Staða hjóna og sambúðarfólks

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 17:45:52 (875)

2003-10-28 17:45:52# 130. lþ. 15.17 fundur 47. mál: #A staða hjóna og sambúðarfólks# þál., HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[17:45]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni fyrir svar hans. Ég heyri að við erum að mörgu leyti sömu skoðunar þegar kemur að þessum málum. Ég get tekið undir að vert sé að skoða stöðu hjóna víðar en hjá örorkulífeyrisþegum og að víðar geti verið gildrur eins og tenging við tekjur maka örorkulífeyrisþega sem ég nefndi í fyrra andsvari mínu.

Ég vil árétta að ég tel að Alþingi gangi enn of langt í að skerða tekjur öryrkja vegna tekna maka þeirra. Þó að sú skerðing sé komin niður í 8 þús. kr. á mánuði þá tel ég enn of langt gengið í því efni. Ég tel að það að hafa 50 þús. kr. á mánuði sér til framfærslu ævina út sé alls ekki viðunandi, virðulegur forseti, þó að það varði kannski ekki akkúrat efni þessarar þáltill. En ég get stutt þá hugsun sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson hefur lýst að felist í henni.