Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 29. október 2003, kl. 15:25:23 (918)

2003-10-29 15:25:23# 130. lþ. 17.11 fundur 32. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (ferðakostnaður) frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 130. lþ.

[15:25]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég vil segja örfá orð um þetta frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson er flutningsmaður að ásamt öðrum.

Ég hef hlustað með athygli á umræðuna um þetta mál. Það gengur út á að menn geti fengið að draga frá skatti meira en 120 þús. kr. útgjöld í ferðakostnað vegna þess að menn sæki vinnu langt að. Það kemur fram í greinargerð með frv. að hér er ekki síst verið að hugsa um dreifbýlið á Íslandi en þannig hagar til víðast í dreifbýlinu þar sem landbúnaður er stundaður að erfitt er að lifa af tekjum sem búið eitt gefur. Þess vegna er nauðsynlegt fyrir annað hvort hjóna að stunda vinnu utan heimilis og er það góðra gjalda vert.

Það sem ég hnaut um í umræðunni var að spjótunum var beint mjög að hv. formanni efh.- og viðskn., Pétri H. Böndal. Eins og ég skildi ræðu hans og ræður annarra þá sagði hv. þm. Pétur H. Blöndal að það mætti skoða þetta mál með velvilja. Hann gaf hins vegar í skyn að hann vildi fara öðruvísi í málið og færði fyrir því rök. Mér virðist því að þeir hv. þingmenn sem hér hafa talað í dag séu efnislega sammála um að það sé fýsilegt að gera mönnum það auðveldara peningalega að stunda vinnu fjarri heimili þó því fylgi töluverður tilkostnaður.

Ég vil að þessu leyti taka undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal, að menn einblíni ekki á eina aðferð í þessu sambandi. Ég vil minna á, af því að það kom fram í umræðunni áðan, að sá sem hér stendur flutti till. til þál. á 127. löggjafarþingi um rekstur almenningssamgöngukerfis í Eyjafirði. Menn nefndu hér Eyjafjörð til sögunnar og það að menn gætu sótt vinnu, m.a. á Dalvík, víða að úr Eyjafirði. Mjög mörg fyrirtæki á landinu og allnokkur í Eyjafirði hafa af því töluverðan kostnað að aka fólki til og frá vinnustað. Það eru dæmi um það að fyrirtækin hafi sjálf áætlunarbíl eða rútu sem flytur starfsfólk viðkomandi fyrirtækis til og frá vinnu.

Almenningssamgöngukerfið í landinu er hins vegar í molum. Við byggjum á eldgömlu sérleyfiskerfi sem hefur verið tjaslað upp á en heildstætt almenningssamgöngukerfi fyrir landið hefur ekki verið mótað.

Á síðasta ári lýsti hæstv. samgrh. því yfir að hann hefði falið Háskóla Íslands að setja fram og vinna mótaðar hugmyndir um hvernig almenningssamgöngukerfi gæti litið út í strjálbýlinu á Íslandi. Almenningssamgöngukerfi í nýtísku stíl fyrir Ísland 2003 er nauðsynlegt fyrir margra hluta sakir. Það mundi þjóna þessum hluta fólks sem er að sækja sér vinnu, það mundi ganga inn í allt skólaaksturskerfið, gera það ónauðsynlegt að fyrirtæki komi sér upp sérbílum til þess að flytja starfsmenn til og frá vinnu. Það mundi gera ferðamönnum auðveldara um vik að ferðast um Ísland á eigin forsendum án þess að leigja sér bíl og komast á milli staða.

Eyjafjörður var nefndur sem dæmi en ég vil líka nefna í þessu samhengi, hversu nauðsynlegt er að endurskoða almenningssamgöngur, að það er ekki hægt að fá tengingu frá öllu flugi til Egilsstaða niður á firði frá flugvellinum á Egilsstöðum. Þar væri sterkt almenningssamgöngukerfi mikil bragarbót.

Að þessu leyti er ég sammála hv. þm. Pétri H. Blöndal, þ.e. sammála um að líta á þetta í víðu samhengi. Nú hagar svo til að hv. þm. Pétur H. Blöndal er enginn venjulegur þingmaður. Hann er formaður efh.- og viðskn. Það að úttala sig um það í þessum ræðustól að það megi líta á þetta mál með velvilja tek ég á þann hátt að vinna megi að málinu og samræma sjónarmið. Það held ég að sé mjög gott.

Ég styð grunnhugsun frumvarpsins. Ég hef hins vegar ekki lagt niður fyrir mér hvernig að skuli fara. Í ræðu hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar kom fram að þær tölur sem fram væru settar í frv. væru svo sem ekkert heilagar, hvort miðað væri við 120 þús. kr. eða 150 þús. kr. gætu menn rætt um og ættu auðvitað að ræða um í nefnd. En að mínu mati eiga menn líka að ræða önnur atriði sem hjálpað gætu við að ná sömu markmiðum. Þessi punktur, með almenningssamgöngukerfið, er í mínum huga stórt mál í þeirri umræðu, miklu stærra en við gerum okkur grein fyrir vegna þess að að hluta til kemur á móti sparnaður annars staðar í kerfinu sem til er orðinn vegna sérleyfissamgangna, vegna þess að fyrirtækin reka bíla í ýmsu formi, einkabíla og rútur, til þess að sækja fólk til vinnu. Þetta eru staðreyndir málsins sem verður að skoða.

Virðulegi forseti. Ég vona að umræðan í nefnd um þetta mál verði á þessum nótum og spunnin verði saman þau atriði sem málinu tengjast þannig að við tökum ekki --- eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal svo réttilega orðaði það --- bara einn enda. Það er algjör óþarfi og þjónar kannski ekki þeim markmiðum sem allir sem hér hafa talað virðast sammála um að stefna beri að og stefnt er að með þáltill. Það held ég að sé meginmálið.

Ég vil standa að því að mönnum verði gert kleift að stunda vinnu fjarri heimili sínu og geti átt kost á að hluti af kostnaði við slíkar ferðir verði frádráttarbær frá skatti. Það finnst mér athugunarinnar virði. En ég held að þetta þurfi að vera á þremur stólpum. Ég vil leggja höfuðáherslu á almenningssamgöngukerfi í nútímaformi í því sambandi.

Við erum ekki bara að tala um landsbyggðina í því samhengi. Við erum að tala um höfuðborgarsvæðið líka. Það eru allir sammála um að við erum komnir í algjörar ógöngur með samgöngur í borginni. Hér er allt of mikill einkabílismi og almenningssamgöngukerfi, endurbætt og myndarlega rekið, getur sannarlega orðið innlegg í þessa umræðu. Við megum ekki, vegna þess að þetta snýst líka um þéttbýlið, stuðla að aukinni keyrslu einkabifreiða. Við eigum að leggja áherslu á ódýran samgöngumáta sem byggist á almenningssamgöngum. Slíkar samgöngur eru því miður lítt þróaðar á Íslandi miðað við önnur lönd. Að sumu leyti er það út af því hversu fá við erum en við getum ekki alltaf sagt að Íslendingar vilji ekki nota almenningssamgöngukerfi heldur vilji þeir nota sinn einkabíl. Það held ég að sé ekki rétt. Þeir sem eiga kost á að nota gott, traust og vel rekið almenningssamgöngukerfi nota það.

Virðulegi forseti. Þetta vildi ég leggja til umræðunnar. Ég vil enn og aftur segja að ég skil það svo að allir þeir sem hér hafa talað í dag séu sammála um meginstefnuna, að gera beri fólki auðveldara að sækja vinnu fjarri heimili sínu ef svo ber undir. Það fæst kannski skýrt með umræðu í nefnd hvernig skuli standa að því máli. Ég tel þetta frv. til laga um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt góðan grunn að þeirri vinnu sem þarf að fara fram í nefnd um þessi mál.