Endurskoðun laga um meðferð opinberra mála

Miðvikudaginn 29. október 2003, kl. 13:46:19 (894)

2003-10-29 13:46:19# 130. lþ. 16.2 fundur 49. mál: #A endurskoðun laga um meðferð opinberra mála# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., GÓJ
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 130. lþ.

[13:46]

Guðjón Ólafur Jónsson:

Hæstv. forseti. Það er alltaf ánægjuefni þegar lög um meðferð opinberra mála koma til umræðu á hinu háa Alþingi. Að því er varðar þetta mál þá er hér hreyft sjónarmiðum sem fyllilega eiga rétt á sér, þ.e. um rétt manna til að áfrýja til æðra dóms sakfellingardómi yfir sér. Eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson gat um áðan þá eru ákveðnar takmarkanir á því vegna minni háttar mála. Þetta fer í sjálfu sér eftir því hvers eðlis þessi mál eru.

Mér finnst að við þá endurskoðun sem fram undan er ætti m.a. að skoða hvort slíkar takmarkanir ætti að fella úr gildi varðandi brot gegn almennum hegningarlögum eða tilteknum ákvæðum í tilteknum köflum almennra hegningarlaga, til að mynda ofbeldisbrot. Ég þekki dæmi þess að menn hafi verið sakfelldir á, við getum sagt, hæpnum forsendum og dæmdir til sektarrefsingar þar sem venjulega hefði átt að dæma menn til fangelsisrefsingar, sem gerði það að verkum að viðkomandi gat ekki áfrýjað máli til Hæstaréttar.