barna og hinn lagt áherslu á öflun tekna o.s.frv. en eignamyndun er yfirleitt talin til skipta. Og við skilnað skipta menn öllum eignum sínum nema, eins og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, flm. þessarar þáltill. bendir á, lífeyrisréttindum.

Þegar kemur að skiptingu lífeyrisréttinda lenda menn í ákveðnum vanda. Núgildandi reglur eru dálítið ankannalegar, frú forseti. Þær ganga út frá því að menn skipti réttindum í bróðerni og þegar allt er í góðu. Venjan er sú við skilnað að það er ekki allt í góðu, því miður. Þá er síst af öllu vilji til þess að fara að skipta lífeyrisréttindum í góðu þannig að núgildandi ákvæði eru engan veginn fullnægjandi við skilnað.

Það eru til tvær leiðir til að leysa þetta. Annars vegar að lífeyrisréttindin yrðu metin hjá hvoru hjóna eða sambúðaraðila og síðan yrði skuldajafnað á milli nákvæmlega eins og gert er með húsið, bílinn o.s.frv. Þetta var gert í Þýskalandi fyrir allmörgum árum og olli eiginlega því að fólk gat hreinlega ekki skilið af því að lífeyrisréttindi annars aðilans, oftast karlmannsins, voru svo miklu meiri og um svo stórar tölur að ræða að allar hinar eignirnar dugðu ekki til og hann fór eiginlega með svo miklar skuldir út úr sambandinu að við það var ekki unað, hann reis hreinlega ekki undir þeim. Sú leið er því ekki góð, enda er hún ekki lögð til í þessari þáltill. Það sem lagt er til er að skipta réttindum. Það er miklu skynsamlegra að réttindum sem menn afla í sambúðinni eða í hjónabandinu verði skipt. En það rekst hins vegar á sérkenni íslensks lífeyriskerfis sem felst í því að aðild að lífeyrissjóði er háð aðild að stéttarfélagi eða háð ákveðinni vinnu. Lífeyrissjóður flugmanna tekur t.d. ekki við hverjum sem er þannig að ef flugmaður er giftur segjum afgreiðslukonu í búð, eða afgreiðslumanni í búð ef flugmaðurinn er kona, þá er lífeyrissjóður flugmanna ekki tilbúinn til að taka við afgreiðslumanninum inn í sinn sjóð eigandi þar helming réttinda flugmannsins. Þetta er sá vandi sem menn standa frammi fyrir af því að lífeyriskerfið er svona uppbyggt. Það urðu um það harðar deilur á sínum tíma að aðild að lífeyrissjóði væri háð ákveðnu starfi og menn hefðu ekkert frjálst val um það. Ef það væri frjálst val um lífeyrissjóðinn væri þetta enginn vandi, frú forseti. Ég hygg hins vegar að þetta rekist töluvert mikið á þegar Lífeyrissjóður verslunarmanna þarf að fara að taka inn verkfræðinga eða öfugt o.s.frv. Þetta eru því mál sem þarf að skoða, hvort við komumst fram hjá þessu, en það er mjög brýnt að á þessu tekið þannig að um sé að ræða raunverulega skiptingu á eignum búsins við skilnað.