Aukin meðlög

Miðvikudaginn 29. október 2003, kl. 13:50:19 (896)

2003-10-29 13:50:19# 130. lþ. 16.3 fundur 128. mál: #A aukin meðlög# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 130. lþ.

[13:50]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Fyrir tæpum tveimur árum lagði ég fram fyrirspurn til þáv. dómsmrh., hv. þm. Sólveigar Pétursdóttur, um auknar eða tvöfaldar meðlagsgreiðslur með börnum. Ástæða þess var sú að í þeim tilvikum sem foreldri er úrskurðað aukið meðlag verður einstaklingurinn að sækja sjálfur allar greiðslur umfram eitt venjulegt meðlag. Þess eru dæmi að aldrei hafi verið staðið við úrskurði og foreldri sem átti rétt á tvöföldu meðlagi með tveimur börnum, svo að ég nefni dæmi, vegna bágrar fjárhagsstöðu og mikilla veikinda barnanna fékk aldrei greitt nema einfalt meðlag. Ástæðan var sú að foreldrið hafði ekki efni á að kaupa sér aðstoð lögfræðings eða sækja málið til enda.

Fjárhagsstaðan var svo bág að viðkomandi gat ekki keypt þá þjónustu sem börnunum var nauðsynleg og úrskurðurinn var grundvallaður á. Innheimtustofnun sveitarfélaga ber ekki að annast innheimtu á auknu meðlagi og gerir það ekki þrátt fyrir að hún hafi raunverulega til þess lagaheimildir. Aðstæður foreldris sem hefur fengið úrskurð um aukið meðlag eru því oft bæði fjárhagslega en einnig tilfinningalega erfiðar þegar kemur að því að innheimta þær greiðslur sem eru umfram einfalt meðlag auk þess sem það getur haft áhrif á samskipti foreldra og barna hvernig staðið er að þessum málum.

Þegar ég ræddi þessi mál hér fyrir tveimur árum tók þáv. dómsmrh. afar vel spurningum mínum um hvort hægt væri að tryggja að þessir einstæðu foreldrar fengju þær greiðslur sem þeim höfðu verið úrskurðaðar og ákvað m.a. að vísa því til réttarfarsnefndar hvort og þá með hvaða hætti væri hægt að auðvelda innheimtu samkvæmt úrskurði sýslumanns. Því spyr ég hæstv. núv. dómsmrh.:

Hefur verið athugað hvernig unnt sé að auðvelda innheimtu aukinna meðlaga, sérframlaga og menntunarframlaga samkvæmt úrskurðum sýslumanna?

Ef svo er, hver var niðurstaðan? Ef ekki, hyggst ráðherra beita sér fyrir breytingum sem tryggja þessar greiðslur og auðvelda innheimtu þeirra?