Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2002

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 11:20:04 (928)

2003-10-30 11:20:04# 130. lþ. 18.1 fundur 109#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2002# (munnl. skýrsla), HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[11:20]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég átta mig ekki alveg á sjónarmiðum hv. þm. né hvað hann ætlast fyrir. Það liggur fyrir að fjárln. tekur marga mánuði er okkur óhætt að segja í að fara yfir fjárlagafrv. og fjallar einnig um fjáraukalög og auðvitað hljóta einstakir nefndarmenn í fjárln. að kynna sér þær skýrslur sem Ríkisendurskoðun hefur lagt fram hverju sinni þegar farið er yfir frv. til fjárlaga og þegar farið er yfir frumvörp til fjáraukalaga.

Jafnframt er það svo og nú á seinni árum hefur sú venja skapast að senda mál til umfjöllunar hjá fagnefndum og auðvitað hljóta þær fagnefndir í tengslum við þá vinnu sem tengist fjárlagagerðinni að fara yfir þær skýrslur Ríkisendurskoðunar sem lagðar hafa verið fram síðan síðustu fjárlög voru afgreidd til að glöggva sig á hvað þar stendur og með hvaða hætti þær skýrslur skýra starfsemi viðkomandi stofnunar.

Ég hef verið alllengi hér á Alþingi, að vísu ekki jafnlengi og hv. þm., en mín reynsla af þingmönnum er sú að þeir vilji vinna verk sín vel og ég efast ekki um að þeir athugi þessi mál gaumgæfilega og fari yfir skýrslur Ríkisendurskoðunar þegar nauðsynlegt er og þeim þykir þörf á við úrvinnslu mála í þingnefndum.