Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 29. október 2003, kl. 14:37:56 (907)

2003-10-29 14:37:56# 130. lþ. 17.11 fundur 32. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (ferðakostnaður) frv., MÞH
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 130. lþ.

[14:37]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Virðulegi forseti. Ég er einn fjögurra flm. þess frv. sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson gerði grein fyrir rétt í þessu. Ég er sammála hv. þm. um að hér sé í raun og veru um sanngirnismál að ræða, þ.e. að launþegar geti að einhverju leyti dregið ferðakostnað sinn frá skatti þegar þeir fara til og frá vinnu. Þetta er á vissan hátt ágætis byggðamál. Það er alveg rétt sem hv. þm. benti á að oft og tíðum er ótrygg vinna í okkar ágæta landi, t.d. í tengslum við sjávarútveginn en líka í tengslum við ýmsa verktakavinnu. Við sjáum það núna eða heyrum réttara sagt, frú forseti, að það berast slæmar fréttir af Suðurnesjum þar sem verið er að segja upp fjölda fólks sem unnið hefur á Keflavíkurflugvelli.

Við höfum á undanförnum áratugum upplifað stöðugt bættari samgöngur hér á landi. Vegir eru alltaf að batna, bílar eru alltaf að verða betri og öruggari og þeim er að fjölga. Víða um land situr fólk í húsnæði sem það hefur aflað sér hörðum höndum á starfsævi sinni, oft og tíðum í niðurgreiddu húsnæði, þ.e. fólk er búið að losa sig við megnið af þeim skuldum sem á því hvíldu við upphaf íbúðarkaupa. Fólk vill gjarnan vera áfram á þeim stöðum sem það býr á. Það er með börnin sín á þessum stöðum og þau ganga þar í skóla, skyldfólk og aðrir búa á þessum stöðum. En svo missir fólk vinnuna. Þá getur það oft verið þannig að fólk sjái sér hag í því að leita atvinnu í öðrum sveitarfélögum sem kannski liggja fjær. Við getum t.d. séð þá þróun sem við höfum orðið vitni að á undanförnum árum á Suðvesturhorninu þar sem stöðugt fleiri sækja vinnu til Stór-Reykjavíkursvæðisins þó að þeir búi á Suðurnesjum, á Suðurlandi, þ.e. fyrir austan fjall eins og kallað er, eða á Vesturlandi, sérstaklega eftir tilkomu Hvalfjarðarganganna. Í sumum tilfellum taka atvinnuveitendur þátt í ferðakostnaði til og frá vinnu þegar um slíka starfskrafta er að ræða en í öðrum tilfellum þurfa starfskraftarnir sjálfir að bera kostnað af þeim fararkostaði. Og þá gæti einmitt svona regla komið inn og virkað mjög jákvætt.

Ég bjó í Noregi í mörg ár og þar er mjög algengt að fólk búi í úthverfum stórra borga, búi jafnvel úti á landi, sæki sér vinnu inn á þéttbýliskjarnana, fari á milli og eyði þá jafnvel --- ekki er óalgengt að það eyði kannski klukkutíma í að koma sér til vinnu og síðan aftur frá vinnu. Þetta fólk er í Noregi kallað ,,pendlarar``. Í Noregi eru í gildi svipaðar reglur og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson benti á. Ég gerði það að gamni mínu í morgun að fara á netið hjá norskum skattyfirvöldum og skoða hvers konar skattaívilnanir eru þar í gangi fyrir fólk sem þarf að sækja vinnu um langan veg. Þar eru margar reglur, fjölmargar reglur, fjölbreytlegar reglur sem gilda um ýmislegt og í rauninni langtum flóknari reglur en þær sem við leggjum til með þessari einföldu breytingu á skattalögunum hér á landi. Það væri kannski athugunar virði fyrir hv. efh.- og viðskn. og jafnvel skattyfirvöld líka að kynna sér einmitt reglurnar hvað þetta varðar í nágrannalöndunum til að skoða hvaða lendingu menn hafa náð þar í þessum málum. Ég tel að margt þar sé til fyrirmyndar.

Það mætti t.d. nefna að menn sem nota bíl til og frá vinnu í Noregi geta fengið frádrátt fyrir allt að 35 þús. km akstri á ári sem nemur um 16 kr. íslenskum á km. Yfir árið er þetta tæplega 600 þús. kr. Ef fólk ekur yfir 35 þús. km fær það frádrátt upp á um 10 ísl. kr. á km. Fleiri slíkar reglur eru fyrir hendi. Ef fólk er með atvinnu, vinnuaðstöðu heima hjá sér, þá getur það fengið skattfrádrátt fyrir það, t.d. ef það er með heimatölvu, heimaskrifstofu svokallaða. Sjómenn fá ýmsan frádrátt varðandi kostnað í tengslum við vinnu sína t.d. til að kaupa sér vinnuföt, þ.e. sjófatnað, allt að 20 þús. kr. á ári. Ef þingmenn í Noregi þurfa að búa í Ósló og taka ekki fjölskylduna með sér fá þeir skattfrádrátt fyrir hvern þann dag sem þeir búa í höfuðborginni, 2000 kr. á dag fyrir hvern þann dag sem þeir búa í borginni. Ef þingfundir eru á kvöldin og þingmenn komast ekki heim til að borða kvöldmat fá þeir 700 kr. í skattafslátt. Til viðbótar þessu fengju þeir skattafslátt fyrir það að keyra til og frá vinnu.

Svona má lengi telja. Þetta eru ýmsar og fjölbreytilegar reglur. Fólk sem er að ljúka doktorsgráðu getur fengið skattafslátt upp á allt að 200 þús. kr. til að halda veislu til að fagna þeim tímamótum. En í það heila, frú forseti, held ég að menn ættu að kynna sér hvernig þetta er gert í nágrannalöndunum. Ég held að það mundi hafa mjög jákvæð áhrif hér á landi. Þetta er ágæt hugmynd t.d. út frá byggðasjónarmiðum séð. Við vitum að það er mjög dýrt þegar fólk flytur t.d. til höfuðborgarsvæðisins í stórum stíl, og ef það flytur inn í aðra þéttbýliskjarna í stórum stíl þarf að byggja yfir það bæði dýr hús, skóla og aðrar þjónustustofnanir. Þetta er dýrt sérstaklega í ljósi þess ef þessar stofnanir eru þegar fyrir hendi í hinum ýmsu þéttbýliskjörnum úti á landi. Eins og ég sagði áðan, frú forseti, eru samgöngurnar alltaf að batna, bílarnir alltaf að verða betri, þannig að þetta ætti að verða því áhugaverðara eftir því sem árin líða.

Ég ætla ekki að hafa mál mitt mikið lengra að þessu leyti, frú forseti, en tek undir með hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni um það að þetta verði litið jákvæðum augum hjá hv. efh.- og viðskn.