Lífeyrisréttindi hjóna

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 17:33:48 (870)

2003-10-28 17:33:48# 130. lþ. 15.16 fundur 46. mál: #A lífeyrisréttindi hjóna# þál., Flm. GHall
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[17:33]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson):

Virðulegi forseti. Það sem hv. þm. Pétur Blöndal kom hér inn á er hugrenning um það sem lengi hefur verið á döfinni þá þetta mál hefur verið flutt. Eins og kom fram í greinargerð þegar við hv. flutningsmenn vorum að vitna til hjúskaparlaganna svo og þeirra laga sem voru samþykkt á Alþingi 1997 um lífeyrisréttindi og vitnað til þess að sjö árum áður en fólk skilur nánast, skuli sú tilkynning hafa borist til lífeyrissjóðanna vegna skiptingu unninna réttinda. Þar eru menn að taka ákveðna áhættu eins og ég kom inn á áðan, að ef maki fellur fyrr frá þá tapast helmingur af áunnum lífeyrisréttindum. Þetta hefur verið allgrýtt leið sem flutningsmenn hafa farið á umliðnum árum og það kom fram í greinargerðinni m.a. að flutningsmenn telja að það hafi nokkuð verið komið til móts við þáltill., ekki þessa heldur þá sem áður hefur verið flutt á umliðnum árum um breytingu á hjúskaparlögum og ég vitnaði til varðandi lög um lífeyrissjóði og starfsemi þeirra.

Það er alveg rétt eins og hv. þm. Pétur Blöndal kom hér inn á, þetta er ákaflega vandmeðfarið mál. Hins vegar er þetta mál með þeim hætti eins og fram kemur í greinargerðinni að það er enn þann dag í dag nokkuð um það að í hjónabandinu séu þau verkaskipti að annar er á vinnumarkaðnum og hinn sinnir börnum og heimili. Þess vegna er ekki óeðlilegt að það sé horft á þetta mál nú með það að leiðarljósi að nefnd fari ofan í saumana á þessu og finni þann flöt sem megi verða til lausnar á þessu svo að þetta mál þurfi ekki að vera að veltast í þingsölum næstu 10 árin. En ég vona að þetta mál nái fram að ganga og einhver farsæl lausn fáist á því.