Flutningur sláturfjár yfir varnarlínur

Miðvikudaginn 29. október 2003, kl. 14:09:25 (902)

2003-10-29 14:09:25# 130. lþ. 16.4 fundur 121. mál: #A flutningur sláturfjár yfir varnarlínur# fsp. (til munnl.) frá landbrh., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 130. lþ.

[14:09]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Mér finnst nú í raun alveg makalaust hversu önugur hæstv. landbrh. er gagnvart að mínu mati sjálfsögðum spurningum hv. þm. Jóhanns Ársælssonar. Mér finnst mjög eðlilegt að spurt sé þeirrar spurningar hvort samþjöppunin hvað slátrunina varðar sé að leiða okkur í ógöngur eða að við tökum of mikla áhættu í þessum efnum. Það eru líka sjálfsagðar spurningar hvort stefna eigi að því að hafa sláturhús sérstaklega á þeim stöðum þar sem sjúkdómar finnast ekki og þá sérstaklega riða. Mér finnst full ástæða til að skoða þessa hluti, vegna þess að reynslan alls staðar í heiminum, bæði af massabúskap þar sem dýrum er þjappað saman og líka þar sem þau eru keyrð saman til slátrunar, hefur víðast hvar leitt af sér meiri hættu á sjúkdómum og sjúkdóma hefur orðið meira vart. Þess vegna vil ég taka undir þann málflutning sem hv. þm. Jóhann Ársælsson hafði hér í frammi. Ég tel fulla ástæðu til að skoða þessi mál af alvöru og raunsæi.