Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 18:14:55 (878)

2003-10-28 18:14:55# 130. lþ. 15.20 fundur 91. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhagsaðstoð sveitarfélags) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[18:14]

Pétur H. Blöndal:

Frú forseti. Við ræðum hér hvort fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna skuli undanþegin skatti, ekki sagt beinum orðum hvað gerist ef fjárhagsaðstoðin leggst við aðrar tekjur skattþegans, þ.e. ef hann hefur t.d. fjármagnstekjur eða vinnur utan við fjárhagsaðstoðina sem ekki er bannað. Hvað ætla menn að gera þá?

[18:15]

Ég er alltaf á móti því að skilgreina vissar tekjur sem ekki-tekjur. Skattalögin ganga út frá því að skattleggja eigi allar tekjur, hvort sem menn vinna við að skúra einhvers staðar, vinni á skrifstofu, afgreiði, hafi tekjur úr lífeyrissjóði eða frá sveitarfélagi. Skattkerfið gengur út á það að allar tekjur séu skattlagðar. Ég hugsa að við búum til enn meira misræmi í kerfinu ef við ætlum að hafa fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna skattfrjálsa vegna þess að það er til fólk, því miður, sem vinnur á mjög lágum launum, 120 þús. kr., ég þekki dæmi þess, allan daginn og borgar af því skatta að sjálfsögðu. Það fólk þyrfti þá að horfa upp á aðra sem væru með skattfrjálsa fjárhagsaðstoð sveitarfélags og væri hugsanlega að vinna við hliðina á því, en borgar ekki skatta af sömu ráðstöfunartekjum, af sömu tekjum til heimilisins. Þetta er það sem menn eru að búa til með svona undanþágum. Tekjur eru tekjur, frú forseti, hvort sem þær koma frá sveitarfélagi eða annars staðar frá.

Nú er það svo að sá sem fær eingöngu bætur frá sveitarfélagi borgar sárasjaldan skatta í dag, enda kemur það fram í frv. og þá skil ég ekki hver vandinn er. (Gripið fram í.) Hver er vandinn? Fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna er misjöfn, sennilega hvað hæst í Reykjavík og hún er um og undir skattleysismörkum. Vandinn er því að þeir sem eru að vinna til viðbótar eða hafa tekjur annars staðar frá, fjármagnstekjur eða slíkt, borga þá skatt og mér finnst það í rauninni í lagi miðað við þá sem vinna fyrir svipuðum tekjum og borga skatta.

Ef við tölum um önnur lönd, Norðurlöndin sérstaklega, þá hygg ég að í fáum löndum sé eins hátt frítekjumark og á Íslandi. Í Danmörku er það miklu lægra þannig að menn byrja að borga þar skatta af sáralágum tekjum. Svo hlýtur fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna að taka mið af öllu því umhverfi sem búið er til. Það tekur að sjálfsögðu mið af barnabótum skattalaganna, það tekur mið af meðlögum, það tekur mið af gjaldi í RÚV sem er nefskattur sem allar fjölskyldur borga jafnt, hvort sem það er hátekju- eða lágtekjufólk, hvort sem einn eða sex eru í heimili, sem er mjög óréttlátur skattur, frú forseti. Fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna hlýtur að taka mið af þessu, enda kom fram í ræðu 1. flm. að Reykjavíkurborg tekur ekki mið af barnabótum skattalaganna og meðlögum í útreikningi en veitir heldur ekki neina sérstaka fjárhagsaðstoð fyrir börnin en auðvitað kosta þau heilmikið og það er ósanngjarnt hjá Reykjavíkurborg að foreldrar sem eiga börn fái sömu aðstoð og fólk án barna. Og auðvitað hlýtur foreldri að standa kostnað af uppeldi barns síns þó að það fái meðlag og barnabætur. Þær greiðslur duga ekki til þannig að þeir sem eiga börn eru verr settir en þeir sem ekki eiga börn. En það er aftur á móti ákvörðun sveitarfélagsins og eins og hv. flm. sagði með eru reglur sveitarfélaganna mjög mismunandi, frú forseti.

Ég er því ekkert yfir mig hrifinn af þessu frv. frekar en öðrum frv. sem menn koma fram með sem minna dálítið á lýðskrum. Menn eru að reyna að koma með vinsæl mál og taka þau upp en átta sig ekki á því umhverfi og þeim breytingum sem það hefur á allt kerfið. Ég vil benda aftur á það að til er fólk sem vinnur allan daginn fyrir 120 þús. kr. á mánuði, borgar af því skatt og iðgjöld í lífeyrissjóð, 4%, félagsgjald til stéttarfélags, 1,5% hugsanlega, og verður síðan að horfa upp á þá sem fá aðstoðina frá sveitarfélaginu sem þetta fólk borgar með sköttum sínum því að það borgar bæði tekjuskatt og líka að sjálfsögðu virðisaukaskatt og útsvar, allir borga útsvar, það er prósentur af tekjum. Það þarf því að gæta samræmis við hina sem fá bæturnar. Þess vegna finnst mér ekki skynsamlegt að hafa einar tekjur skattfrjálsar af því að þær heita bætur en aðrar tekjur skattaðar af því að þær eru fyrir að skúra gólf eða eitthvað slíkt.