Endurskoðun laga um meðferð opinberra mála

Miðvikudaginn 29. október 2003, kl. 13:44:20 (893)

2003-10-29 13:44:20# 130. lþ. 16.2 fundur 49. mál: #A endurskoðun laga um meðferð opinberra mála# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 130. lþ.

[13:44]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda hefur hann áður tekið þessi mál fyrir hér og flutt m.a. tillögu frá sjálfum sér um breytingu á lagaákvæðum til þess að koma til móts við þau sjónarmið sem hann reifaði. Hann spyr mig:

Hvernig miðar störfum réttarfarsnefndar við endurskoðun laga um meðferð opinberra mála og hvenær er að vænta tillagna frá nefndinni?

Réttarfarsnefnd er að vinna að þessum málum og endurskoðun laganna og verkáætlun nefndarinnar gerir nú ráð fyrir því að hún hafi lokið endurskoðun sinni á þessum lögum á næsta vori. Síðan verði tíminn fram að haustþingi 2004 notaður til nánari vinnslu á tillögum nefndarinnar í dómsmrn. og stefnt er að því að fullbúið frv. liggi fyrir á haustþingi árið 2004.

Þá spyr hv. þm.:

Hefur réttarfarsnefnd fjallað um tillögur um að numdar verði brott takmarkanir við því að maður sem hefur verið sakfelldur í opinberu máli geti áfrýjað til Hæstaréttar, sbr. 265. mál 127. löggjafarþings sem Alþingi samþykkti að vísa til ríkisstjórnarinnar með hliðsjón af starfi nefndarinnar?

Nú veit ég ekki hvort nefndin hefur þegar fjallað um þetta mál. Ég er ekki nægilega kunnugur störfum nefndarinnar varðandi það hvernig hún tekur mál fyrir en hitt er víst að nefndin mun að sjálfsögðu líta til þessa máls í endurskoðun sinni á löggjöfinni, heildarlögunum um meðferð opinberra mála, og taka afstöðu til álitaefnisins áður en hún skilar tillögum til dómsmrn.