Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 18:20:41 (879)

2003-10-28 18:20:41# 130. lþ. 15.20 fundur 91. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhagsaðstoð sveitarfélags) frv., HHj
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[18:20]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Ég er einn af þremur flm. þess frv. sem hér er til umfjöllunar, ásamt hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og hv. þm. Margréti Frímannsdóttur, en þær eru sem kunnugt er löngu landsþekktar af baráttu sinni fyrir félagslegu réttlæti og aukningu þess í landinu. Ég fagna því mjög að geta átt aðild að frv. nú því að sem formaður félagsmálaráðs Reykjavíkur þurfti ég fyrr á árum að gangast fyrir því að staðgreiðsla skatta yrði tekin af þeirri fjárhagsaðstoð sem þá var greidd og er greidd mánaðarlega af Félagsþjónustunni í Reykjavík og gerði það satt að segja með mjög blendnum hug því að það er, virðulegur forseti, í rauninni bara eins og hver önnur vitleysa að sveitarfélög rétti fólki í neyð, í fjárhagsneyð því að fjárhagsáætlun sveitarfélaga er tímabundin neyðaraðstoð, 2 kr. og af hverjum 2 kr. sem sveitarfélagið réttir því hirðir ríkið 1 kr. Og til að koma til skila neyðaraðstoð til fátæks fólks þá þurfi sveitarfélögin að reiða fram í rauninni tvöfalt meira en þyrfti til, vegna þess að einhver helgisiðaleikur í ríkisfjármálum hefur búið til það lögmál að engar undanþágur megi vera í því háheilaga kerfi, skattkerfinu.

Ég vil líka lýsa sérstaklega vanþóknun minni á ræðu hv. þm. Péturs Blöndals og vonbrigðum í rauninni með þær undirtektir sem málið fær hjá formanni efh.- og viðskn. Ég verð að segja um það mál sem hv. þm. hafði um þetta hér í ræðustól, virðulegur forseti, að það hafi lýst nokkuð yfirgripsmikilli vanþekkingu á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, hvernig hún er, að hverjum hún beinist, hvaða upphæðir þar um ræðir og hverja það helst snertir.

Hv. þm. Pétur Blöndal þarf ekki að hafa miklar áhyggjur af fólki sem hefur 120 þús. kr. á mánuði á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Víðast hvar eru viðmiðunarmörk fjárhagsaðstoðar rétt liðlega 70 þús. kr. á mánuði og þeir sem vinna sér inn 120 þús. kr. á mánuði þurfa ekkert að sjá neinum ofsjónum yfir því þó að það fólk sem fær í neyðaraðstoð 70 þús. kr. á mánuði þurfi ekki að borga af því skatt (PHB: Það gerir það ekki.) né heldur af hinni fjárhagsaðstoðinni sem þó einkum kemur til skattlagningar. Og nú er rétt að ég upplýsi hv. þm. Pétur Blöndal nokkuð um veruleikann í samfélaginu og landinu vegna þess að þær 200 millj. sem innheimtar eru í skatttekjum af fjárhagsáætlun sveitarfélaga stafa að verulegu leyti af því þegar sveitarfélög þurfa að koma að fjármálum einstaklinga og fjölskyldna sem komin eru í algeran ólestur. Sveitarfélög þurfa að koma að málum þar sem einstaklingar hafa orðið illa úti vegna ábyrgðarskuldbindinga, vegna heilsubrests og tekjutaps um lengri tíma, lent í óviðráðanlegum vanskilum með húsnæði sitt og eiga það á hættu að missa húsnæði sitt og hafa fyrir börnum að sjá. Sveitarfélögin sjá sig knúin til þess að ganga inn í þau mál til að leysa úr því neyðarástandi sem uppi er og tryggja einkum þeim börnum sem í hlut eiga öruggt og tryggt heimili til frambúðar. Þrátt fyrir að slík áföll hafi hent fjölskyldurnar geta komið til talsverðar upphæðir í fjárhagslegan stuðning einu sinni til að leysa úr slíkum vanda og getur jafnvel hlaupið á hundruðum þúsunda. Ég hygg að í Reykjavík sé dæmi um mjög verulegan stuðning við einstaklinga sem hafa safnað upp langvarandi húsaleiguskuldum við Reykjavíkurborg en verið þar í félagslegu húsnæði.

Hvað gerist síðan þegar því fólki hefur verið veitt aðstoð til að komast út úr slíkum vanda og búið að reyna að koma því á rétta braut? Þá fær það bakreikning í skattauppgjörinu upp á 38,9% skatt af í rauninni neyðaraðstoð við að gera upp skuldir á fyrra ári. Og þá stendur hlutaðeigandi frammi fyrir nýjum vanda, yfirleitt með tekjur sem rétt duga fyrir framfærslu án þess að vera í neinni aðstöðu til að geta reitt af hendi 40% skatt af fjárhagsaðstoð sem öll fór í að gera upp skuldir á fyrra ári. Þannig held ég að við höfum ófá dæmin um að fólk sem búið var að hjálpa til þess að vera sjálfbjarga til að láta enda ná saman þrátt fyrir lítil efni, hjálpa því til að halda húsnæði sínu og fjölskyldu saman, að vegna þessa skipulags komum við því aftur í stökustu vandræði árinu síðar. Ég held að það sé ekkert mjög flókið að þær 200 millj. sem verið er að innheimta af því fólki sem á við sárustu fátæktina að glíma í íslensku samfélagi, því fólki sem er á framfæri sveitarfélaga a.m.k. um skamman tíma vegna sannanlegs neyðarástands, það séu 200 millj. sem ríkissjóður geti vel séð af í sköttum sínum. Þó að ég geti út af fyrir sig verið sammála hv. þm. Pétri Blöndal um að menn þurfi að fara hóflega með undanþágur í skattkerfinu, þá get ég ekki verið sammála hv. formanni efh.- og viðskn. um að í skattkerfinu megi engar undanþágur vera. Ég held að það sé einfaldlega ekkert vit að hið opinbera sé að veita bætur, neyðaraðstoð með annarri hendinni og taka helminginn af því til baka með hinni hendinni. Ég held að það sé ákaflega flókið og ógagnsætt kerfi, ég tala nú ekki um þegar eitt stjórnsýslustigið, sem eru sveitarstjórnirnar sem veitir bæturnar, en annað stjórnsýslustig, þ.e. ríkið, sem tekur skatttekjurnar. Ég held t.d. að það hafi verið mikið framfararspor að hætta að skattleggja húsaleigubætur og það hafi sannarlega verið kjarabót sem reyndist hinum lægst launuðu hvað best. Ég minni líka á að oft í umræðu um skatta tala menn um það í þessum sal og í fjölmiðlum landsins að ekki sé hægt að hækka skattleysismörkin vegna þess að hvert prósent sé svo dýrt eða hverjar þúsund krónur í skattleysismörkum.

Á síðustu árum hafa menn verið að auka skattbyrði hinna lægst launuðu með því að tregðast við að láta skattleysismörkin fylgja launavísitölunni og hafa réttlætt það með því að það sé svo erfitt vegna þess að það að hækka persónuafsláttinn nái til allra og það sé svo slæm leið við að bæta kjör hinna lægst launuðu að hækka með þeim hætti persónuafsláttinn. En ef menn vilja ekki fara þá leið geta þeir ekki líka hafnað því að grípa til sértækra aðgerða til að létta sköttum af þeim sem við lægsta framfærslu búa í landinu eins og þeim sem búa við fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna. Menn verða þá að vera á annarri hvorri skoðuninni, hv. þm. Pétur Blöndal, að beita eigi sértækum aðgerðum til að létta sköttum af þeim sem verst eru settir eða að menn eigi að hækka skattleysismörkin meira en verið hefur. En það er auðvitað lýsandi um þróun þeirra að menn eru farnir að borga skatta af fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna.