Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2002

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 10:48:54 (924)

2003-10-30 10:48:54# 130. lþ. 18.1 fundur 109#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2002# (munnl. skýrsla), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[10:48]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um hve mikilvægt hlutverk eftirlitsstofnana er í íslenskri stjórnsýslu. Það er ljóst að Ríkisendurskoðun hefur staðið undir þeim verkefnum sem henni hafa verið falin með lögum. Þar hefur á umliðnum árum markvisst verið unnið að því að auka gæði og skilvirkni í stjórnsýslunni og eftirlit með meðferð opinberra fjármuna. Fyrir þetta á ríkisendurskoðandi og starfsfólk hans þakkir skildar og ástæða er til að koma þeim þökkum á framfæri í umræðum um starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir árið 2002.

Í umræðum um skýrslu Ríkisendurskoðunar á umliðnum árum hefur iðulega borið á góma sú meðferð sem skýrsla Ríkisendurskoðunar fær hér á háttvirtu Alþingi. Við höfum oft haft á orði að koma þyrfti umfjöllun um skýrslu Ríkisendurskoðunar í betri og markvissari farveg en gert hefur verið. Hér er, eins og við sjáum á dagskrá þessa fundar, bara ein umræða um þessa skýrslu. Ég hefði viljað sjá að þessi skýrsla færi til umfjöllunar í nefnd. Það hefur stundum verið rætt um að skýrslur Ríkisendurskoðunar og stjórnsýsluúttektir sem Ríkisendurskoðun gerir eigi að fá umfjöllun í nefnd og koma aftur til umræðu á þinginu.

Stjórnsýsluúttektir og skýrslur Ríkisendurskoðunar fá sjaldnast þá umfjöllun sem hæfir í þinginu. Þetta finnst mér afar mikilvægt að forsn. skoði, hvort ekki sé hægt að gera breytingar á þessu. Hér er um að ræða afar mikilvægar skýrslur frá Ríkisendurskoðun, ekki síst skýrslur þar sem unnið er að stjórnsýsluendurskoðun. Þeim skýrslum hefur fjölgað á umliðnum árum. Þær eru að vísu ekki mjög margar en margar hverjar umfangsmiklar. Þetta eru um sjö til ellefu skýrslur sem Ríkisendurskoðun gerir á hverju ári. Í þessari skýrslu Ríkisendurskoðunar, starfsskýrslu, kemur einmitt fram að mestur tími Ríkisendurskoðunar fer í fjárhagsendurskoðun, eða 63% allra vinnustunda.

Ég hef átt þátt í því í starfi efh.- og viðskn. að fjalla um slíkar skýrslur, eina eða tvær að mig minnir. Ég held að það hafi verið afar gagnlegt fyrir nefndarmenn að fara yfir þær skýrslur. Efh.- og viðskn. skilaði áliti um skýrslu um tollaframkvæmd, tillögum og ábendingum um það sem nefndin taldi að betur mætti fara. Ég lét taka saman fyrir mig í hve mörgum tilvikum einstakar nefndir, t.d. fjárln. eða efh.- og viðskn., hafa fjallað um skýrslur þessar. Það er ekki oft, herra forseti. Skýrslurnar sem nefndirnar hafa fjallað um eru ekki margar. Þar er skýrsla um stjórnsýsluendurskoðun Ríkisendurskoðunar á tollaframkvæmd, úttekt Ríkisendurskoðunar á skattsvikamálum, úttekt Ríkisendurskoðunar á fjárlagaferlinu, athugun Ríkisendurskoðunar á rammasamningi Ríkiskaupa, könnun Ríkisendurskoðunar á kaupum ríkisstofnana á ráðgjöf og annarri sérfræðiþjónustu og úttekt Ríkisendurskoðunar á innheimtusviði Tollstjórans í Reykjavík.

Ég held að allar þessar athuganir þingnefnda hafi verið afar gagnlegar. Ég nefni sem dæmi skýrslu sem ég fjallaði um og aðra sem efh.- og viðskn. fjallaði um, um kaup ríkisstofnana á ráðgjöf og annarri sérfræðiþjónustu sem hefur blásið mjög út á umliðnum árum. Ég tel virkilega ástæðu fyrir þingnefndir, eins og fjárln., að skoða sérstaklega þróunina á því sviði, sem þeir hafa greinilega gert með þessari skýrslu, sem ég tel mikinn feng í.

Ég sé ástæðu til að vekja athygli á þessu og hvet til að þingið skoði af fullri alvöru að koma þessum skýrslum í ákveðinn og fastan farveg þannig að það fái ákveðinn sess í þingsköpum hvernig með þessar skýrslur skuli farið og þær komi aftur til umræðu í þinginu eftir skoðun nefndar þar sem ábendingar og tillögur nefnda verða ræddar. Þetta á líka við um starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar sem mér finnst full ástæða til að fái tvær umræður á þingi og fari í millitíðinni til meðferðar í nefnd.

Ég vildi aðallega koma þessu á framfæri. Auk þess fagna ég því sem Ríkisendurskoðun hefur verið að vinna að, þ.e. að koma á siðareglum Ríkisendurskoðunar sem eru til í ágætri samantekt, og síðan könnun sem Ríkisendurskoðun beitti sér fyrir, á því hvaða ríkisstofnanir hefðu sett sér siðareglur og hver áformin væru í því efni. Við fengum nýlega niðurstöðu úr því. 200 stofnanir voru þar kannaðar og 15% þeirra höfðu sett sér siðareglur, sem eru nú ekki mjög margar, og einungis helmingurinn hafði áformað að setja sér slíkar reglur en hinn helmingurinn ekki. Ég tel mjög mikilvægt til að skapa ákveðna festu í stjórnsýslunni með því að ríkisstofnanir setji sér slíkar siðareglur. Það er einmitt tillaga um það í þinginu að það verði gert og teljum við sem stöndum að því þingmáli að með setningu slíkra reglna sé verið að tryggja meiri aga, vönduð vinnubrögð og ábyrga meðferð fjármuna í stjórnsýslunni. Verði slíkar reglur settar --- þær eru í mörgum ríkjum heims --- yrði unnið mjög markvisst að því að móta slíkar siðareglur fyrir starfsmenn ríkisins, ýmist fyrir stjórnsýsluna í heild eða einstakar starfsstéttir innan hennar.

Þessu vildi ég koma á framfæri. Ég vildi líka vekja athygli á því sem mér finnst þurfa að skoða sérstaklega --- ég hef að vísu rætt það við ríkisendurskoðanda og hann hefur skýrt sjónarmið sín í því efni --- hve mikið fjármagn af því sem Ríkisendurskoðun hefur til ráðstöfunar fer í aðkeypta þjónustu til að vinna ákveðin verkefni sem snúa að Ríkisendurskoðun. Ég hefði talið skilvirkara og ódýrara að meiri mannskapur kæmi að verkefnum Ríkisendurskoðunar frekar en að svo miklir fjármunir færu í aðkeypta þjónustu. Ég held engu að síður, þegar maður skoðar rekstrarumfang og kostnaðinn við að reka Ríkisendurskoðun, að hvergi sé of í lagt og það sé skylda okkar á þingi að búa vel að Ríkisendurskoðun þannig að hún geti sinnt sínu mikilvæga hlutverki.

Herra forseti. Ég vil enn og aftur ítreka það og koma á framfæri að forsn. skoði sérstaklega að setja ársskýrslu Ríkisendurskoðunar og ekki síst stjórnsýsluendurskoðanir í betri og skilvirkari farveg og þær fái þá umfjöllun á þingi sem þær eiga skilið.