Flutningur sláturfjár yfir varnarlínur

Miðvikudaginn 29. október 2003, kl. 14:11:36 (904)

2003-10-29 14:11:36# 130. lþ. 16.4 fundur 121. mál: #A flutningur sláturfjár yfir varnarlínur# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi JÁ
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 130. lþ.

[14:11]

Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Ég verð að lýsa vonbrigðum mínum með svör hæstv. ráðherra, sérstaklega á því að honum virðist finnast eða það má svona skilja það svo að honum finnist óþarfi að menn séu yfirleitt að skipta sér af hans verkefnum sem ráðherra. Þekking mín á þessum málum er ekki nóg, það skal viðurkennt í þessum stól, en mér finnst full ástæða til að menn velti því alvarlega fyrir sér hvort það sé eðlilegt að hafa það þannig til framtíðar að sláturfé sé keyrt endanna á milli í landinu bæði út frá dýravernd og líka út frá sjúkdómavörnum.

Mér finnst það satt að segja þunnur þrettándi að hlusta á það að hæstv. ráðherra, sem er nýbúinn að taka ákvörðun um það að moka peningum í að fækka sláturhúsum, telji að það komi bara ekki til greina að reyna að standa við bakið á því að slátrað verði á þeim svæðum þar sem engir sjúkdómar eru til þess að reyna að vernda þau svæði til framtíðar fyrir bændur í landinu, fyrir þjóðina, fyrir bústofninn sjálfan. Ég hefði haldið að það væri eitthvað hægt að leggja á sig fyrir það. Og annað eins hefur nú verið gert í því að setja peninga í landbúnað á Íslandi eins og það að reyna að tryggja slíkt. En skilningur ráðherrans virðist enginn vera á þessu.

Mér finnst það satt að segja vera dapurleg niðurstaða af þessum umræðum að það eigi að fleygja peningum úr ríkissjóði til bænda og þeirra sem reka sláturhús og að þeir eigi að slást um þá fjármuni og svo skuli kylfa eiga að ráða kasti um hvar fé verði slátrað í landinu til framtíðar og stefna ríkisstjórnarinnar og hæstv. ráðherra er engin. Nákvæmlega engin. Engin skoðun á því hvar eigi að slátra, eða hvort verja eigi þau svæði þar sem uppspretta líflambanna er í landinu.